Íslensk stjórnvöld hafa fallist á að tryggja að hagnaðardrifin starfsemi Sorpu verði færð í hlutafélag sem sé tekjuskattsskylt. Í tilkynningu frá ESA, eftirlitsstofnun EFTA, segir að með ákvörðun ESA sé skuldbinding Íslands staðfest og sé hún því lagalega bindandi.
Undir hagnaðardrifna starfsemi Sorpu fellur meðal annars móttaka og flokkun rusls frá öðrum en heimilum, starfsemi urðunarstöðvarinnar í Álfsnesi og gas- og jarðgerðarstöðin GAJA.
Sorpa er byggðasamlag í eigu sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Gunnar Dofri Ólafsson, sviðsstjóri þjónustu- og samskiptasviðs Sorpu, segir við Morgunblaðið að fyrirtækið hafi verið í vinnu með stjórnvöldum til að uppfylla kröfur ESA.
Vinnuhópur að störfum
„Ekkert í þessari niðurstöðu ESA kemur okkur á óvart, eða er á móti skapi,“ segir Gunnar Dofri en vinnuhópur hefur verið að störfum til að meta áhrifin af breyttu rekstrarformi og undirbúa það sem gera þarf. Hefur Sorpa tvö ár til að klára málið.
Í fundargerðum SSH, Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, kemur m.a. fram að það hafi verið fyrirséð að gera þyrfti breytingar á stofngerðum Sorpu bs. vegna þessa.
ESA fór þess á leit við íslensk stjórnvöld í nóvember á síðasta ári að hagnaðardrifin starfsemi Sorpu yrði færð í hlutafélag með það að markmiði að jafna samkeppnisskilyrði og uppfylla ákvæði EES-samningsins.
Fram kemur í tilkynningu ESA að Ísland hafi nú formlega samþykkt fyrirhugaðar aðgerðir og skuldbundið sig til þess að koma þeim til framkvæmda að fullu fyrir 1. janúar 2027. Úrræðin séu lagalega bindandi fyrir Ísland.