Jón Sigurgeirsson
Jón Sigurgeirsson
Kveðið er á um meðalhóf í stjórnsýslulögum sem felur í sér að ekki má grípa til strangari aðgerða af hálfu ríkisins en brýn þörf er á.

Jón Sigurgeirsson

Hver er glæpur Flokks fólksins?

Í 2. gr. laga nr. 21 frá 2006 stendur: „1. Stjórnmálasamtök: Flokkar eða samtök sem bjóða fram í kosningum til Alþingis eða sveitarstjórna.“ Það er því enginn vafi á því að Flokkur fólksins er stjórnmálasamtök.

Í 3. gr. sl. er kveðið á um það að stjórnmálasamtök sem fá a.m.k. einn mann kjörinn á þing eigi rétt á styrk úr ríkissjóði. Flokkur fólksins uppfyllir þau skilyrði.

Skv. lögum nr. 109 frá 2021 kom ný grein nr. 5. a) sem hljóðar svo:

„Skilyrði úthlutunar á fé úr ríkissjóði og frá sveitarstjórnum er að viðkomandi stjórnmálasamtök séu skráð skv. I. kafla C, hafi áður uppfyllt upplýsingaskyldu sína við ríkisendurskoðanda skv. 8. og 9. gr. og að ríkisendurskoðandi hafi birt ársreikning þeirra.] 1)“

Nú má spyrja af hverju FF fullnægði ekki þessari lagaskyldu. Ef eðlilega hefði verið staðið að úthlutun til flokksins hefðu greiðslur ekki verið inntar af hendi heldur forystumönnum verið leiðbeint um þessa lagaskyldu. Það var ekki gert og verður að teljast alvarleg handvömm af hálfu embættismanna.

Stjórnsýslufræðingur hefur haldið því fram að það eina sem hægt sé að gera sé að gera FF gjaldþrota og búa til ný samtök með nýrri kennitölu. Ég er þessu algjörlega ósammála.

Í því sambandi verður að líta til stjórnsýslulaga. Ákvæði þeirra miða við að einstaklingar, einn eða fleiri, geti farið í gegnum kerfið og fengið til þess leiðbeiningar og aðstoð embættismanna. Greinilegt er í þessu tilviki, eins og það kemur mér fyrir sjónir samkvæmt upplýsingum í fréttum, að það hafi ekki verið gert og það sé þess vegna sem þessi vandræðalega staða er upp komin.

Einnig er kveðið á um meðalhóf í stjórnsýslulögum. Það felur í sér að ekki má grípa til strangari aðgerða af hálfu ríkisins en brýn þörf er á og ef beita má mildari aðferðum til að ná þeim árangri sem stefnt er að skal sú aðferð valin. Ákvæðið um skráningarskyldu var sett samkvæmt greinargerð til að styrkja grundvöll eftirlits. FF getur veitt nauðsynlegar upplýsingar og er það öllu mildari aðgerð en stjórnsýslufræðingurinn taldi þá einu réttu. Þá verður eftirlit mögulegt og lagaákvæðum fullnægt. Eftirlit er nefnilega nokkuð sem er gert á eftir eins og orðið ber með sér.

Hugmynd stjórnsýslufræðingsins um að stofna nýtt félag undir nýrri kennitölu vekur líka spurningar því það var ekki sú kennitala sem var kosin á þing.

Höfundur er aldraður lögfræðingur,

Höf.: Jón Sigurgeirsson