Miðborgin Það var algeng sjón í fyrrasumar að sjá erlenda ferðamenn innpakkaða í plast. Sem betur fer fengu ferðamennirnir einn og einn sólardag.
Miðborgin Það var algeng sjón í fyrrasumar að sjá erlenda ferðamenn innpakkaða í plast. Sem betur fer fengu ferðamennirnir einn og einn sólardag. — Morgunblaðið/Eggert
Sumarið 2024 fær ekki háa einkunn hjá Veðurstofu Íslands í nýbirtu tíðarfarsyfirliti ársins. Ekki er úr vegi að rifja upp þetta leiðindasumar nú þegar landsmenn eru farnir að horfa vonaraugum til sumarsins 2025

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Sumarið 2024 fær ekki háa einkunn hjá Veðurstofu Íslands í nýbirtu tíðarfarsyfirliti ársins. Ekki er úr vegi að rifja upp þetta leiðindasumar nú þegar landsmenn eru farnir að horfa vonaraugum til sumarsins 2025.

Sumarið (júní til ágúst) í fyrra var úrkomusamt um land allt. Í yfirlitinu kemur vel fram að sumarið var sérstaklega vætusamt á Vestur- og Norðurlandi. Þar var sumarið víða á meðal þeirra blautustu frá upphafi mælinga.

Vætutíð sumarsins olli töluverðum vandræðum. Miklir vatnavextir í ám og lækjum voru tíðir og skriður féllu víða. Eitthvað var um að bændur lentu í erfiðleikum með ræktun og heyskap vegna bleytunnar. Júlí var sérlega úrkomusamur á Vesturlandi, víða sá úrkomusamasti þar frá upphafi mælinga. Ágúst var mjög blautur um land allt, en sérstaklegaa á norðanverðu landinu.

Mikil vatnsveður gengu yfir landið nokkrum sinnum í fyrrasumar og ollu töluverðum usla á þeim stöðum þar sem rigndi sem mest. Mikið vatnsveður gerði til að mynda á Vesturlandi dagana 13. og 14. júlí, þá sérstaklega á Snæfellsnesi og Barðaströnd. Því fylgdu miklir vatnavextir og einhverjar skriður féllu.

Met í Grundarfirði

Úrkoman mældist langmest í Grundarfirði þessa daga. Sólarhringsúrkoman þann 13. júlí mældist 235,2 millimetrar (mm) sem er mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hefur í júlímánuði á landsvísu. Dagana 22. til 24. ágúst rigndi óvenjumikið á norðurhluta landsins, sérstaklega á Ströndum, Tröllaskaga og á norðanverðum Vestfjörðum. Vatnsveðrinu fylgdu miklir vatnavextir í ám og lækjum, vatnsflaumur myndaðist á Siglufirði og skriður féllu víða.

Ársúrkoma í Reykjavík mældist 827,7 millimetrar sem er 95% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020, en 88% af meðalúrkomu síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi mældist ársúrkoman 896,2 mm sem er 21% yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist ársúrkoman 585,2 mm sem er 2% yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 91% af heildarúrkomu síðustu tíu ára. Á Dalatanga mældist ársúrkoman 1.485,5 mm sem er 90% af heildarúrkomu áranna 1991 til 2020.

Eins og áður hefur komið fram var árið 2024 óvenjukalt ef miðað er við hitafar þessarar aldar. Á landsvísu var hitinn 0,8 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020, og sá lægsti á þessari öld, eða allt frá árinu 1998.

Sem dæmi um lítil gæði sumarsins 2024 má nefna að hæsti hiti ársins í Reykjavík mældist 17,4 stig þann 15. júlí og aftur 3. ágúst. Hámarkshitinn í Reykjavík var óvenjulega lágur þetta árið og hefur ekki mælst eins lágur síðan 2001. Eins og oft áður höfðu Egilsstaðir vinninginn. Hæsti hiti ársins mældist 27,5 stig á Egilsstaðaflugvelli þann 14. júlí.

Sólskinsstundir í Reykjavík í fyrra mældust 1.459,3 sem er 91 stund fleiri en að meðaltali áranna 1991 til 2020, en 120 stundum fleiri en að meðaltali síðustu tíu ára. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 1192,1 eða 141 stund fleiri en að meðaltali áranna 1991 til 2020, en 89 stundum fleiri en að meðaltali síðustu tíu ára.

Þegar haft er í huga hve mikið rigndi á landinu síðasta sumar, þ.e. þann tíma sem sólin er hæst á lofti, kann það að koma á óvart hve margar sólarstundir mældust á þessum tveimur stöðum.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson