Edda Margrét Jensdóttir fæddist 30. janúar 1955 á Landspítalanum í Reykjavík og ólst upp á Hagamel.
Hún dvaldi á sumrin á Hvoli í Borgarfirði eystra frá fimm mánaða aldri til níu ára aldurs. „Þar var hvorki rennandi vatn né rafmagn, hvað þá salerni, bærinn var gamall torfbær með forskalaðri framhlið. Ég náði þarna smá glugga inn í eldgamla tíma og þetta ásamt náttúrufegurðinni hefur sannarlega sett svip sinn á mig. Næstu sumur vorum við mamma á Eskifirði þar sem hún vann sem matráðskona og ég fékk að fara í síld.“
Edda gekk í Melaskóla og Hagaskóla. „Ég fór síðan í vinnu í leikskóla um sumarið og ílengdist þar þar til að í ljós kom að þetta var vísir að ævistarfinu.“
Hún útskrifaðist úr Fósturskóla Íslands 1976 og fór síðan í framhaldsnám í stjórnun og síðar í nám í sérkennslufræðum í Háskóla íslands.
Lengst af starfaði Edda sem leikskólastjóri á Seltjarnarnesi og í Reykjavík. Í leikskólanum stjórnaði hún Comeniusarverkefnum fyrir hönd skólanna og enn er leitað til hennar þegar erlendir skólar eru að leita að samstarfsskólum.
Edda Margrét starfaði mikið að félagsmálum á árum áður. Hún var í ýmsum stjórnum innan Félags leikskólakennara, t.d. ritstjórn Fóstru fagblaðs sem félagið gaf út og einnig sem formaður 2. deildar félagsins.
Edda Margrét hefur verið kvenfélagskona til 30 ára og hefur verið í kvenfélaginu Seltjörn á Seltjarnarnesi. Þar hefur hún gegnt ýmsum hlutverkum, meðal annars verið formaður félagsins til fjölda ára. Einnig starfaði hún sem varaformaður Kvenfélagasambands Gullbringu- og Kjósarsýslu.
Í frítímanum hefur Edda unnið við kvikmyndagerð ásamt eiginmanni sínum og tekið þátt í gerð fjölda heimildarmynda, sjónvarpsþátta og bíómynda. Þar má t.d. nefna Spuna um Atla Heimi Sveinsson, mynd um Tryggva Ólafsson listmálara og einnig Jón Nordal og Þorkel Sigurbjörnsson tónskáld. Þá tók hún þátt í gerð um 50 þátta undir heitinu Grænir fingur fyrir RÚV og hún kom einnig að gerð stuttmyndarinnar Símon Pétur fullu nafni og kvikmyndarinnar Benjamíns dúfu.
Edda er mikil handavinnu- og garðyrkjukona ásamt því að vera listakokkur. „Ég hef verið mikið fyrir útivist og stundaði skíði ásamt börnunum mínum þangað til við mæðgur eignuðumst hesta sem við vorum með okkur til ánægu og yndisauka. Einnig hafa þrír hundar og nokkrir kettir fylgt fjölskyldunni í gegnum árin. Sumrum síðustu ára hefur verið varið í hjólhýsi við Litlu-Laxá á Flúðum þar sem fylgst er með fuglalífi og náttúrunni.“
Fjölskylda
Eiginmaður Eddu Margrétar er Baldur Hrafnkell Jónsson, f. 26.3. 1945, kvikmyndagerðarmaður. Þau eru búsett á Seltjarnarnesi. Foreldrar Baldurs Hrafnkels voru hjónin Fanney Jónsdóttir, f. 3.11. 1905, d. 11.4. 2003, listmálari, og Jón Oddgeir Jónsson, f. 6.9. 1905, d. 22.1. 1993, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.
Börn Eddu Margrétar og Baldurs Hrafnkels eru: 1) Jón Ægir, f. 30.11. 1975, rekstrarstjóri vöruhúss Byko, sonur hans er Júlíus Máni, f. 23.7. 2007, nemandi við Menntaskólann í Reykjavík; 2) Jens Fannar, f. 9.1. 1978, bílstjóri í útkeyrsludeild Póstsins; 3) Brynhildur, f. 9.11. 1981, fornleifafræðingur, búsett í Skien, Noregi, hennar maður er Sindre Arnkværn, f. 18.12. 1981, fornleifafræðingur og synirnir eru Brage Úlfar, f. 30.1. 2012, og Eldar, f. 26.3. 2017. Eins og glöggir taka eftir fengu Edda og Baldur dóttursynina í afmælisgjöf, hvorn fyrir sig. Sonur Baldurs Hrafnkels er Brjánn, f. 3.8, 1964, laugarvörður í Sundhöllinni.
Hálfsystkini Eddu Margrétar samfeðra eru Sesselja Hrönn, f. 17.2. 1964, Jens Óðinn, f. 27.4. 1968, og Þórður Ægir, f. 5.6. 1971.
Foreldrar Eddu Margrétar voru Brynhildur Sigurjónsdóttir, f. 21.5. 1928 á Borgarfirði eystra, d. 14.10. 2006, matráður, og Jens Þórðarson, f. 1.5. 1925 á Ísafirði, d. 18.3. 2001, vélstjóri. Þau skildu þegar Edda Margrét var tíu ára og Jens giftist Hansínu Sesselju Gísladóttur, f. 11.3. 1943, d. 19.3. 2023.