Hátækni Snjallsiglingatækni frá Hefring Marine nýtir nema og gervigreind til að veita skipstjórnendum ráðleggingar um siglinguna.
Hátækni Snjallsiglingatækni frá Hefring Marine nýtir nema og gervigreind til að veita skipstjórnendum ráðleggingar um siglinguna. — Ljósmynd/Redningsselskapet
Hátæknifyrirtækið Hefring Marine tilkynnti á dögunum að gengið hefði frá samningi við norska björgunarfélagið, Redningsselskapet (RS), um kaup og uppsetningu á snjallsiglingakerfinu IMAS í öllum flota björgunarfélagsins

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Hátæknifyrirtækið Hefring Marine tilkynnti á dögunum að gengið hefði frá samningi við norska björgunarfélagið, Redningsselskapet (RS), um kaup og uppsetningu á snjallsiglingakerfinu IMAS í öllum flota björgunarfélagsins.

„Þessi samningur markar mikilvægan áfanga í samstarfinu sem hófst árið 2020, þegar Redningsselskapet tók í notkun frumgerð IMAS-kerfis Hefring Marine. Í gegnum árin hefur samstarfið vaxið jafnt og þétt og nýta nú átta skip hið nýja kerfi,“ sagði í tilkynningunni.

RS upplýsir að áætlanir geri ráð fyrir að kerfinu verði komið fyrir í 50 björgunarskipum á árunum 2025 og 2026, en vekur jafnframt athygli á að markmiðið sé að koma kerfinu í öll 58 björgunarskip félagsins.

„Við höfum gert valréttarsamning um kaup á meira, ef við viljum líka setja IMAS í stuðningsskip okkar. Við hlökkum til að nota kerfið til að draga úr útblæstri sem tengist leit, björgunaraðgerðum, aðstoð og æfingum. Kerfið mun einnig stuðla að öruggari rekstri björgunarbátanna með því að fylgjast með álagi á áhöfn og búnað,“ segir RS í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Ekki verður upplýst um umfang fjárfestingarinnar.

Miklir kostir

Fram kemur í tilkynningu Hefring að kaup RS á IMAS-kerfinu hafi verið niðurstaða tveggja ára samkeppnisvalferlis, en um er að ræða tæknilausn sem byggist á samspili gervigreindar og skynjara, sem gerir skipstjóra betur kleift að meta og taka ákvarðanir um hraða skips, siglingaleið og siglingalag.

Kerfið virkar í gegnum nema sem komið er fyrir á skrokk skips og neðan á stóla áhafnar og þeir tengdir við siglingatölvu skipanna. Þannig er fylgst stöðugt með sjólagi, ölduhæð og höggum sem skipsskrokkurinn verður fyrir við siglinguna og gervigreindin les stöðugt það sem nemarnir skynja og gefur skipstjóra ráðleggingar um stjórn skipsins. Þannig minnkar álag á skrokk skipsins, eykst öryggi áhafnar og dregur úr eldsneytisnotkun.

„Við erum gríðarlega stolt af samstarfi okkar við Redningsselskapet og full dreifing IMAS á allan flota þeirra sjóbjörgunarskipa markar mikilvæg tímamót í ferð okkar saman,“ sagði Karl Birgir Björnsson, forstjóri Hefring Marine, í tilkynningunni. „Þessi ákvörðun styrkir hollustu okkar við að styrkja Redningsselskapet í björgunarverkefni sínu á sjó. Með tækni okkar sem er hönnuð til að auka öryggi á sjó erum við spennt að sjá hana gegna lykilhlutverki í svo mikilvægum rekstri.“

Í ný skip Landsbjargar

RS er ekki fyrsta björgunarfélagið sem gerir samning um notkun búnaðarins og var í ársbyrjun 2024 greint frá því að Slysavarnafélagið Landsbjörg hefði gert samning við Hefring um að koma IMAS-kerfi fyrir í öllum nýjum björgunarskipum Landsbjargar, en unnið hefur verið að því undanfarin ár að endurnýja allan björgunarskipaflota landsins.

Var fyrsta kerfið sett í björgunarskipið Þór í Vestmannaeyjum og síðan í Sigurvin á Siglufirði, Jóhannes Briem í Reykjavík og Björgu á Rifi.

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson