Þétt Bílastæðin við Suðurlandsbraut eru oft þétt setin og á álagstímum myndast þar eins konar neyðarástand.
Þétt Bílastæðin við Suðurlandsbraut eru oft þétt setin og á álagstímum myndast þar eins konar neyðarástand. — Morgunblaðið/Karítas
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Miklar breytingar standa fyrir dyrum á skipulagi Suðurlandsbrautar í kjölfar þess að svæðið verður lagað að þörfum borgarlínu. Þetta má glögglega sjá á drögum að aðalskipulagi fyrir svæðið en í liðinni viku rann út frestur til þess að skila…

Baksvið

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Miklar breytingar standa fyrir dyrum á skipulagi Suðurlandsbrautar í kjölfar þess að svæðið verður lagað að þörfum borgarlínu. Þetta má glögglega sjá á drögum að aðalskipulagi fyrir svæðið en í liðinni viku rann út frestur til þess að skila athugasemdum við það sem kallað er „Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 – Tillaga, rammahluti – Borgarlína 1. lota: Ártún – Fossvogsbrú.“

Umsagnir sem bárust komu úr ýmsum áttum en þó einkanlega frá hinu opinbera, nágrannasveitarfélögum, Skipulagsstofnun, Veðurstofu Íslands, Veitum, Hafrannsóknastofnun, Alþingi, svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins, Náttúrufræðistofnun Íslands, Strætó, Minjastofnun Íslands, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkurborgar og þar fram eftir götunum.

Kennir þar ýmissa grasa en ekki vekur minni athygli að forsvarsmenn fyrirtækja sem eiga starfsemi við Suðurlandsbraut leggja þar orð í belg.

Marglaga kerfi

Líkt og sjá má á tölvuteiknaðri mynd hér að ofan er gert ráð fyrir að Suðurlandsbraut taki stakkaskiptum með nýju skipulagi. Ólíkt því sem nú er, þar sem bílaumferð hefur aðgang að tveimur akreinum í hvora átt, verður aðeins gert ráð fyrir einni í hvora átt í hinni endursköpuðu veröld. Þá verða akstursstefnurnar aðskildar með gróðri á bæði borð og þar á milli mun svo hin umtalaða borgarlína liggja.

Yst koma svo göngu- og hjólastígar.

Þessi fjölþátta samgöngumannvirki kalla á mikil landrými, og þótt það sé talsvert í Laugardal er ljóst að ýmislegt þarf undan að láta. Þannig má sjá á fyrrnefndri mynd hér að ofan að sunnan Suðurlandsbrautar, þar sem nú er að finna hliðargötu og bílastæði sem í flestum tilvikum eru skáhallandi í tvöfaldri röð, ásamt einni röð samsíða Suðurlandsbrautinni, er aðeins gert ráð fyrir hliðargötu sem fyrr og einfaldri röð bílastæða sem liggi samsíða henni.

Verði þessi áform að veruleika er ljóst að bílastæðum framan við skrifstofu-, verslunar- og þjónustuhúsnæði mun fækka gríðarlega.

Og það er meðal annars vegna þess sem Vilhjálmur Þ.Á. Vilhjálmsson, skilar inn umsögn um aðalskipulagið fyrir hönd fyrirtækjanna Ormsson hf., Sýnar hf., Lyfju hf., Samkaupa hf., Lækninga hf. og Skurðstofunnar hf.

Þar er bent á að meginumferðargötur borgarinnar liggi frá austri til vesturs, annars vegar Sæbraut og hins vegar Miklabraut.

„Á Suðurlandsbraut er umtalsvert hægari umferð, enda að miklu leyti til notuð af borgarbúum sem sækja sér þjónustu og verslun. Skeifan, Suðurlandsbraut og Múlar (Ármúli, Síðumúli, Hallarmúli, Lágmúli) eru aðalverslunarsvæðin í Reykjavík að frátalinni versunarmiðstöðinni í Kringlunni eða miðbænum þar sem finna má annars konar þjónustu,“ segir í umsögninni og bent á að „þannig hafi borgin þróast í áranna rás enda safnast verslanir að jafnaði fyrir í kringum þau svæði sem eru í alfaraleið og með gott aðgengi“. Þá er áréttað að flestir notist við einkabílinn til þess að nálgast vöru og þjónustu enda „almennt lítill vilji til að ganga langar vegalengdir með vörur“.

Vill lögmaðurinn, fyrir hönd fyrirtækjanna, meina að með því að staðsetja borgarlínu um Suðurlandsbraut sé verið að raska ákveðnu jafnvægi í borgarlandinu og að forsvarsmenn fyrirtækjanna hafi verulegar áhyggjur af mögulegu aðgengi viðskiptavina að verslun og þjónustu, verði fyrirætlanir borgarinnar að veruleika.

Samkeppnissjónarmið

Í umsögninni er bent á að samkeppni fyrirtækja á markaði fari meðal annars eftir aðgengi og að „landfræðilegi markaðurinn er skilgreindur og helgast af því“. Segir því að skipulagsyfirvöld beri af þessum sökum mikla ábyrgð á því að takmarka ekki samkeppni með tillögum sem hafi möguleg neikvæð áhrif á aðgengi fólks að vörum eða þjónustu.

„Það hentar illa að setja almenningssamgöngur í forgang á verslunarsvæði sem er aðallega sótt af akandi viðskiptavinum. Miklu frekar ætti að nýta hinar þegar stóru umferðaræðar í gegnum Reykjavík, s.s. Sæbraut, Miklubraut og Kringlumýrarbraut.“

Vinstri beygjur bannaðar

Samkvæmt athugasemdum fyrirtækjanna sem starfa við Suðurlandsbraut virðist einnig mikil óvissa uppi um hvert aðgengi bifreiða verði sem aka munu á hinni einföldu akrein frá austri til vesturs, að verslunar- og þjónustukjarnanum í Múlunum. Í dag eru nokkrar vinstri beygjur heimilar sem fæða umferðina inn í hverfið en flest bendir til þess, miðað við aðrar fyrirætlanir tengdar öðrum svæðum borgarlínunnar (m.a. Ártúnshöfða), að þær verði með öllu bannaðar á Suðurlandsbraut, nema við gatnamót.

„Áhyggjur eru fyrir hendi hvað verði því um hinar fjölmörgu vinstri beygjur frá austri á Suðurlandsbraut, þ. á m. hina mikilvægu vinstri beygju fyrirtækjanna í Lágmúla. Verður vart komist nær öðru heldur en að ekki sé gert ráð fyrir slíkum beygjum sem myndi fela í sér verulegt tjón fyrir fyrirtækin í Múlum og á Suðurlandsbraut,“ segir í umsögninni.

Þá er bent á að mikil áhöld séu um hvort vinstri beygja verði heldur heimiluð við Vegmúla, en frumdrög að skipulaginu frá 2021 voru í þá veru. Er í þessu sambandi bent á að fyrir nokkrum misserum síðan var lokað á aðgengi að Lágmúla að norðan frá Háaleitisbraut til austurs og að það hafi haft verulega neikvæð áhrif á verslun.

„Er því fyrirséð að það verði neikvæðar fjárhagslegar afleiðingar með frekari takmörkunum,“ segir í umsögninni.

Á kostnað einkabílsins

Forvitnilegt er að rýna í þau gögn sem liggja aðalskipulaginu til grundvallar. Þar kemur ljóslega fram að forgangur borgarlínunnar er margs konar, einnig þegar kemur að töfum vegna viðhalds mannvirkja sem liggja neðanjarðar.

Þannig kemur fram í athugasemdum frá verkfræðistofunni Eflu, sem fram voru komnar í aðdraganda umsagnarferlisins sem hér um ræðir og setta eru fram fyrir hönd Veitna að síðastnefnda fyrirtækið muni forðast að koma nýjum lögnum undir akreinum borgarlínu. „Vatns- og fráveitulögnum verður því komið fyrir í almennum akreinum en hita- og rafveitu í göngu- eða hjólastígum [...] Talið er betra að almenn umferð verði fyrir töfum eða lokunum vegna lagnaframkvæmda heldur en borgarlína.“

Í gögnum borgarinnar segir að afstaða verði tekin til þessarar nálgunar Veitna við hönnun borgarlínu. Ósennilegt er að þar muni hjartað slá á öðrum stað en í tilviki Veitna. Ekki kemur fram af hverju veitufyrirtækið telji forgangsröðunina eiga að vera með þessum hætti, en ljóst er að einkabíllinn á sér fáa málsvara innan borgarkerfisins.

Höf.: Stefán E. Stefánsson