Kjartan Magnússon
Menntamál, samgöngur, íþróttir og félagsmál eru ungmennum ofarlega í huga, að því er fram kom á sameiginlegum fundi borgarstjórnar og Reykjavíkurráðs ungmenna síðastliðinn þriðjudag. Margar góðar ábendingar komu fram á fundinum um málefni ungmenna í borginni.
Ungmennaráð eru vettvangur fyrir unglinga, yngri en átján ára, til að taka þátt í stjórnmálum. Sex ungmennaráð eru starfandi í Reykjavík og eiga þau samstarfsvettvang sem nefnist Reykjavíkurráð ungmenna. Fulltrúar úr Reykjavíkurráðinu funda árlega með borgarstjórn og fá þar tækifæri til að vinna hugðarefnum sínum brautargengi með umræðum og tillöguflutningi.
Á fundinum á þriðjudag kynntu ungliðarnir átta tillögur um margvísleg málefni. Segja má að þannig fái ungmennin ákveðið dagskrárvald. Öllum tillögunum var vísað áfram til frekari umfjöllunar og afgreiðslu í nefndum og ráðum Reykjavíkurborgar þar sem ákvörðunarvaldið liggur.
Menntamálin mikilvæg
Flestar tillögurnar fjalla um úrbætur í menntamálum. Ungmennaráð Kjalarness leggur til að gerð verði úttekt á túlkun reykvískra grunnskóla á hæfniviðmiðum aðalnámskrár við lok 10. bekkjar. Telur ráðið augljóst ósamræmi vera á einkunnagjöf eftir skólum. Það geti ýtt undir ójöfnuð og haft veruleg áhrif á möguleika nemenda til framhaldsnáms.
Ungmennaráð Laugardals, Háaleitis og Bústaða leggur til að fjármálalæsi verði gert að skyldufagi í 8.-10. bekk í grunnskólum Reykjavíkur.
Ungmennaráð Árbæjar og Holta leggur til aukið samstarf grunn- og framhaldsskóla vegna framhaldsskólakynningar fyrir tíundubekkinga. Stóra framhaldsskólakynningin verði haldin árlega að hausti.
Lífsleiknikennslu skal festa í sessi sem sérstaka námsgrein í grunnskólum borgarinnar og samræma áherslur og kennsluaðferðir samkvæmt tillögu ungmennaráðs Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða. Sama ráð leggur einnig til að húsnæði og búnaður félagsmiðstöðva í verði bættur svo að þeim verði gert betur kleift að halda úti faglegu starfi.
Ungmennaráð Breiðholts vill auka frístundastyrk til ungmenna þannig að hann gildi til tvítugsaldurs en ekki átján ára eins og nú.
Ungmennaráð Grafarvogs leggur til að ókeypis verði í strætisvagna fyrir átján ára og yngri, en nú er miðað við ellefu ára aldur að þessu leyti. Þá leggur ungmennaráð Laugardals, Bústaða og Háaleitis til að aðstæður gangandi og hjólandi vegfarenda verði bættar í Skeifunni.
Hvað verður um tillögurnar?
Á fundinum var stuttlega rætt um afdrif þeirra mála sem vísað var áfram á fundinum í fyrra í fyrra. Almennt virðast málin hafa fengið lítinn framgang í borgarkerfinu.
Á fundinum í fyrra var m.a. lögð fram tillaga Reykjavíkurráðsins um að bætt yrði við nýrri strætóleið fyrir eystri hverfi borgarinnar, en tengingum milli þeirra er ábótavant eins og bent hefur verið á. Tillagan var tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 22. janúar síðastliðinn, næstum ári eftir að hún var lögð fyrir borgarstjórn. Tillaga Reykjavíkurráðsins var felld með atkvæðum Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins studdu hins vegar tillöguna og bókuðu að rétt væri að skoða betur hvort hægt væri að bæta úr umræddum veikleika í strætókerfinu með því að koma á beinni tengingu milli Árbæjar, Norðlingaholts, Grafarholts og jafnvel fleiri hverfa í austurhluta borgarinnar, t.d. Grafarvogs og Breiðholts.
Kjaraskerðing fest í sessi
Kjör unglinga í Vinnuskóla Reykjavíkur voru helsta mál sameiginlegs fundar borgarstjórnar og Reykjavíkurráðs ungmenna í fyrra. Forsagan er sú að vinstri meirihlutinn í borgarstjórn ákvað að halda launum unglinga í skólanum óbreyttum 2023, sem hafði mikla kjaraskerðingu í för með sér fyrir þá vegna verðbólgunnar.
Unglingarnir voru ósáttir við kjaraskerðinguna. Reykjavíkurráðið lagði því til að sumarið 2024 yrðu laun unglinganna leiðrétt í samræmi við breytingar frá síðustu hækkun þar á undan, þ.e. 2022. Sjálfstæðisflokkurinn studdi tillögu Reykjavíkurráðsins um að slík launaleiðrétting yrði gerð. Meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar lagðist hins vegar gegn tillögunni og festi þar með umrædda kjaraskerðingu í sessi.
Ungmennaráðsliðarnir fluttu tillögur sínar vel og skörulega. Er dýrmætt fyrir borgarstjórn að funda reglulega með ungliðunum og heyra sjónarmið þeirra milliliðalaust.
Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.