Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Félag trérennismiða á Íslandi hefur dafnað síðan Örn Ragnarsson tók við formennskunni 2021 og eru nú 294 manns í félaginu. Þar á meðal er 11 manna hópur, sem kallar sig Snúið og skorið og leigir saman aðstöðu í Dalshrauni í Hafnarfirði. Í hópnum eru níu karlar og tvær konur og vísar helmingur nafnsins til Önnu Lilju Jónsdóttur, formanns hópsins, sem er eini útskurðarmeistarinn í hópnum og hefur verið með frá byrjun 2012.
Örn hefur verið iðinn við að kynna fagið og félagið víða um land undanfarin ár. „Gangurinn er ljómandi og töluverð fjölgun hefur orðið í félaginu,“ segir hann. Örn er jafnframt stofnfélagi í fyrrnefnda hópnum í Hafnarfirði og notar hvert tækifæri til að vekja athygli á starfseminni. „Þetta er enda dásamlegt viðfangsefni.“
Boðorðin 10
Áhuga Önnu Lilju á útskurði má rekja til námskeiðs í Skurðlistaskóla Hannesar Flosasonar, sem hún sótti að áeggjan Sigurborgar Hjaltadóttur, föðursystur sinnar, 1977. „Hún plataði mig með sér, mér fannst mjög gaman og hélt áfram með hléum í mörg ár,“ rifjar hún upp, en á fyrsta námskeiðinu var fræðslan einu sinni í viku í tvo mánuði.
Anna Lilja útskrifaðist úr Kennaraháskólanum, þar sem hún tók handavinnu sem valgrein og í kjölfarið lauk hún framhaldsnámi í handlistum. Hún lærði jafnframt loftskeytafræði og vann í vaktavinnu á Loftskeytastöðinni. Upp úr 1990 togaði listin æ frekar í hana og þegar tækifæri til útskurðarnáms bauðst í Iðnskólanum í Reykjavík sló hún til. Þau Örn Sigurðsson húsgagnasmíðameistari tóku þar sveinspróf í myndskurði árið 2000 og voru þau fyrst til þess í 45 ár. „Ætli við séum ekki þau einu eftir með sveinspróf í iðninni,“ segir hún. „Eftir útskriftina hefur útskurðurinn fylgt mér, en þó ég hafi tekið að mér nokkur verkefni er ekki hægt að hafa lifibrauð af listinni.“
Að frumvæði Ásmundar Guðmundssonar og Ebenesers Bárðarsonar leigðu sjö manns, þar á meðal Anna Lilja, og Félag trérennismiða iðnaðarbil í Dalshrauni 12 frá og með 1. janúar 2012. Stærra bil á sama stað var leigt tveimur árum síðar og fjölgaði þá í hópnum en félagið hætti samstarfinu. Útbúin voru um fjögurra fermetra einkarými fyrir félagana auk sameiginlegs rýmis með vélum.
Fljótlega setti hópurinn sér reglur. „Við köllum þær boðorðin 10 og hittumst mánaðarlega til skrafs og ráðagerða,“ segir Anna Lilja en hún og Örn Ragnarsson eru ein eftir af stofnfélögunum. 29 manns hafa byrjað í Dalshrauni frá upphafi og 18 þeirra hætt af ýmsum ástæðum. Auk þeirra tveggja eru í hópnum Þorgeir Hjörtur Níelsson, sem kom inn haustið 2012, Andrés Hafberg, Andrés Reynir Ingólfsson, Brynjólfur Garðarsson eða Binni, eiginmaður Önnu Lilju, Egill Jónsson, Júlíana Ómarsdóttir, Lýður Guðmundsson, Magnús Guðmundsson og Yngvi Hagalínsson.
Til þess að fá kennitölu þurfti að stofna formlegt félag með formlegri stjórn. „Ebeneser var „prímus mótor“ og gjaldkeri hópsins frá byrjun, en hann hætti af heilsufarsástæðum síðastliðið haust,“ segir Anna Lilja. „Stjórnarstarfið hefur verið mest upp á punt fyrir aðra en Ebba vegna mánaðarlegu hittinganna, þar sem málin eru rædd og verkum skipt.“
Anna Lilja leggur áherslu á að því fyrr sem fólk byrji að renna og skera þeim mun meiri árangri nái það í listinni. „Rennismíðin og tréútskurðurinn er líka fyrir yngra fólk,“ segir hún og bætir við að hún sé stöðugt að læra eitthvað nýtt. Hún hefur ekki verið í rennismíðinni heldur haldið sig við útskurðinn. „Ég er bara með útskurðar- og hefilbekk og karlarnir segja að ég eigi helminginn í nafninu Snúið og skorið.“