Baksvið
Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Dýpkunarskipið Tristão da Cunha er komið til Hornafjarðar þar sem það mun vinna að dýpkun í innsiglingunni að höfninni, Grynnslunum svonefndu.
Vegagerðin auglýsti í fyrrasumar fyrir hönd Hornafjarðarhafnar verkið „Hornafjörður – dýpkun á Grynnslunum 2025“.
Óskað var eftir dýpkunarskipi á tímagjaldi til að vinna að dýpkun í innsiglingarrennu þegar veðurskilyrði leyfðu. Verktími var frá 2. janúar til 15. mars 2025.
Eftirtaldir lögðu fram tilboð og eru stig bjóðenda í tæknilegu hæfi reiknuð skv. útboðsskilmálum, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.
Jan de Nul nv. 90 stig, Björgun hf. 75 stig og Gebr. van der Lee Dredging B.V 60 stig.
Gengið var til samninga við Jan de Nul, sem er belgískt fyrirtæki en skráð í Lúxemborg. Samningsupphæðin er tvær milljónir evra, eða um 292 milljónir íslenskra króna. Þetta er eitt stærsta fyrirtæki heims á sínu sviði og gerir út tugi skipa.
Öflugt skip í verkið
Það mun nota til verksins öflugt skip, Tristão da Cunha. Það var smíðað árið 2019 og er 90 metra langt og 22 metrar að breidd. Skipið er 5.500 brúttótonn. Jan de Nul hefur áður unnið að dýpkun hér við land.
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er reiknað er með að skipið geti unnið á bilinu 10-20% eða þegar aldan er undir 2,0 metrum. Áætlað er að skipið muni dæla upp á bilinu 150.000 til 250.000 rúmmetrum af sandi af hafsbotni.
Þegar siglt er inn til Hornafjarðar þarf að fara um svokölluð Grynnsli en þar þarf að dæla sandi reglulega og viðhalda eins konar rennu í botninum til að skip komist um með góðu móti.
Sigurður Ingi Jóhannsson þáverandi innviðaráðherra fól Vegagerðinni sumarið 2023 að hefja aðgerðir við dýpkun innsiglingarleiðar að Höfn í Hornafirði um Grynnslin utan við Hornafjarðarós og tryggja þannig áfram rekstrarhæfi hafnarinnar. Aðgerðir átti að vinna í samstarfi við sveitarfélagið og Hornafjarðarhöfn. Málið var kynnt á ríkisstjórnarfundi á sínum tíma.
Fram kom í tilkynningu innviðaráðuneytisins á sínum tíma að danska ráðgjafarfyrirtækið DHI hefði unnið að rannsóknum í innsiglingunni á þessum slóðum, þ. á m. dýptarmælingum sem staðfestu að aðstæður eru erfiðar vegna sandburðar. Markmiðið væri að kortleggja enn betur strauma og leita hagkvæmustu leiða til viðhalda æskilegu dýpi í innsiglingunni til framtíðar.
Niðurstöður rannsókna DHI bentu til þess að siglingarennan sem dýpka þarf í gegnum Grynnslin fylltist nokkuð hratt af sandi í óveðrum. Viðvarandi dýpkun væri því mikilvæg svo hægt yrði að nýta þau tækifæri sem gæfust til þess að dýpka og viðhalda æskilegu dýpi.
Þessi sandsöfnun í Grynnslunum hefur valdið vandræðum m.a. vegna þess að ný fiskiskip Hornfirðinga eru stærri og rista dýpra en eldri skipin. Umsvifamesta útgerðin er Skinney-Þinganes, sem hefur yfir að ráða öflugum skipum.
Þá hefur það gerst í nokkur skipti að flutningaskip hafa tekið niðri.