Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðar um lögmæti verkfallsaðgerða kennara á morgun, föstudag. Hópur foreldra leikskólabarna höfðaði mál gegn Kennarasambandi Íslands vegna verkfallanna. Aðalmeðferð fór fram í gær.
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari gerir ráð fyrir að í dag verði boðað til fundar í kjaradeilu kennara, ríkis og sveitarfélaga. Stefnt er að því að gera úrslitatilraun til að höggva á hnútinn í deilunni áður en verkfallsaðgerðir hefjast á ný á mánudag. Ekki liggur þó fyrir hvenær fundurinn verður. Spurður hvort það þýði að einhver árangur hafi náðst í samtölum á milli deiluaðila síðustu daga segir hann það ekki endilega vera svo.
„Það þýðir að það þarf að minnsta kosti að draga saman einhvers konar niðurstöðu af þessu ferli,“ sagði Ástráður í samtali við mbl.is síðdegis í gær.
Hann sagði blasa við að verkföll myndu hefjast eftir helgina, þannig þyrfti að gera úrslitatilraun til að höggva á hnútana.
Líkt og fram hefur komið hefur lítill sem enginn framgangur orðið í viðræðunum frá því samkomulag um friðarskyldu var gert í lok nóvember og verkföllum frestað.
Deiluaðilar hafa ekki hist á formlegum samningafundi frá því á miðvikudaginn í síðustu viku. Þá var reynt til þrautar að finna grundvöll að frekara samtali, án árangurs.
Sá þá ríkissáttasemjari ekki tilefni til að boða til frekari funda, nema eitthvað gæfi tilefni til. Samtöl hafa þó átt sér stað á milli deiluaðila og einhverjar þreifingar verið í gangi. solrun@mbl.is