Hrafnhildur Guðfinna Thoroddsen fæddist 18. apríl 1973. Hún lést 16. janúar 2025.
Útförin fór fram 24. janúar 2025.
Bídó var tápmikil ung stúlka þegar meinleg örlög urðu til þess að hún fékk ekki notið lífsins í sama mæli og aðrir. Hún lamaðist fyrir neðan mitti í hörmulegu bílslysi. Við tók þrotlaus barátta í endurhæfingu. Allt var gert til þess að finna lækningu við þeim mænuskaða sem hún varð fyrir. Auði og Bídó hefur tekist með dæmafárri hugprýði að vekja athygli á málefninu innanlands og langt út fyrir landsteinana.
Ég naut þess að koma reglulega í heimsókn á Nesbalann. Bídó sýndi mikla hugarró, baráttuþrek og jafnaðargeð. Æðraðist ekki yfir örlögum sínum. Náði að stunda vinnu þrátt fyrir fötlun sína og ók eigin bifreið sem veitti henni mikið frelsi.
Það leyndi sér ekki að hægt og sígandi dró úr þreki hennar uns yfir lauk. Minningin um staðfestu, þolgæði, glaðværð og óttaleysi hennar lifir.
Innilegar samúðarkveðjur til ástvina.
Ferð þín er hafin.
Fjarlægjast heimatún.
Nú fylgir þú vötnum
sem falla til nýrra staða
og sjónhringar nýir
sindra þér fyrir augum.
(Hannes Pétursson)
Einar Magnússon.
Fallin er frá yndisleg falleg kona. Hrafnhildur lenti í hræðilegu slysi ung að árum sem orsakaði það að hún notaðist við hjólastól það sem eftir var ævinnar. Þátt fyrir þetta mikla mótlæti var Hrafnhildur svo mikið gull af konu sem hreif alla sem kynntust henni. Vegna ástands hennar fór yndislega móðir hennar í mikla herferð til að freista þess að finna lækningu á mænuskaða og hefur aldrei gefið neitt eftir í þeirri baráttu. Einn daginn mun heimurinn verða mjög þakklátur fyrir þetta mikla átak móðurinnar og fjölskyldu hennar og munu þau halda áfram baráttunni sem þau hafa nú þegar gert í árafjölda.
Hrafnhildur var yndislega glaðleg og tók alltaf svo vel á móti okkur þegar við komum í heimsókn. Bros Hrafnhildar var svo fallegt og smitandi, sem við eigum eftir að sakna. Blessuð sé minning hennar.
Brynjólfur og Soffía.