Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur fallist á beiðni um að breyta samkomusal á 13. hæð í Austurbrún 2 í leiguíbúð. Snýr hann þar með við fyrri ákvörðun sinni, þar sem beiðninni var hafnað.
Austurbrún 6 stendur efst í Laugarásnum og þetta verður því ein glæsilegasta útsýnisíbúð borgarinnar. Tvö önnur stórhýsi standa á hæðinni og hafa þau númerin 4 og 6.
Húsið á lóð nr. 2 við Austurbrún er 13 hæða fjölbýlishús, byggt árið 1960 skv. fasteignaskrá. Á 13. hæðinni er veislusalur sem er sameign íbúa hússins. Spurt var hvort heimilað yrði að innrétta íbúð á hæðinni í stað samkomusalarins til útleigu.
Við fyrri ákvörðun, sem Morgunblaðið sagði frá í frétt 9. janúar, kom fram í umsögn verkefnastjóra skipulagsfulltrúa að skoða þyrfti erindið út frá gildandi skipulagi.
Í aðalskipulagi sé fjallað um mikilvægi blöndunar íbúða. Í húsinu séu mjög einsleitar íbúðir og blöndun því lítil eða engin. Allar íbúðir í húsinu eru 47,6 fermetrar skv. fasteignaskrá og því nokkuð litlar.
Samverusalur á efstu hæð hússins sé ætlaður íbúum til fjölbreyttra, almennra nota sem viðbót við annars nokkuð litlar íbúðir í húsinu. Því sé ekki æskilegt að heimila breytta nýtingu rýmisins í Austurbrún 2 úr samkomusal í íbúðir.
Á fundi skipulagsfulltrúa 23. janúar var erindið tekið fyrir að nýju og ákveðið að endurskoða umsögn vegna fordæmis í húsinu í Austurbrún 6.
„Ítrekað er að skipulagsfulltrúi muni leggja áherslu á blöndun íbúða og að rými sem auka gæði íbúða og blöndun verði tryggð í nýjum verkefnum,“ segir í hinni nýju umsögn verkefnastjórans. sisi@mbl.is