Maríuborg Tuttugu starfsmenn leikskólans hafa hætt þar störfum vegna ástandsins og sjö eru í veikindaleyfi.
Maríuborg Tuttugu starfsmenn leikskólans hafa hætt þar störfum vegna ástandsins og sjö eru í veikindaleyfi. — Morgunblaðið/Karítas
„Við, fyrrverandi starfsfólk leikskólans Maríuborgar, vísum ásökunum Árelíu Eydísar Guðmundsdóttur formanns skóla og frístundaráðs Reykjavíkur alfarið á bug þar sem þær eiga sér enga stoð. Leikskólastjórinn hefur starfað á Maríuborg síðan í ágúst 2013

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Við, fyrrverandi starfsfólk leikskólans Maríuborgar, vísum ásökunum Árelíu Eydísar Guðmundsdóttur formanns skóla og frístundaráðs Reykjavíkur alfarið á bug þar sem þær eiga sér enga stoð. Leikskólastjórinn hefur starfað á Maríuborg síðan í ágúst 2013. Þegar hún tók tímabundið við stöðunni árið 2023 hafði hún starfað í leikskólanum í 10 ár með stöðugum starfsmannahópi og þekkti vinnuumhverfið vel, þannig að engin óvissa var um hvað var í vændum.“

Svo segir í yfirlýsingu fyrrverandi starfsfólks leikskólans Maríuborgar sem fyrrverandi starfsmaður, sem vill ekki láta nafn síns getið, sendi blaðinu fyrir þeirra hönd. Þar er brugðist við ummælum Árelíu Eydísar Guðmundsdóttur, formanns skóla og frístundaráðs borgarinnar í Morgunblaðinu sl. laugardag. Þar kom m.a. fram hjá Árelíu Eydísi að nýr leikskólastjóri hefði komið til starfa við erfiðar aðstæður, en skv. yfirlýsingu fyrrum starfsmanna hafði leikskólastjórinn starfað á leikskólanum í 10 ár áður en viðkomandi tók við starfi leikskólastjóra.

Tuttugu hafa sagt upp störfum

Segir í yfirlýsingunni að síðan leikskólastjórinn tók við bæði tímabundið og eftir fastráðningu hans í janúar 2024, hafi nítján starfsmenn, þar af nokkrir með tíu til tuttugu ára reynslu, sagt upp störfum og 7 starfsmenn væru nú í veikindaleyfi.

„Til gamans má geta að samkvæmt starfsmannakönnun frá árinu 2022 var Maríuborg í 7. sæti af 22 mögulegum í starfsánægju, en árið 2023 var leikskólinn kominn í 21. sæti af 28 mögulegum. Starfsmannakönnunin fyrir árið 2024 er væntanleg 13. febrúar 2025,“ segir í yfirlýsingunni.

Þar segir einnig að fyrrverandi starfsmenn hafi áður leitað til borgaryfirvalda vegna erfiðra samskipta og slæmra vinnuaðstæðna, en hafi upplifað kaldar viðtökur, skilningsleysi og algjört framtaksleysi.

Ekki hlustað á starfsmenn

„Við verðum að spyrja okkur hvers vegna ekki sé hlustað af alvöru á starfsmenn þegar upp kemur alvarleg krísa í stjórnun eins og raun ber vitni og málið rannsakað strax. Borgin hefur ekki enn leitað til fyrrverandi starfsmanna vegna ásakana þeirra, jafnvel ekki til að fá sem besta heildarmynd af ástandinu. Einnig vill starfsfólk koma því á framfæri að það upplifði trúnaðarbrest þar sem gögnum var lekið sem voru kyrfilega merkt sem trúnaðargögn,“ segja fyrrverandi starfsmenn Maríuborgar.

Leitað hefur verið eftir viðbrögðum skóla og frístundaráðs vegna fréttaflutnings af Maríuborg, en hjá upplýsingafulltrúa sviðsins fengust þær upplýsingar að þaðan væri engra svara að vænta að svo stöddu. Verið væri að vinna að málinu með starfsfólki leikskólans og foreldrum barnanna í skólanum.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson