Kristjana Sigríður Ólafsdóttir fæddist á Siglufirði 26. janúar 1951. Hún lést á heimili Rúnu systur sinnar 25. desember 2024.

Foreldrar hennar voru hjónin Ólöf Ólafsdóttir, f. 24.9. 1925, d. 29.8. 2009 og Ólafur Helgi Jónsson, f. 24.9. 1925, d. 9.10. 2016.

Alsystkini Kristjönu eru Veigar Ísak, f. 24.3. 1947, Jón Kristinn, f. 2.12. 1948, Ólöf Steinunn, f. 31.10. 1949, Hugrún Helga, f. 26.1. 1951 og Sólveig, f. 30.5. 1959. Samfeðra: Hávarður Helgason, f. 25.5. 1946.

Kristjana giftist 31. des. 1974 Walter Ketel, f. 11.7. 1952, d. 24.2. 2018. Foreldrar hans voru Akiko Kimura, f. 1923, d. 1964 og Hellmuth Ketel, f. 1893, d. 1961. Börn Kristjönu og Walters eru: 1) Andreas Ólafur Ketel, f. 7.1. 1976. Eiginkona hans Elín Karol Guðmundsdóttir, f. 6.1. 1976. Börn þeirra: Adrian Róbert Ketel, f. 14.10. 2014 og Sóldís Thelma Ketel, f. 8.12. 2016. Fyrir átti Andreas Walter Brynjar Ketel, f. 27.3. 1998. 2) Róbert Veigar Ketel, f. 20.4. 1980. Fyrrverandi sambýliskona Inga Dröfn Sváfnisdóttir, f. 27.6. 1982. Börn þeirra: Andreas Haraldur Ketel, f. 15.1. 2006, Kamilla Hafdís Ketel, f. 20.5. 2007, Marikó Árný Ketel, f. 31.7. 2014 og Dalía Lórey Ketel, f. 6.10. 2016. Sambýliskona Róberts: Henríetta Þóra Magnúsdóttir, f. 24.10. 1980. Barn þeirra óskírð Ketel, f. 2.8. 2024. 3) Hugrún Helga Ketel, f. 14.10. 1982. Fyrrverandi eiginmaður Óðinn Ólafsson, f. 6.9. 1978. Börn þeirra: Kristjana Vala Ketel, f. 17.2. 2002, Viktoría Sólveig Ketel, f. 27.1. 2007 og Alexander Óli Ketel, f. 25.6. 2014. Sambýlismaður Hugrúnar Helgu er Viðar Utley, f. 16.11. 1966.

Kristjana Sigríður ólst upp í Neskaupstað. Hún minntist ætíð æskuáranna með hlýju og þakklæti. Foreldrar hennar mótuðu heimilisbraginn á Hámundarstöðum og glaðvær og fjörmikill systkinahópurinn átti saman margar gleðistundirnar. Í Neskaupstað lauk hún grunnnámi og síðar ársnámi við Húsmæðraskólann á Löngumýri í Skagafirði. Um tvítugt fór hún til náms og starfa í Þýskalandi og þar kynntist hún eiginmanni sínum, Walter Ketel. Þau bjuggu fyrst í Reykjavík en lengst af í Hafnarfirði. Utan heimilis vann Kristjana um langt árabil sem aðstoðarmaður tannlæknis í Reykjavík. Eftir að Walter lést flutti Kristjana í Kópavog. Hún átti við erfið veikindi að stríða síðustu árin en tókst á við erfiðleikana af aðdáunarverðu æðruleysi.

Kristjana var jarðsungin frá Garðakirkju 16. janúar 2025.

Nú er komið að kveðjustund, elsku yndislega móðir mín. Síðastliðnar vikur hafa verið mjög þungbærar. Þrátt fyrir að vita hvað í stefndi gerðist allt svo ofboðslega hratt, eiginlega allt of hratt því ég var engan veginn tilbúin að sleppa þér strax, elsku mamma mín. Það var svo erfitt og sárt að þurfa að kveðja þig, sjá þig taka síðasta andardráttinn, vitandi það að ég myndi aldrei sjá né heyra í þér aftur. Ég reyni þó að hugga mig við það að nú sértu komin í fangið hjá pabba í sumarlandinu, líðandi miklu betur, sért frjáls og verkjalaus. Einhvern veginn fannst manni að þið yrðuð alltaf til staðar, en núna eruð þið bæði farin frá okkur og hefur það verið erfið tilhugsun að hugsa til þess að við munum halda lífi okkar áfram án ykkar. En við lofum því að hugsa vel hvort um annað og þið þurfið engar áhyggjur að hafa. 

Elsku mamma mín, þú varst algjör hetja og kvartaðir aldrei í veikindum þínum. Ef við spurðum þig hvernig þú hefðir það, þá var svarið þitt alltaf „ég verð betri á morgun“, við máttum nefnilega aldrei hafa áhyggjur af þér. Þú varst svo sterk og dugleg. Elsku yndislega mamma mín, mig langar til að þakka þér fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig, þú varst mín huggun, mín stoð og stytta. Maður gat alltaf leitað til þín og fengið ráðleggingar, sama hvað það var. Þú dæmdir aldrei og komst með góð ráð. Þú varst mér yndisleg móðir og hugsaðir ávallt svo vel um mig og okkur öll.

Þegar þú eignaðist barnabörnin þín þá sástu ekki sólina fyrir þeim, þú varst þeim dásamleg amma og börnin voru afar heppin að eiga þig að. Þið pabbi voruð þau allra bestu amma og afi sem hægt var að hugsa sér og fyrir það er ég ævinlega þakklát. Við eigum svo dásamlegar minningar með ykkur sem við munum varðveita í hjarta okkar og við lofum því að vera dugleg að halda minningunni um ykkur á lofti um ókomna tíð.

Elsku mamma við kveðjumst í dag,

hjartað mitt syrgir svo tómlegt er það.

Það huggar mig að vita að þar sem þú ert,

í fanginu hjá pabba þar sem þér líður best.

Með þakklæti í huga ég minnist þín

fyrir alla þá ást sem þú gafst til mín.

Alla þá hlýju þú veittir mér og öll þau ráð ég tek með mér.

Í hjarta mínu finn ég að þú býrð í mér,

það yljar mér strax að vita af þér hér.

Við sjáumst á ný þegar ég kem til þín.

Vertu nú sæl, mamma mín.

(Hugga Ketel)

Þín dóttir,

Hugrún Helga.

Kristjana mágkona mín er látin, 73 ára að aldri. Margs er að minnast. Ung fór hún til Þýskalands til starfa á hóteli. Markmiðið að lifa ævintýrið og ná tökum á þýskri tungu. Þar komst hún í kynni við ungan matreiðslunema, Walter Ketel, og örlögin voru ráðin. Þau giftu sig í Norðfjarðarkirkju við látlausa athöfn og hlotnaðist mér sá heiður að vera svaramaður Walters. Myndarleg veisla var síðan haldin á ættarsetrinu, Hámundarstöðum. Ungu hjónin nutu stundarinnar og geisluðu af hamingju. Aldrei kom til álita að setjast að í Þýskalandi og áttu þau heimili fyrst í Reykjavík en lengst af bjuggu þau í Hafnarfirði. Börnin þeirra þrjú voru þeim gleðigjafar svo ekki sé talað um barnabörnin þegar þau komu til sögunnar. Utan heimilis vann Kristjana um árabil sem tanntæknir á tannlæknastofu í miðbæ Reykjavíkur en Walter starfaði víða sem matreiðslumeistari og naut virðingar í sínu fagi. Við Óla áttum í gefandi samskiptum við þau sem aldrei bar skugga á. Heimsóknir til þeirra voru oftar en ekki kryddaðar með veisluföngum að hætti Walters en Kidda eins og hún var jafnan kölluð sá um veisluborðið af smekkvísi. Kidda var mikil myndarkona og að eðlisfari rósöm og yfirveguð í framkomu og hafði notalega nærveru. Walter lést árið 2018, 66 ára að aldri og það var eins og Kidda mágkona mín næði sér aldrei almennilega á strik eftir fráfall hans. Hún glímdi við erfiðan sjúkdóm síðustu árin og lést á jóladag 2024 á heimili Rúnu, tvíburasystur sinnar, en þar naut hún umönnunar heimahjúkrunar í þrjár vikur þar til yfir lauk. Við Óla sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til fjölskyldu hennar. Blessuð sé minning hennar.

Gísli Steinar Sighvatsson.

Elsku Kidda, þú hefur nú kvatt okkur. Ég hef þekkt þig í hálfa öld, allt frá því að ég kynntist tvíburasystur þinni Rúnu og þú giftist Walter í Neskaupstað 1974. Ég veit ekki hvar ég á að byrja, allar minningar um þig eru góðar. Við áttum saman yndislegar stundir með fjölskyldum okkar. Við áttum börnin okkar á svipuðum tíma, skírðum þau og fermdum saman. Einnig minnist ég allra ferðalaganna sem við fórum saman með börnunum innanlands og erlendis. Við gerðum nánast allt saman enda voruð þið systurnar mjög samrýndar, töluðust við í síma nánast á hverjum degi.

Heimili þitt í Hafnarfirði var alltaf opið fyrir gesti og gangandi. Þú varst mjög heimakær, vildir alltaf vera heima og hugsa um börnin. Þegar þau voru orðin eldri fórst þú að vinna en þurftir að hætta því allt of snemma vegna veikinda.

Ég veit ekki hvernig lífið verður hjá okkur Rúnu, en þið systur fóruð allt saman, ég verð núna að koma í þinn stað en það verður erfitt. Ég man að þegar þið systur fóruð á mannfagnaði eða í veislur komuð þið oftast eins klæddar, það var svo sterk taug á milli ykkar; ef önnur var veik vissi hin það án þess að hringja.

Eftir að Walter dó keyptir þú íbúð í Kópavogi til að vera nær Rúnu. Við ætluðum að gera svo margt, en þá kom covid og síðan þessi illvígi sjúkdómur sem sigrar oftast að lokum.

Síðustu ár hafa verið þér erfið vegna veikindanna en þú tókst því með aðdáunarverðu æðruleysi, sagðir alltaf „ég hef það ágætt en ég verð betri á morgun“.

Elsku Kidda, ég veit að þú ert komin á betri stað og þér líður betur, allar þjáningar þínar horfnar. Ég kveð þig með margar minningar í hjarta og það voru forréttindi að geta annast þig hér heima hjá okkur Rúnu síðustu vikurnar þar sem þið systur láguð uppi í rúmi og töluðuð um liðin ár og fleira.

Síðustu dagar hafa verið hljóðir hér í Blásölum, engar símhringingar á morgnana og Rúna horfir í gluggann þinn til að gá hvort það sé komið ljós, sem þýðir bara eitt, að hún saknar þín mjög mikið.

Andréas, Róbert, Hugrún og fjölskyldur, ég sendi ykkur innilegustu samúðarkveðjur.

Kveðja,

Sigurbjörn (Sibbi).