Himnesk léttbökuð lúða borin fram með fersku hnúðkáls- og lárperusalati og freyðandi grænni karrísósu sem kemur úr smiðju Wiktors.
Himnesk léttbökuð lúða borin fram með fersku hnúðkáls- og lárperusalati og freyðandi grænni karrísósu sem kemur úr smiðju Wiktors.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hann hefur sótt sér reynslu á erlendri grundu í sínu fagi og hefur mikinn áhuga á keppnismatreiðslu. Markmið hans er að halda áfram að keppa og ná árangri. „Ég er kominn til landsins eftir um fjögurra ára dvöl í Noregi þar sem ég fékk þann…

Sjöfn Þórðardóttir

sjofn@mbl.is

Hann hefur sótt sér reynslu á erlendri grundu í sínu fagi og hefur mikinn áhuga á keppnismatreiðslu. Markmið hans er að halda áfram að keppa og ná árangri.

„Ég er kominn til landsins eftir um fjögurra ára dvöl í Noregi þar sem ég fékk þann heiður að vinna með færustu kokkunum á Norðurlöndunum á stórglæsilega Michelin-stjörnu veitingastaðnum á Britannia-hótelinu í Þrándheimi,“ segir Wiktor og bætir við að sú reynsla hafi skilað honum miklu.

„Markmið mitt til framtíðar á Íslandi er að skapa mitt eigið umhverfi þar sem ég get lagt áherslu á að auka þekkingu mína á mat og haldið áfram í matreiðslukeppnum innanlands og erlendis.“

Nýjasti árangur Wiktors í matreiðslukeppni var í vetur þegar hann vann keppnina um Konfektmola ársins 2024, þar áður vann hann verðlaun fyrir Eftirrétt ársins 2023. Miklar annir eru fram undan hjá Wiktori með íslenska kokkalandsliðinu sem stefnir á hátt á næsta móti. „Í febrúar hefst undirbúningur landsliðsins fyrir heimsmeistaramótið í matreiðslu sem fram fer í nóvember árið 2026 og ég er mjög spenntur að hefja æfingar. Ég er nýr í kokkalandsliðinu og það hefur ávallt verið draumurinn að komast í þetta lið.“

Var matvandur sem barn

Þegar Wiktor er spurður út í fiskneysluna og hvort hann sé iðinn við að matreiða fiskrétti er hann fljótur til svars. „Ég var mjög matvandur á bernskuárunum og borðaði ekki mikinn fisk í grunnskóla. Ég byrjaði ekki að borða fisk reglulega fyrr en ég byrjaði að vinna í eldhúsi. Í dag borða ég fisk að minnsta kosti þrisvar í viku og mæli með að flestir geri það líka. Á síðastliðnum fjórum árum hef ég aflað mér mikillar reynslu í að meðhöndla og elda fisk og skelfisk þar sem ég vann á veitingastað sem var nánast kjötlaus,“ segir Wiktor sposkur á svip.

Aðspurður segir Wiktor að það sé erfitt að velja einhverja eina fisktegund sem sé í uppáhaldi því þær séu margar góðar.

„Upp á síðkastið hef ég verið að borða mikið af flatfiski, mestmegnis lúðu, sólkola og rauðsprettu. Best finnst mér að borða fisk með léttu og fersku grænmeti sem er lítið eldað og stökkt, með fiskrétti er alltaf pláss fyrir vel kremaða karöflumús en þar sem ég er að hugsa minn gang eftir allan jólamatinn er fínt að sleppa henni í bili.

Síðan er lykilatriði að vera með góða og bragðmikla sósu til að ná réttinum saman. Í sósugerðina finnst mér ávallt best að fá innblástur frá asískri matargerð því ég elska krydd,“ segir Wiktor og brosir.

Wiktor gefur lesendum uppskrift að léttum og ferskum fiskrétti með bragðmikilli sósu sem hann heldur mikið upp á. Þetta er léttbökuð lúða borin fram með fersku hnúðkáls- og lárperusalati og freyðandi grænni karrísósu sem kemur bragðlaukunum á flug.

Léttbökuð lúða með fersku hnúðkáls- og lárperusalati og grænni karrísósu

Lúða

1 stk. lúða, magn eftir þörfum

Brætt smjör eftir smekk

Sjávarsalt eftir smekk

Hitið ofninn í 80°C hita. Byrjið á því að skera lúðuna í 100 g steikur. Setjið steikurnar í eldfast mót. Bræðið smjör eftir smekk, betra að hafa meira smjör en minna, og penslið lúðubitana/steikurnar með bræddu smjöri og saltið með sjávarsalti eftir smekk.

Setjið fatið inn í ofn og bakið lúðusteikurnar á 80°C hita í 8 til 10 mínútur.

Hnúðkáls- og perusalat

1 hnúðkál

1 pera

graslaukur (fínsaxaður )

1 límóna, safi og börkur

Sjávarsalt eftir smekk

Byrjið á því að skera hnúðkálið í þunna strimla og skræla peruna og skera hana í kubba í hæfilegri stærð.

Kryddið til með slatta af límónusafa, rifnum límónuberki, fínsöxuðum graslauk og að lokum smá sjávarsalti.

Græn karrísósa

½ msk. grænt karrípaste (1 msk. fyrir lengra komna)

1 skalottlaukur

½ sítrónugras

2 límónulauf

1 hvítlauksgeiri, saxaður eða skorinn smátt

1 engiferbútur, raspaður niður

100 g kókosmjólk

200 g mjólk

200 g kjúklinga- eða fiskisoð

50 g smjör

Límónusafi og salt eftir smekk

Má skipta út mjólk og smjöri fyrir kókosrjóma fyrir þá sem eru að taka mataræðið sitt í gegn.

Byrjið á því að skera grænmetið niður. Setjið grænt karrípaste, skalottlauk, raspað engifer, sítrónugras og hvítlauk í pott á meðalheitri hellu og svitið.

Bætið síðan kókosmjólk, soði, mjólk og límónulaufum saman við og látið krauma í um það bil 30 mínútur. Sigtið sósuna í annan pott, bætið við smjöri og að lokum kryddið til með límónusafa og salti eftir smekk. Vinnið síðan saman með töfrasprota.

Höf.: Sjöfn Þórðardóttir