Robert Jacobsen (1912-1993) Minning um stein / Erindring om en sten, 1971-1972 Járn, 62 x 66 x 40 cm
Robert Jacobsen (1912-1993) Minning um stein / Erindring om en sten, 1971-1972 Járn, 62 x 66 x 40 cm
Einkennandi fyrir skúlptúra Roberts Jacobsen er jafnvægi milli þess óáþreifanlega og áþreifanlega, breytileg ásýnd mismunandi sjónarhorna sem öll eru áhugaverð líkt og í verkinu Minning um stein. Þar nýtir höfundurinn líka fleiri grunnstef…

Einkennandi fyrir skúlptúra Roberts Jacobsen er jafnvægi milli þess óáþreifanlega og áþreifanlega, breytileg ásýnd mismunandi sjónarhorna sem öll eru áhugaverð líkt og í verkinu Minning um stein. Þar nýtir höfundurinn líka fleiri grunnstef myndlistar eins og línur og form ferhyrnings, kúlu og hrings, opin og lokuð form, sem vega salt milli léttleika og þunga. Listamaðurinn hefur mótað hamraða áferð á opna ferninginn og á hliðar litla kubbsins ofan á kringlóttu undirstöðunni, haldið öðrum flötum sléttum og málað allt svart að lokum.

Verkið er frá síðari hluta farsæls ferils Jacobsens og með titlinum er hann ef til vill að vísa í upphafið, en hann hjó í stein áður en hann sneri sér að málmskúlptúrum. Eftir að hafa glímt við möguleika steinsins til hins ýtrasta hélt hann til Parísar árið 1947 og hóf þar að sjóða saman járnfleti í þrívíða skúlptúra í anda geómetrískrar abstraksjónar og gjarnan svartmálaða. Viðfangsefnið var samband forms og rýmis, jákvæð og neikvæð form eða efnisleg og óefnisleg, líkt og greinilegt er í þessu verki. Denise René efndi til einkasýningar á járnverkum hans árið 1950 sem hafði mikil áhrif á víðtækari frama en gallerí hennar var þá suðupottur fyrir geómetríska abstraksjón í París.

Verk Roberts Jacobsen voru fyrst sýnd á Íslandi vorið 1947 þegar úrval verka frá Haustsýningunni í Kaupmannahöfn árið áður voru sett upp í Listamannaskálanum meðal annars vegna kunningsskapar við Svavar Guðnason og Sigurjón Ólafsson. Sex árum síðar voru verk eftir hann á sýningu í Listvinasalnum sem var líflegur vettvangur sýninga og umræðna um myndlist og á 100 ára afmæli Listasafns Íslands árið 1984 efndi safnið til sýningarinnar Fimm danskir listamenn og var Jacobsen einn þeirra.

Sjá má áhrif frá honum í verkum nokkurra Íslendinga sem kynntust honum í París, en aðlöguðu áhrifin að eigin stíl. Einn þeirra var Gerður Helgadóttir, góð vinkona og nágranni. Robert Jacobsen var alla tíð frjór, agaður og mannblendinn með gott næmi á umhverfið, en þessir eiginleikar nýttust vel til að gegna prófessorsstöðu, fyrst við Listaakademíuna í München og síðar í Kaupmannahöfn.