Þrjú tilboð bárust í verkið Vestfjarðavegur (60) um Dynjandisheiði, 3. áfangi, en tilboð voru opnuð hjá Vegagerðinni sl. þriðjudag.
Borgarverk ehf. Borgarnesi bauð lægst eða krónur 1.482.160.020. Var það 84% af áætluðum verktakakostnaði, sem var krónur 1.761.824.081.
Suðurverk hf., Kópavogi, bauð krónur 1.820.690.000 og Ístak hf., Mosfellsbæ, krónur 2.253.948.316.
Verkið felst í nýbyggingu Vestfjarðavegar á um 7,2 kílómetra kafla og um 0,8 km kafla á Dynjandavegi. Vegurinn er að mestu leyti byggður í nýju vegstæði. Innifalið er gerð keðjunarplans og áningarstaðar. Útboðið var auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu. Verkinu skal að fullu lokið 30. september 2026.
Vegagerðin mun nú fara yfir tilboðin, þar sem meðal annars verður kannað hvort þau standist útboðsskilmála. Að því loknu verður gengið til samninga og því næst hefst undirbúningur fyrir framkvæmdir, að því er fram kemur á heimasíðu Vegagerðarinnar.
Endurbygging Vestfjarðavegar (69) er á framkvæmdaáætlun 2020-2026.
Nýr Vestfjarðavegur yfir Dynjandisheiði nær frá Hörgsnesi í Vatnsfirði og langleiðina að Mjólkárvirkjun í Borgarfirði.
Samtals verður nýbygging vegar á 35,2 kílómetra löngum kafla. Einbreiðum brúm fækkar um átta og leiðin styttist um tvo kílómetra.
Framkvæmdum við fyrstu tvo áfanga verksins er lokið.
Vegna skipulagsmála og leiðarvals var fyrst horft á leiðina frá Flókalundi að Mjólkárvirkjun ásamt tengingu við Bíldudalsveg, um 33 km leið, segir Vegagerðin. sisi@mbl.is