Kristjana Sólbjört Guðmundsdóttir kennari fæddist í Reykjavík 9. janúar 1929. Hún lést á öldrunardeild Landspítalans í Fossvogi 13. janúar 2025 eftir stutta sjúkrahúslegu. Hún bjó að Týsgötu 4c ásamt foreldrum sínum, Guðmundi Ragnari Ólafssyni frá Grindavík og Steinunni Bjarnfríði Kristjánsdóttur úr Fremri-Breiðadal í Önundarfirði.
Kristjana Sólbjört gekk í Austurbæjarskóla og þaðan lá leiðin í Gagnfræðaskólann í Reykjavík og Húsmæðraskólann. Til 18 ára aldurs varði hún sumrunum ásamt móður sinni í Fremri-Breiðadal við sveitastörf. Síðar lauk Kristjana námi í handavinnudeild Kennaraskólans, þá með þrjú ung börn. Lengst af kenndi hún fötluðum börnum í Lyngási sem starfræktur var af Styrktarfélagi vangefinna og varð síðar Safamýrarskóli. Kristjönu féll aldrei verk úr hendi og eftir hana liggur mikill fjöldi af fjölbreyttum handverksmunum og hannyrðum.
Kristjana Sólbjört kynntist eftirlifandi eiginmanni sínum, Hauki Ísleifssyni loftskeytamanni og síðar aðalbókara Pósts og síma, í skemmtiferð á Snæfellsjökli árið 1947. Haukur er fæddur 1926 og verður 99 ára 1. maí næstkomandi. Þau gengu í hjónaband árið 1949. Börn þeirra eru fjögur:
1) Erlingur sjávarlíffræðingur, f. 1950, giftur Arndísi Sigurlaugu Guðmundsdóttur, f. 1953. Börn þeirra eru: Guðmundur Stefán, f. 1978, Kristjana, f. 1982 og Ólafur Páll, f. 1993. Dætur Guðmundar Stefáns eru Vera Rún og Elenóra Rún. Móðir þeirra er Unnur Hjaltadóttir. Maki Kristjönu er Hannes Sigurðsson og þau eiga synina Helga Dag, Ísak Mána og Jökul Örn.
2) Ingi Jón sálfræðingur, f. 1953, giftur Margréti Hansdóttur, f. 1956. Börn þeirra eru Haukur, f. 1974 og Björk, f. 1976. Maki Bjarkar er Valgarð Már Jakobsson, börn hennar frá fyrra hjónabandi með Jónasi Elíassyni eru Rafael Garpur, Natalía Brák og Indía Bríet.
3) Steinunn Ragna sérkennari, f. 1954, gift Marteini Eberhardtssyni, f. 1948. Synir þeirra eru Marteinn Svavar, f. 1982 og Hlynur Þór, f. 1986.
4) Viðar Örn viðskiptafræðingur, f. 1964, giftur Hrefnu Hrólfsdóttur, f. 1970. Sonur þeirra er Hrólfur Örn, f. 2007. Dóttir Viðars úr fyrra sambandi með Kristjönu Jóhannsdóttur er Jóhanna Helga, f. 1983. Maki hennar er Kristján Hafsteinsson og börn þeirra eru Iðunn Björk, Kári Rafn og Orri Steinarr.
Kristjana Sólbjört og Haukur áttu 75 ára atómbrúðkaupsafmæli 5. mars 2024. Þau hófu sinn búskap á Týsgötu 4c en bjuggu lengst af í Hvassaleiti 19, raðhúsi sem þau byggðu sjálf og fluttu í 1962, en síðari árin í Árskógum 6. Trjárækt átti stóran sess hjá þeim hjónum á sumarbústaðarlandi þeirra á Vatnsendahæð við Elliðavatn í hálfa öld. Mörg tré standa þar enn þó íbúðabyggð hafi tekið yfir svæðið og önnur voru flutt af Kópavogbæ og sett niður m.a. við Dalveg í Kópavogi.
Útför Kristjönu Sólbjartar fer fram frá Lindakirkju í dag, 30. janúar 2025, kl. 14.
Í dag kveð ég Kristjönu, kæra tengdamóður mína, með þakklæti og hlýju. Ég kynntist fjölskyldunni í Hvassaleitinu fyrir rúmum 50 árum þegar við Ingi fórum að vera saman og hafa samskipti okkar alltaf verið góð. Það var alltaf tekið vel á móti manni í Hvassaleitinu og síðar í Árskógum.
Bagga tengdamamma, eins og hún var oftast kölluð, starfaði sem kennari í Lyngási og síðar Safamýrarskóla og sinnti starfinu af mikilli samviskusemi og alúð. Bagga var glaðlynd, jákvæð og hafði lúmskan húmor. Hún var mikil hannyrðakona og til eru ófá listaverk eftir hana, fjölskyldumeðlimir fengu gjarnan útsaumuð kort í tækifærisgjafir, sem eru mikil listaverk svo eftir var tekið, en alltaf var Bagga hógvær, „það er svo gaman að gera þetta“ var viðkvæðið.
Bagga og Haukur eiginmaður hennar voru mjög samstíga í gegnum lífið, þau ferðuðust mikið bæði innan lands og utan og höfðu mikla ánægju af. Þau hjónin höfðu farið saman í gegnum lífið í 77 ár og missir Hauks og fjölskyldunnar er mikill en þakklæti fyrir að hafa fengið að vera henni samferða svona lengi.
Hvíl í friði, kæra tengdamamma.
Margrét (Magga).
Elsku amma. Ég fagna þinni löngu ævi. Þú talaðir um að þú hræddist ekki dauðann, þú færir bara heim í sveitina þar sem þú varst mikið sem barn. Man að þú nefndir að það skipti þig máli að gera gagn í sveitinni og ekki vera byrði. Þú varst alltaf svo dugleg og svo mikill kraftur í þér.
Við áttum margar stundir yfir kvöldkaffinu og þá var iðulega Homeblest eða sultukex og mjólk á borðinu. Þú varst líka mjög dugleg að baka. Við spjölluðum um margt og þú sagðir mér frá því þegar þú varst yngri. Ég hugsa oft um hvað þú upplifðir margt á þinni ævi sem ég tek sem sjálfsögðum hlut. Þú varst mikil hannyrðakona og sagðir mér frá að sem unglingur saumaðirðu mikið sjálf og prjónaðir föt fyrir heimilið því að á þessum tíma þurfti fólk að búa fötin sín til sjálft. Allt sem þú kunnir lærðirðu af móður þinni.
Ég geymi útsaumuðu kortin frá þér. Strákarnir eru duglegir að nota húfurnar og vettlingana sem þú prjónaðir. Þetta eru allt fjársjóðir í dag.
Það er erfitt að kveðja og margar minningar eins og þegar við fórum í ferðalög á Apavatn eða í Vaglaskóg. Stundirnar í Hvassó og svo Árskógum. Eftir háskólanámið fyrir norðan buðuð þið mér að vera í íbúðinni á neðri hæðinni í Hvassaleitinu. Tíminn var þá nýttur vel í alls konar spjall og dúllerí til að vinna upp fjarveruna meðan ég var í burtu. Við borðuðum saman þrjú í hádeginu um helgar og hlustuðum á fréttir og spjölluðum um heima og geima. Tíminn sem ég var í bænum á milli anna var einnig nýttur til að fá þig í verkefni fyrir skólann og á ég til nokkur skemmtileg viðtöl við þig.
Bústaðurinn við Elliðavatn var griðastaður fyrir náttúrubarnið sem ég var og er. Þið afi byggðuð upp og ræktuðuð svæðið í kring. Þar var að finna alls konar fugla og blóm og það var auðvelt að gleyma sér. Þangað var gott að koma að leika sér eða taka upp kartöflur. Það var alltaf svo vel tekið á móti mér og ég fann að ég var velkomin. Ég ber nafnið þitt með stolti og leit mikið upp til þín. Þú varst sjálfstæð, fórst þínar eigin leiðir, ákveðin, smá þrjósk og þú varst skemmtileg.
Amma mín, ég sakna þín. Hvíldu í friði.
Þú varst okkur amma svo undur góð
og eftirlést okkur dýran sjóð,
með bænum og blessun þinni.
Í barnsins hjarta var sæði sáð,
er síðan blómgast af Drottins náð,
sá ávöxtur geymist inni.
Við allt viljum þakka amma mín,
indælu og blíðu faðmlög þín,
þú vafðir oss vina armi.
Hjá vanga þínum var frið að fá
þá féllu tárin af votri brá,
við brostum hjá þínum barmi.
Við kveðjum þig elsku amma mín,
í upphæðum blessuð sólin skín,
þar englar þér vaka yfir.
Með kærleika ert þú kvödd í dag,
því komið er undir sólarlag,
en minninga ljós þitt lifir.
Leiddu svo ömmu góði guð
í gleðinnar sælu lífsfögnuð,
við minningu munum geyma.
Sofðu svo amma sætt og rótt,
við segjum af hjarta góða nótt.
Það harma þig allir heima.
(Halldór Jónsson frá Gili)
Kristjana Erlingsdóttir.
Við viljum með nokkrum orðum minnast skólasystur okkar, Kristjönu Sólbjartar Guðmundsdóttur.
Á haustmánuðum 1957 komu nokkur ungmenni víðsvegar af landinu saman í Kennaraskóla Íslands til að hefja nám við handmenntadeild skólans í handmenntum kvenna og smíðum pilta til kennslu í skólum landsins. Þetta var tveggja vetra nám sem lauk með réttindum til kennslu í þessum greinum. Að námi loknu fórum við að leita að vinnu í faginu og réðust nokkur okkar til starfa úti á landi en flest fengu starf í borginni. Kristjana starfaði allan sinn starfstíma á Lyngási, dagheimili fyrir fötluð börn.
Að hausti útskriftarárs okkar 1959 stofnuðum við sem vorum á Reykjavíkursvæðinu saumaklúbb, eins og þannig samkomur voru oftast kallaðar á þessum tíma – en þar var að sjálfsögðu tekið til við hannyrðir.
Við hittumst einu sinni í mánuði á heimilum okkar og áttum góðar stundir saman yfir kaffi og veitingum, tókum upp hannyrðir og ræddum málefni líðandi stundar. Það var gjarnan glatt á hjalla. Þessi saumaklúbbur hefur haldið saman í 65 ár og gegnum árin hefur vinskapurinn styrkst. Við fórum ásamt mönnum okkar í ferðalög saman, leikhús og héldum matarboð og fleira. Tóku Kristjana og Haukur að sjálfsögðu þátt, góðir ferðafélagar og vinir.
Kristjana var elst okkar skólasystra en lét sig ekki vanta í klúbbinn þrátt fyrir að heilsunni tæki að hraka. Við minnumst glaðlyndrar vinkonu, léttrar í lund og hreyfingum og mikillar hannyrðakonu.
Kæri Haukur og fjölskylda, við skólasystur og makar vottum þér og ykkur öllum okkar dýpstu samúð á þessum tímamótum.
Guð blessi minningu Kristjönu og gefi ykkur styrk.
Fyrir hönd skólasystranna,
Katrín H. Ágústsdóttir.
Hinsta kveðja
Við vildum óska þess að við og langamma hefðum getað gert meira skemmtilegt saman en við vitum að hún var orðin mjög gömul. Við hefðum viljað koma oftar til hennar. Við erum mjög þakklátir fyrir að hafa átt langömmu því sumir eru búnir að missa langömmu sína áður en þeir fæðast.
Við munum að þegar við komum til hennar og langafa þá var alltaf kalt appelsín á svölunum og hún bauð okkur alltaf ís. Það var líka mjög gaman að tala við hana.
Við elskum þig langamma mjög mikið.
Helgi Dagur,
Ísak Máni og
Jökull Örn.