Veisla Fjölmargir litu inn í tilefni af því að 100 ár voru í gær liðin frá því að fyrsta Rauðakrossdeildin hér á landi var stofnuð; Akureyrardeild.
Veisla Fjölmargir litu inn í tilefni af því að 100 ár voru í gær liðin frá því að fyrsta Rauðakrossdeildin hér á landi var stofnuð; Akureyrardeild.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjölmennt var í húsakynnum Rauða krossins við Eyjafjörð þegar því var fagnað að 100 ár voru liðin frá stofnfundi Akureyrardeildar Rauða krossins. Deildin var fyrsta Rauðakrossdeildin sem stofnuð var hér á landi og hefur frá upphafi verið ein sú öflugasta

Margrét Þóra Þórsdóttir

Akureyri

Fjölmennt var í húsakynnum Rauða krossins við Eyjafjörð þegar því var fagnað að 100 ár voru liðin frá stofnfundi Akureyrardeildar Rauða krossins. Deildin var fyrsta Rauðakrossdeildin sem stofnuð var hér á landi og hefur frá upphafi verið ein sú öflugasta. Yfir 300 sjálfboðaliðar taka þátt í störfum deildarinnar, sem sinnir fjölbreyttum verkefnum, eða nær öllum sjálfboðaliðaverkefnum sem Rauði krossinn býður upp á á landsvísu.

Rauðakrossdeildir við Eyjafjörð sameinuðust í eina deild í maí árið 2013 þegar Akureyrar-, Dalvíkur-, Ólafsfjarðar- og Siglufjarðardeildirnar urðu að einni sem kennd er við Eyjafjörð.

Fjölbreytt verkefni

Ingibjörg Halldórsdóttir deildarstjóri og Þorsteinn Björnsson formaður Eyjafjarðardeildar fóru í afmælinu yfir aldarlanga sögu deildarinnar og greindu frá helstu verkefnum sem sjálfboðaliðar á hennar vegum fást við daglega. Þar má nefna verkefni Frú Ragnheiðar um skaðaminnkun, neyðarvarnir, fataverkefni, skyndihjálparnámskeið, félagslega þátttöku í vinaverkefnum, stuðning við flóttafólk og hjálparsímann 1717.

Vilja láta gott af sér leiða

Ingibjörg segir ljóst að fólk við Eyjafjörð vilji láta gott af sér leiða því sjálfboðaliðarnir séu margir og öflugir. Framlag þeirra til að bæta samfélagið og sinna þeim sem á þurfa að halda sé ómetanlegt. Sjálfboðaliðar sinna mannúðarstarfi meðfram atvinnu- og fjölskyldulífi en einnig eru sjálfboðaliðar á vegum deildarinnar sem hafa rýmri tíma, sinna jafnvel fleiri en einu hlutverki og bera mikla ábyrgð. Sjálfboðaliðar haldi starfinu úti, enda sé sjálfboðin þjónusta eitt af grunngildum Rauða krossins. Mannauður innan deildarinnar geri henni kleift að halda úti öflugu starfi á svæðinu.

Í afmælisfagnaði deildarinnar voru flutt nokkur ávörp, Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri flutti ræðu og nokkrir sjálfboðaliðar sögðu frá sinni reynslu, flutt var tónlist og að sjálfsögðu var boðið upp á veglega afmælisköku og aðrar veitingar.

Höf.: Margrét Þóra Þórsdóttir