Narfi Hjartarson fæddist að Mið-Meðalholtum í Gaulverjabæjarsókn 6. mars 1933. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Skógarbæ 14. janúar 2025.

Foreldrar hans voru Hjörtur Níelsson, f. 30.9. 1899, d. 17.7. 1970, og Guðlaug Narfadóttir, f. 8.10. 1897, d. 14.2. 1984.

Alsystkin Narfa voru: Guðjón Örnólfur, f. 19.10. 1927, d. 18.6. 1992; Magnús Breiðfjörð, f. 2.12. 1929, d. 27.4. 2018; Ingveldur Ásta, f. 7.7. 1934, d. 23.2. 2019; Sigurþór, f. 3.8. 1937, d. 20.12. 2019. Sammæðra systkin: Ólafur Halldórsson Bachmann, f. 28.9. 1920, d. 26.3. 2002; Halldór Bachmann, f. 2.10. 1922, d. 10.4. 2000.

Narfi giftist Höllu Janusdóttur, f. 30.9. 1935, d. 19.9. 2023, þann 30.9. 1955. Foreldrar hennar voru Janus Þorbjarnarson, f. 14.8. 1903, d. 25.3. 1989, og Jóna Magnúsína Þóroddsdóttir, f. 7.1. 1900, d. 13.12. 1981.

Börn þeirra eru: 1) Guðlaug, f. 1955, dætur hennar eru: Halla Birgisdóttir, gift Vali Fannari Þórssyni og eiga þau þrjú börn, Þóri Fannar (stjúpsonur Höllu), Snæbjörtu og Erlu, og Lára Sigríður Lýðsdóttir, gift Arinbirni Haukssyni og eiga þau þrjú börn, Hauk Loga, Rakel Birtu og Kolbein Mána. 2) Magnús Jenni, f. 1958, giftur Margréti I. Svavarsdóttur. Synir þeirra eru: Brynjar, kvæntur Aðalheiði Kristínu Jónsdóttur og eiga þau eina dóttur, Rós, og Guðmundur Narfi, sambýliskona Guðbjörg Ósk Jónsdóttir. 3) Hjörtur, f. 1966, giftur Fjólu Heiðrúnu Héðinsdóttur. Með fyrri konu sinni Gígju Viðarsdóttur á hann þrjá syni: Daníel Frey sem er giftur Önnu Kristínu Pálsdóttur, Tómas Helga og Jakob Bjarka.

Narfi lærði til stýrimanns og var á sjó fram til 1955. Hann var með í stofnun leigubílastöðvarinnar Bæjarleiða og ók og rak leigubíl í um 20 ár. Hann fór út í verslunarrekstur 1974 og starfaði restina af starfsævi sinni í fyrirtækjum þeirra hjóna, Sunnutorgi, Sundanesti og Vogakaffi.

Útför fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 30. janúar 2025, klukkan 13.

Brosandi herramaður við eldhúsborðið í Blönduhlíðinni sem var tilbúinn að ræða öll heimsins mál, þannig minning er það fyrsta sem leitar upp í hugann hjá mér þegar ég hugsa til afa. Hlýr maður sem hafði alltaf tíma og áhuga á því sem við fjölskyldan tókum okkur fyrir hendur og gat alltaf lagt eitthvað til málanna og gefið góð ráð. Í dag kveðjum við afa, full þakklætis fyrir allt sem hann gaf okkur; tíma, leiðsögn og hlýju í gegnum árin.

Afi Narfi var duglegur maður og afar nýtinn, og hann var alltaf með verkefni í vinnslu. Meðal margra verkefna var viðhaldið á heimili þeirra hjóna og sumarbústað, Dalbæ. Oft í miðju samtali og án fyrirvara var maður kominn með 30 ára gamlan pensil og götótta fötu upp á þak að mála. Hann tilheyrir kynslóð sem kunni að fara vel með hlutina og það hugarfar leyndi sér ekki. Dæmin eru mörg. Verkfæraúrvalið hans bar þess merki og ekki síst Dalbær sem er málaður í margvíslegum brúnum tónum. Litavalið var ekki afrakstur smekkvísi, þetta litaval gerðist vegna þess að afi blandaði saman viðarvörnum sem hann hafði sankað að sér í gegnum árin. Og útkoman var þessi margbreytilegi brúni litur á bústaðnum.

Afi var mikill veiðimaður þótt vissulega væri aflinn oft ekki í samræmi við tímann sem hann varði í veiðarnar. Afi hló manna hæst að óförum sínum í þeim efnum. Ósjaldan man ég eftir að hann var að pakka og gera sig tilbúinn í veiðitúr. Aldrei man ég þó eftir að hann hafi komið heim með fisk, nema einu sinni veiddi hann ál. Eitt sinn beit þó stóri laxinn á hjá honum og það var mikil stund. Þá dugði ekkert minna en að kalla til blöðin. Stór mynd birtist af afa með aflann í Dagblaðinu, skælbrosandi. Sú mynd var sett í ramma og oft rædd yfir kaffinu – jafnvel áratugum seinna.

Ég mun sakna þess að fara í kaffi til afa. Flatkökur, sætabrauð og kaffi. Þunnt kaffi ef afi sá um uppáhellinguna en rótsterkt ef ég var við stjórnina. Það besta við kaffið voru þó sögustundirnar sem fylgdu. Þegar afi fór á flug og sagði frá lífsreynslu sinni og stórum verkefnum sem hann hafði tekist á við sem ungur maður. Hann var alla ævi harðduglegur og hafði þurft að stíga upp í stór hlutverk sem ungur maður. Hann barmaði sér þó ekki, heldur virtist hafa lært margt af þeim verkefnum sem lífið færði honum og lærdómnum miðlaði hann til okkar. Síðar stundaði hann ýmis viðskipti og þar fór fyrir úrræðagóður maður. Að heyra um þetta allt mörgum árum seinna hefur verið ómetanlegt í gegnum árin og skemmtanagildið oft töluvert.

Samband afa og ömmu var einstakt alla tíð en þau hefðu fagnað 70 ára brúðkaupsafmæli í ár. Virðing og traust einkenndi samband þeirra og það þótti mér alltaf aðdáunarvert.

Elsku afi, takk fyrir allar ferðirnar í Dalbæ, kaffispjallið og góðu ráðin. Takk fyrir að kenna mér að vera duglegur og að takast alltaf á við þau verkefni sem mér eru falin. Takk fyrir að vera hlýr og einstakur maður sem ég hef alltaf getað treyst á. Minning þín og brosið þitt hlýja lifir um alla tíð.

Daníel Freyr Hjartarson.

Elsku afi minn.

Þú varst friðsæll þegar ég sá þig að morgni 14. janúar síðastliðins enda trúi ég því að þú hafir verið sáttur og tilbúinn að kveðja þennan heim. Þú varst sáttur við þitt hlutskipti.

Þú varst stór partur af mínu lífi, elsku afi, alla tíð, og svo miklu meira en bara afi minn. Blönduhlíðin var minn griðastaður í æsku og þaðan á ég margar af mínum bestu minningum. Þegar ég svo flutti til ykkar ömmu í risið eftir að ég fullorðnaðist urðum við enn nánari. Það var alltaf svo gott að vera í Blönduhlíðinni hjá ykkur. Þar leið mér vel.

Þú varst alltaf svo hlýr og góður við mig, elsku afi. Ég man þegar þú sast í stólnum þínum, í sjónvarpsholinu, og skarst hýði utan af epli fyrir okkur tvö, það var töfrum líkast hvernig hýðið hlykkjaðist niður í einni stórri rauðri rönd. Eða þegar þú sýndir mér töfrabragðið þegar þú tókst af þér puttann, það var ótrúlegt. Eða þegar þú sagðir mér söguna af sjóferðinni þegar allar kartöflurnar kláruðust og þú misstir tennurnar. Sú saga var ósjaldan sögð og ég alltaf jafn gáttuð. Svo var það handabandið: sæll og blessaður, algjörlega ógleymanlegt.

Þegar langafabörnin fóru að bætast í hópinn eitt af öðru kenndir þú þeim að sjálfsögðu handabandið og sýndir þeim töfrabragðið góða með puttann og það var svo dásamlegt að fylgjast með. Þú varst svo glaður og stoltur af langafabörnunum þínum.

Svo voru það allar góðu stundirnar sem við áttum í Dalbænum. Það var alltaf svo dásamlegt að vera þar með ykkur ömmu. Við stoppuðum oft og fengum okkur ís í Þrastalundi, ekki ýsu heldur ís, og þú fékkst þér alltaf kúluís með rommi og rúsínum. Svo var spilaður svartipétur og það sem þú gast hlegið að því spili. En það er einmitt eitt af því sem ég á eftir að sakna hvað mest afi minn, það er hláturinn þinn, hann var svo innilegur. Það sem þú gast hlegið og það þurfti oft ekki mikið til. Eitt stutt svartapétursspil og þú hlóst langt ofan í maga, eins og maður segir.

Þótt það sé erfitt að kveðja þig, elsku afi minn, er gott að vita til þess hve sáttur þú varst við lífið. Þú varst alltaf þakklátur og stoltur af okkur, öllu fólkinu þínu. Þú kvartaðir aldrei og alltaf var stutt í grínið og spaugið hjá þér. Enda laðaðir þú fólk að þér með léttri lund þinni og góða hjartalaginu allt fram til dauðadags.

Mér hlýnar í hjartanu við að hugsa til þess að nú sértu kominn til ömmu. Hún hefur tekið á móti þér opnum örmum og eflaust búin að baka handa þér pönnsur og hella upp á.

Takk fyrir allt, elsku afi minn. Takk fyrir að vera alltaf til staðar fyrir mig, styðja mig og fyrir að hugsa alltaf svo vel um mig.

Þar til við sjáumst næst, ég elska þig.

Þín,

Halla.

Góður veiðifélagi og formaður Veiðifélags Hvítármanna, Narfi Hjartarson, er látinn nær 93 ára að aldri. 

Upphaf kynna minna af Narfa tengjast Súðarvogi í Reykjavík þar sem Narfi rak veitingasölu á sama tíma og eiginmaður minn, Helgi Skúlason húsasmíðameistari, átti atvinnuhúsnæði við sömu götu. Þeir voru báðir miklir veiðimenn sem og áhugamenn um bridge-spilamennsku. Má nærri geta hvert umræðuefnið var þegar þeir hittust. Helgi lést árið 2019.

Narfi og Helgi voru meðal stofnenda Veiðifélags Hvítármanna á síðari hluta níunda áratugar síðustu aldar. Það var hópur ráðsettra karla sem tengdust að hluta fyrirtækinu BM Vallá sem kom sér saman um að leigja veiðirétt tveggja stanga í Hvítá eystri af bændunum í Oddgeirshólum. Fjárfest var í nýlegum vinnuskúr sem félagar breyttu í laglegasta veiðihús. Húsið stendur enn á bökkum Hvítár þar sem það hefur á síðustu áratugum staðið af sér a.m.k. tvær klakastíflur og stórflóð. Veiðidögum er skipt jafnt á milli félaga en veiðihollin eru níu talsins.

Aðalfundir í veiðifélaginu eru haldnir ár hvert og var Narfi formaður stjórnar lengst af. Fundirnir voru oftast haldnir heima hjá okkur Helga. Narfi mætti ætíð fyrstur og vel undirbúinn. Skýrsla stjórnar var til reiðu þar sem formaðurinn gerði grein fyrir starfi liðins árs, veiðitölur lágu fyrir, upp á hvern fisk stóran eða smáan, jafnvel fengu nokkrir álar að fljóta með. Fundirnir voru mjög formlegir, sérstaklega framan af, lesin skýrsla stjórnar og síðan gengið til stjórnarkjörs og annarra aðalfundarstarfa. Þannig vildi Narfi hafa hlutina, allt í röð og reglu. Hann sá enn fremur um að skila veiðiskýrslum til opinberra aðila að ógleymdu sambandinu við bændurna í Oddgeirshólum sem hefur reynst til mikillar fyrirmyndar og njótum við þar prúðmennsku Narfa.

Narfi var einstaklega ljúfur maður og sagði skemmtilega frá, sérstaklega þegar félagarnir skiptust á veiðisögum, sönnum og aðeins ýktum, að loknum aðalfundarstörfum. Þá var oft gaman að sitja og njóta.

Komið er að leiðarlokum. Við félagar Narfa sendum honum okkar bestu þakkir fyrir vegferðina og óskum honum góðrar heimferðar og heimkomu í Sumarlandið. Þar hljóta að vera margir fallegir fiskar.

Innilegar samúðarkveðjur til afkomenda Narfa. Megi allar góðu minningarnar um góðan mann ylja.

Við veiðifélagarnir eigum margar góðar minningar. Dæmigert er að Narfi treysti sér ekki, vegna sjúkleika, til að mæta á síðasta aðalfund sem hann lifði, sem var haldinn sl. vor. Þegar ég bar fundarmönnum þá frétt voru viðbrögðin þau að Narfi var endurkjörinn formaður með samhljóða klappi allra fundarmanna. Hann naut mikillar virðingar okkar allra.

Fríða Proppé.