— Morgunblaðið/Karítas
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dr. Bertrand G. Ramcharan sótti Ísland heim í vikunni en hann starfaði um áratugaskeið að mannréttindamálum á vegum Sameinuðu þjóðanna. Merkilegur maður sem braust úr fátækt til mennta og lauk doktorsprófi í lögfræði í London en bætti einnig við sig á efri árum gráðum í sagnfræði og heimspeki

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Dr. Bertrand G. Ramcharan sótti Ísland heim í vikunni en hann starfaði um áratugaskeið að mannréttindamálum á vegum Sameinuðu þjóðanna. Merkilegur maður sem braust úr fátækt til mennta og lauk doktorsprófi í lögfræði í London en bætti einnig við sig á efri árum gráðum í sagnfræði og heimspeki. Ramcharan var hingað kominn til að vera viðstaddur útför Jakobs Þ. Möller, lögfræðings og kollega hjá Sameinuðu þjóðunum.

„Við kynntumst árið 1974 þegar ég hóf störf hjá Sameinuðu þjóðunum. Hann hafði byrjað þar tveimur árum fyrr og við urðum fljótt mjög góðir vinir auk þess að starfa saman,“ segir Ramcharan þegar Morgunblaðið ræðir við hann eftir að Ramcharan hafði fylgt vini sínum síðasta spölinn á þriðjudag.

Ræðuskrifari aðalritarans

Bertrand Ramcharan starfaði í 32 ár fyrir SÞ og hélt raunar áfram að taka að sér verkefni eftir að hann fór formlega á eftirlaun árið 2006. Hann var um tíma settur mannréttindastjóri SÞ og fór fyrir teymi ræðuskrifara aðalritara SÞ á árunum 1988-1992. Starfaði þá með Javier Perez de Cuellar og stuttlega með Boutros Boutros-Ghali. Ramcharan er óspar á lofið til handa Jakob heitnum og telur ólíklegt að hinn almenni Íslendingur geri sér grein fyrir hversu mikillar virðingar Jakob naut hjá Sameinuðu þjóðunum. Jakob bjó í áratugi erlendis og var framgangur hans því fremur fjarlægur flestum hérlendis.

„Hann var faglegur, heiðarlegur og bjó yfir góðri dómgreind sem einkenndi störf hans. Jakob var í lykilhlutverki hjá SÞ þótt það sé ekki endilega á allra vitorði. Ég myndi lýsa honum eins og umboðsmanni SÞ [í sama skilningi og umboðsmaður Alþingis] þótt ekki hafi það verið starfstitillinn. Á erfiðum tímum þegar kalda stríðið setti mark sitt á allt þá bárust mannréttindaskrifstofu SÞ margar kvartanir og ábendingar um mannréttindabrot. Árið 1947 hafði mannréttindaskrifstofan komist að þeirri niðurstöðu að hún hefði ekki burði til að skerast í leikinn í slíkum málum með beinum hætti. Jakob var hins vegar maðurinn sem valdi mál sem hann mælti með að aðalritari SÞ beitti sér fyrir á bak við tjöldin. Mál eða aðstæður þar sem Jakob sá að SÞ gæti hjálpað fólki. Vinna sem skipti marga miklu máli þótt ekki væri það dramatískt eða umtalað.“

Hér heima kann fólk að hafa tekið eftir því í umfjöllun fjölmiðla að Jakob Þ. Möller var í embætti dómara vegna stríðsins á Balkanskaganum. Um þetta segir Ramcharan í minningargrein um Jakob hér í blaðinu á þriðjudaginn. „Jakob gegndi einnig lykilhlutverki sem alþjóðlegur dómari í tíu ár við Mannréttindadómstól Bosníu-Hersegóvínu. Hann var viðurkenndur sem leiðandi meðal dómaranna og átti stóran þátt í að þróa lagatúlkun dómstólsins með grundvallarreglur og visku að leiðarljósi,“ skrifaði Ramcharan meðal annars.

Fimmta Íslandsheimsóknin

Ramcharan segir að hann gæti nefnt ýmis fleiri ábyrgðarstörf sem Jakob hafi verið treyst fyrir. Sem dæmi nefnir hann að Jakob hafi verið ritari mannréttindanefndar SÞ. „Það er mikil ábyrgðarstaða því að þar ráðleggur hann formanni nefndarinnar í þær sex vikur sem ráðið kemur saman,“ útskýrir Ramcharan sem hefur áður sótt Ísland heim. Hann er sjálfur frá ríki þar sem íbúafjöldi er undir milljón, Gvæjana í Suður-Ameríku.

„Þetta er líklega fimmta heimsókn mín til Íslands. Ég kom og flutti fyrirlestur með Jakob í Háskólanum á Akureyri og eitt sinn var ég viðstaddur ráðstefnu um málefni norðurslóða sem fyrrverandi forseti Íslands stóð fyrir [Ólafur Ragnar Grímsson]. Auk þess heimsótti ég Ísland tvívegis í einkaerindum. Ég kann vel við mig hérna og tel að hér sé mjög athyglisvert þjóðfélag. Í athöfninni í kirkjunni fannst mér ég sjá blöndu af góðmennsku, aga og fagmennsku.“

Diplómatískar aðgerðir

Spurður um stöðu mannréttinda í heiminum í dag gefur Ramcharan engan afslátt.

„Frá því ég hóf störf hjá SÞ hefur staða mannréttindamála í heiminum verið afar slæm og það hefur ekki breyst. Á tímum kalda stríðsins, sem kalla má fyrra kalda stríðið eða fram til 1990, gerðum við okkur grein fyrir að hugmyndin um að bæta mannréttindi þyrfti að veita okkur innblástur. Jafnframt vissum við að slíkt krefðist mikilla diplómatískra aðgerða og þar lagði Jakob einmitt sín lóð á vogarskálarnar. SÞ hefur fallið í þá gryfju að reyna heldur að predika frekar en að fara diplómatísku leiðina. Þegar þú predikar yfir valdamiklum ríkjum þá skilar það ekki árangri. SÞ þarf að átta sig á því hvar styrkleikar og veikleikar samtakanna liggja. Nýta þarf styrkleika SÞ á sem bestan hátt og gera sér grein fyrir veikleikunum um leið,“ segir Ramcharan og bætir því við að SÞ geti beitt sér fyrir því að ríki setji mannréttindamál sjálf á dagskrá.

Ábyrgð ríkjanna sjálfra

„Eitt mikilvægasta verkefnið er að aðstoða ríki við að verja mannréttindi þannig að þau geti sjálf komið á slíku skipulagi innan þess ríkis. Þegar upp er staðið gæti það mögulega aukið líkurnar á því að hægt verði að koma í veg fyrir mannréttindabrot í framtíðinni,“ segir Ramcharan sem er enn mjög virkur þótt hann verði 82 ára í apríl.

Hann er iðinn við að skrifa greinar og bækur um mannréttindamál og fleira sem snýr að alþjóðastjórnmálum og alþjóðasamskiptum.

Framtíð SÞ

Mannúð sé
í forgrunni

Þegar dr. Ramcharan er spurður um framtíð SÞ nefnir hann atriði sem leggja megi áherslu á.

„SÞ hefur staðið sig vel í mannúðaraðstoð og gerlegt er að halda því áfram. Sama má segja um Unicef þar sem SÞ beitir sér fyrir því að hjálpa börnum. SÞ á að aðstoða ríki við að koma í veg fyrir mannréttindabrot eða þjóðernisátök. Varðandi fátækt er ég ekki viss um að það gagnist að setja sér alls kyns markmið um sjálfbærni árið 2030 þótt SÞ geti gagnast í viðleitni til að hjálpa fátækasta fólki heims. Töluvert er tekist á um friðargæslu en hlutverk SÞ er alla vega ekki að taka þátt í hernaði. SÞ getur komið að gagni sem sáttasemjari ef ríki óska eftir því.“

Höf.: Kristján Jónsson