Flokkurinn Annar kostur fyrir Þýskaland (AfD) flýgur hátt í skoðanakönnunum um þessar mundir. Tæpur mánuður er í kosningar í Þýskalandi og flokkurinn hefur næstmest fylgi samkvæmt skoðanakönnunum.
Þótt flokkurinn hafi stuðning um fimmtungs kjósenda vilja aðrir flokkar í landinu ekki líta við honum.
Ein helsta ástæðan fyrir gengi AfD er útlendingamál og undanfarna daga hefur hitinn í þeirri umræðu verið að snarmagnast. Ástæðan er hnífstunguárás afgansks innflytjanda í almenningsgarði í Aschaffenburg í Bæjaralandi 22. janúar. Tveggja ára gamalt barn lést í árásinni og einn maður, sem hugðist stöðva árásarmanninn.
Það hefur valdið mikilli reiði í Þýskalandi að maðurinn hefði ekki átt að vera í landinu. Að auki hafði hann margfaldlega gert sig sekan um ofbeldi og ógnandi framgöngu. Engu að síður lék hann lausum hala.
Mörgum finnst stjórnvöld ekki taka á þessum málum af nægilegri festu og saka þau um að sópa því undir teppið. AfD reynir einmitt að leita stuðnings með því að tappa af þessari óánægju.
Útlendingamál og hælisleitendur voru til umræðu á þýska þinginu í gær. Þar voru ræddar tvær þingsályktunartillögur kristilegra demókrata. Friedrich Merz, leiðtogi þeirra og kanslaraefni í kosningunum, hefur tekið harða afstöðu og vill stöðva og vísa burt öllum þeim, sem reyna að komast inn í landið með ólöglegum hætti, hvort sem þeir eru hælisleitendur eða ekki.
Kristilegir demókratar hafa hafnað öllu samstarfi við AfD eins og aðrir flokkar í landinu. Í samþykktum flokksins segir að ekkert samstarf við AfD komi til greina, „hvorki með beinum né óbeinum hætti“. Flokkurinn sleppti því meira að segja í fyrra að leggja fram útlendingafrumvarp af því að hætta var á að það fengi „tilviljunarmeirihluta“ (já, þetta orð er til í þýsku) vegna stuðnings AfD.
Nú segja stjórnarflokkarnir að kristilegir demókratar séu að rjúfa eldvegginn, sem reistur hefur verið í kringum AfD á þýska þinginu. Merz svarar því til að ástandið sé svo alvarlegt að honum sé sama hvaðan stuðningurinn við þingsályktanirnar komi, „við horfum ekki til hægri, við horfum ekki til vinstri, við horfum beint áfram“, svo vitnað sé í frétt frá AFP.
Í umræðum á þýska þinginu í gær mátti heyra fleiri en einn þingmann segja að vandamálið væri ekki þessi atkvæðagreiðsla, heldur að stjórnvöld hefðu brugðist í innflytjendamálum og þess vegna ryki stuðningur við AfD upp. Innflytjendamál eru eins og heit kartafla í pólitík víðar en í Þýskalandi og það getur verið afdrifaríkt að hafast ekki að.