Herstöð Bandaríska Pituffik-geimherstöðin, sem áður nefndist Thule, er á norðvesturströnd Grænlands. Spenna á heimskautasvæðinu fer vaxandi.
Herstöð Bandaríska Pituffik-geimherstöðin, sem áður nefndist Thule, er á norðvesturströnd Grænlands. Spenna á heimskautasvæðinu fer vaxandi. — Scanpix/AFP/Thomas Traasdahl
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skoðanakönnun sem danska blaðið Berlingske birti í gær sýnir að mikill meirihluti Grænlendinga, eða rúmlega 85%, er andvígur því að Grænland gangi úr ríkjasambandinu við Danmörku og verði í staðinn hluti af Bandaríkjunum

Baksvið

Guðm. Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Skoðanakönnun sem danska blaðið Berlingske birti í gær sýnir að mikill meirihluti Grænlendinga, eða rúmlega 85%, er andvígur því að Grænland gangi úr ríkjasambandinu við Danmörku og verði í staðinn hluti af Bandaríkjunum.

Samkvæmt könnuninni vilja 6% Grænlendinga gera samning við Bandaríkin en 9% eru óákveðin.

Yfirlýsingar Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að hann vilji að Grænland verði hluti af Bandaríkjunum vegna mikilvægis landsins í varnarmálum og hótanir um að beita til þess vopnavaldi eða viðskiptaþvingunum hafa valdið uppnámi í Grænlandi og Danmörku. Í könnuninni sagðist tæplega helmingur aðspurðra, eða 43%, telja áhuga Trumps á Grænlandi vera ógnun en 43% sögðust telja að ákveðin tækifæri væri þar að finna.

Mette Frederiksen forsætisráðherra Dana átti í vikunni viðræður við leiðtoga Frakklands og Þýskalands og framkvæmdastjóra NATO og sagði á eftir að í þeim viðræðum hefði komið fram mikill stuðningur við Dani.

Tungumálið í hættu

Í huga Grænlendinga snúast átökin um Grænland ekki aðeins um hernaðarlega þýðingu landsins og dýra málma, sem þar er að finna í jörðu, heldur einnig um menningu og þjóðskipulag Grænlendinga. Grænlenska útvarpið ræddi í vikunni m.a. við Maligiaq Padilla sem bjó í Alaska í rúman áratug og aðstoðaði frumbyggja þar við að endurheimta menningu og siði frumbyggja sem voru horfnir eða við það að hverfa, m.a. annars að smíða húðkeipa. Og hann segist óttast að sama þróun verði á Grænlandi komist landið undir bandarísk yfirráð.

„Ég óttast mest, að ef við verðum t.d. hluti af Bandaríkjunum muni tungumál okkar verða það fyrsta sem við missum. Og þegar það verður hlutverk næstu kynslóðar að berjast fyrir tungumálinu mun það smátt og smátt hverfa og á endanum munum við tala ensku,“ segir Padilla.

Hann segir einnig að hann hafi ekki aðeins áhyggjur af sjálfstæði og tungumáli Grænlendinga. Þurfi íbúar að greiða sjálfir fyrir menntun og heilbrigðisþjónustu eins og í Bandaríkjunum muni það gera stöðu þeirra, sem minna mega sín, enn erfiðari.

Steven Arnfjord, lektor við Grænlandsháskóla í Nuuk, lýsir sömu skoðun í samtali við grænlenska útvarpið þegar hann er spurður hvað það þýddi að Grænlendingar yrðu bandarískir ríkisborgarar.

„Ef maður á að vera svartsýnn, þá er hægt að sjá það fyrir sér að það fyrsta sem gerðist væri að allir opinberir styrkir yrðu afnumdir. Það þýðir að menntakerfið yrði einkavætt og íbúar þyrftu að greiða fyrir menntun og heilbrigðisþjónustu,“ segir hann.

Skipti Grænlandi á milli sín

Það eru ekki aðeins Bandaríkjamenn sem líta á Grænland sem mikilvægan þátt í varnarmálum. Þannig lýsti rússneskur stjórnmálamaður þeirri skoðun í vikunni að Rússar þyrftu að styrkja hernaðarlega stöðu sína á norðurskautssvæðinu.

„Við þurfum á Grænlandi að halda. Þetta er ekki brandari. Norðurskautssvæðið er meira vandamál en Úkraína,“ sagði Andrei Guruljov á mánudag í umræðuþætti í rússneska ríkissjónvarpinu að sögn grænlenska útvarpsins.

Guruljov, sem er þingmaður flokks Vladímírs Pútíns Rússlandsforseta, lagði einnig til í umræðunum að Bandaríkin og Rússland gerðu samning um að skipta Grænlandi á milli sín.

Sérfræðingar, sem grænlenska útvarpið ræðir við, segir að ekki eigi að taka mikið mark á þessum yfirlýsingum Guruljovs en samt gefi þær til kynna að Rússar horfi æ meira til hernaðarlegrar þýðingar heimskautasvæðisins og Grænlendingar verði að búa sig undir nýja hernaðarlega stöðu á svæðinu, sérstaklega ef reistar verði herstöðvar á austurströndinni.

Flemming Splidsboel, sérfræðingur hjá Det Danske Institut for Internationale Studier, segir við grænlenska útvarpið að greinilegt sé að Rússar séu reiðubúnir að auka hernaðarlegan þrýsting á svæðinu.

Múte B. Egede, formaður grænlensku landsstjórnarinnar, sagðist í síðustu viku vilja minna á að heimskautasvæðið sé hernaðarlegt lágspennusvæði. En sérfræðingarnir, sem grænlenska útvarpið ræðir við, segja að þessi skilgreining eigi varla lengur við.

„Þetta er ekki lengur lágspennusvæði, því miður. Þar eru vaxandi umsvif þar sem ekki fara leynt. Umfangsmiklar heræfingar, kjarnorkukafbátar, flugmóðurskip, flugvélar og flugskeyti,“ segir Flemming Splidsboel. „Sú sérstöðuhyggja, að heimskautasvæðið sé ekki hernaðarsvæði, heldur ekki lengur að mínu mati.“

Höf.: Guðm. Sv. Hermannsson