Kvöldverðarboð leiðtoga Norðurlanda heima hjá Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur á sunnudag hefur vakið verðskuldaða athygli, en norrænar þjóðir stilla nú saman strengi sína í varnar-, öryggis- og utanríkismálum með mun afdráttarlausari hætti en áður.
Það er hins vegar áhyggjuefni af hverju forsætisráðherra Íslands var ekki við borðið.
Kristrún Frostadóttir hefur gefið skýringar á því, en þó ekki skýrari en svo að alls ekki er ljóst hvort henni var boðið eða ekki.
Líkt og fram kemur í Morgunblaðinu í dag segir forsætisráðherra að sér hafi verið gert viðvart um gestaboð Mette með skömmum fyrirvara, en í viðtali við Rúv. sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir verðandi þingforseti fyrirvarann svo skamman að kalla mætti „eftiráboð“ en ekki hefði þótt „svara kostnaði að skella sér til Køben“!
Þetta ber vott um meiri
léttúð en viðeigandi er um
slík alvörumál og hagsmuni Íslands.
Alþjóðamál eru í meiri deiglu nú en allt frá lokum kalda stríðsins og Íslendingar þurfa að gæta hagsmuna sinna af alefli. Eigi Íslendingar þess kost að ræða við granna okkar og bandamenn verða stjórnvöld að grípa tækifærið, sama hvað fyrirvarinn er stuttur. Og ef þeim er ekki ætlað sæti við það borð kallar það á tafarlaus viðbrögð.