Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Ég fékk áhugavert símtal í vikunni.
Gamall kunningi kvaðst vera ósáttur við aðkomu Gunnars Magnússonar, fyrrverandi aðstoðarþjálfara íslenska karlalandsliðsins í handbolta, að leik Íslands og Króatíu á HM á dögunum.
Gunnar mun hafa leikgreint íslenska liðið fyrir Dag Sigurðsson, þjálfara króatíska liðsins.
„Dagur er þjálfari Króata, þetta er hans vinna og ekkert eðlilegra en að hann leggi sig allan fram til sigurs gegn hvaða mótherjum sem er.
Gunnar er hins vegar fyrrverandi aðstoðarþjálfari landsliðsins, er starfandi sem þjálfari Aftureldingar í dag og hefur þjálfað marga af landsliðsmönnunum, eins og t.d. Þorstein Leó Gunnarsson.
Ég skil ekkert í honum að svíkja land og þjóð á þennan hátt og afhenda mótherjum Íslands innanhússupplýsingar um íslenska liðið,“ sagði kunninginn enn fremur.
Það má alveg taka undir þetta sjónarmið.
Eflaust er þarna um vinargreiða að ræða og með allri þeirri tækni sem er til staðar varðandi upptökur og leikgreiningar í dag ætti ekki að breyta miklu hvaðan Dagur fékk upplýsingar um lið Íslands.
En þarna má hins vegar setja spurningu við siðferðið. Vissulega er handbolti bara leikur.
En yrðum við sátt ef fyrrverandi aðstoðarmaður utanríkisráðherra myndi gera úttekt á varnarmálum Íslands fyrir óvinveitta þjóð?
Ég er ekki viss um það.