Spjaldtölva Veik börn fá oftar en ekki mun meiri skjátíma en venjulega og geta fljótt orðið eirðarlaus við að þurfa að hanga inni.
Spjaldtölva Veik börn fá oftar en ekki mun meiri skjátíma en venjulega og geta fljótt orðið eirðarlaus við að þurfa að hanga inni. — Ljósmynd/Colourbox
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Janúar er að kveðja og febrúar rétt handan við hornið. Þótt margir séu farnir að hlakka til þess að sjá fyrstu vísbendingar um vorið í lofti, lætur veturinn enn finna fyrir sér – bæði með snjó og öðrum óþægilegum fylgifiskum sínum, eins og pestum

Rósa Margrét Tryggvadóttir

rosa@mbl.is

Janúar er að kveðja og febrúar rétt handan við hornið. Þótt margir séu farnir að hlakka til þess að sjá fyrstu vísbendingar um vorið í lofti, lætur veturinn enn finna fyrir sér – bæði með snjó og öðrum óþægilegum fylgifiskum sínum, eins og pestum.

Foreldrar leikskólabarna þekkja þetta allt of vel: sífelld veikindi sem hoppa milli kríla og halda heimilum í stöðugri sveiflu á milli hitamælis og tepotts. Inflúensan er komin á kreik og margir foreldrar standa frammi fyrir þeirri áskorun að hafa veikt barn heima, með misgóðum árangri í að skemmta litlum félögum sem oft eru fullir af orku.

Veikindavertíð barna var til umræðu í þættinum Ísland vaknar á K100 á dögunum, þegar Bolli Már, annar stjórnandi þáttarins, sagði frá því hvernig hann eyddi degi heima með þriggja ára dóttur sinni. Hún var með smá hita og gat því ekki farið í leikskólann.

Bolli staðfesti að hún hefði sem betur fer ekki verið alvarlega veik, heldur full af orku og alls ekki verið skemmt yfir að hanga heima með pabba allan daginn.

Dagurinn hafði byrjað vel, en eftir marga klukkutíma af púsli, perlum og sjónvarpsglápi var þeim feðginum farið að leiðast. Að lokum reyndi litla stúlkan að strjúka út úr húsi, en sem betur fer náðu foreldrarnir að stöðva hana í tæka tíð. Í beinni útsendingu leitaði Bolli því til hlustenda eftir hugmyndum til að gera daginn skemmtilegri fyrir bæði foreldra og börn í svipuðum aðstæðum.

K100 tók saman nokkrar skemmtilegar hugmyndir með hjálp hlustenda, ásamt fleiri ráðum til að dreifa huganum þegar veikindadagar krefjast inniveru:

Tjalda innandyra

Þór Bæring deildi sinni reynslu af því að setja upp tjald í stofunni og búa til „útilegu“ innandyra. Börnin voru í ævintýragír allan daginn.

Skipta um hlutverk

Láta barnið „hjúkra“ foreldrinu. Barnið getur speglað það hvernig foreldrið sér um það og skemmt sér í leiðinni.

Herma eftir Blæju

Vinsæl tillaga var að horfa á þættina Blæja (Bluey) og síðan leika eftir leikina sem hundarnir stunda með foreldrum sínum í þáttunum. Þetta getur verið allt frá einföldum þykjustuleikjum yfir í að setja upp „keppni“ með húsgögnum og öðrum heimilistólum. Þess má geta að framleiðendur áströlsku barnaþáttanna bjóða jafnvel upp á leiðbeiningar (á ensku) þar sem nokkrir af leikjunum úr Blæju eru útskýrðir. Það má finna á vefsíðunni www.bluey.tv/play.

Sköpunarverkefni

Föndur getur bjargað heilum degi. Búa til slím, mála með vatnslitum eða föndra úr efnum sem þegar eru til á heimilinu.

Hvar er Valli? og aðrar þrautir

Leikir á borð við Hvar er Valli? (Where’s Waldo?) og fleiri þrautabækur geta algjörlega slegið í gegn. Börn elska að kafa ofan í myndir og finna hluti sem eru faldir. Þetta styrkir athyglisgáfu og heldur litlum krílum uppteknum í dágóða stund.

Leyndarmálaflaska

Fyrir krakka sem hafa gaman af því að finna Valla eru leyndarmálaflöskur algjör snilld en þær getur þú búið til með nokkuð einföldum hætti. Þú þarft bara tóma plastflösku, hrísgrjón eða perlur, og litla hluti (t.d. smáhluti úr föndur- eða leikfangakössum). Fylltu flöskuna með efni og hlutum, og skreyttu með lista yfir það sem barnið á að finna inni í flöskunni. Þetta er frábær leikur sem örvar athygli.

Þrautir og fjársjóðsleit

Setja upp þrautabraut með húsgögnum eða fela hluti um húsið og skipuleggja fjársjóðsleit. Þetta kallar á hreyfingu og hugmyndaauðgi.

Baka saman

Einföld uppskrift að smákökum eða muffins getur verið bæði skemmtileg og bragðgóð leið til að verja tíma saman.

Lestur og sögustund

Bókmenntir eru alltaf góð hugmynd. Finnið góðar barnabækur, búið til notalegt leshorn og lesið saman. Ef foreldrarnir hafa næga orku gæti einnig verið gaman að semja nýjar sögur með barninu.

Höf.: Rósa Margrét Tryggvadóttir