Leyfi Landeldisstöð Aurora verður staðsett austan við álverið á Grundartanga. Framkvæmdaaðili segir starfsemina verða utan þynningarsvæðis.
Leyfi Landeldisstöð Aurora verður staðsett austan við álverið á Grundartanga. Framkvæmdaaðili segir starfsemina verða utan þynningarsvæðis. — Ljósmynd/EFLA
Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Vesturlands vegna fyrirspurnar um matsskyldu vegna landeldis á Grundartanga kemur fram að matvælafyrirtæki skuli ekki staðsett nálægt atvinnurekstri sem geti haft mengandi áhrif á starfsemina

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Vesturlands vegna fyrirspurnar um matsskyldu vegna landeldis á Grundartanga kemur fram að matvælafyrirtæki skuli ekki staðsett nálægt atvinnurekstri sem geti haft mengandi áhrif á starfsemina. Norðurál og Elkem á Íslandi eru með starfsemi á Grundartanga.

Þorsteinn Narfason, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, telur best að framleiða matvæli þar sem framleiðsluumhverfið sé öruggt með tilliti til matvælaöryggis og því fari ekki vel á að stunda matvælaframleiðslu á stóriðjusvæði.

Spurður hvernig farið verði með starfsleyfi fyrir 28 þúsund tonna ársframleiðslu Aurora fiskeldis ehf., sem fyrirhuguð er á Grundartanga, segir hann að heilbrigðiseftirlitið sé búið að gefa umsögn vegna umhverfismats laxeldisins.

Andstætt Evrópupulöggjöfinni

Morgunblaðið greindi frá því fyrir nokkru að verksmiðja Kornax hefði ekki fengið starfsleyfi á Grundartanga þar sem matvælaframleiðsla gæti ekki farið fram á þynningarsvæði stóriðju.

„Okkar hlutverk er að vinna eftir löggjöfinni og okkar svar er á þann veg að ekki passi að vera með matvælaframleiðslu á þessu svæði. Í umsögn okkar bentum við á nákvæmlega það sama og lagt var til grundvallar þegar verksmiðju Kornax var synjað um starfsleyfi,“ segir Þorsteinn.

Er þá útséð um að þeir fái starfsleyfi?

„Ég vil ekkert fullyrða um það. Það fer eftir hvernig því verður stillt upp, á hvaða tímapunkti og á hvaða forsendum. Þessi mál yrðu bara skoðuð ef þau koma á borð heilbrigðisnefndar en það er líklega Umhverfisstofnun sem er leyfisveitandi fyrir fiskeldið.“

Eiga ekki sömu rök við og í tilfelli Kornax?

„Ef fiskeldið er utan þynningarsvæðis á ekki það sama við og um Kornax. Á meðan þynningarsvæðið er í löggjöfinni og í starfsleyfum fyrirtækjanna þá er það nokkuð augljóst. Það stendur til að fella þynningarsvæði út úr löggjöfinni en því er ekki lokið og þau eru enn til staðar í starfsleyfum stóriðjunnar. Ef sótt verður um starfsleyfi fyrir matvælafyrirtæki á svæðinu eftir að þynningarsvæði hafa verið felld út úr löggjöfinni þarf að skoða það upp á nýtt hvort kæmi til greina að afgreiða starfsleyfi með jákvæðum hætti.“

Þarf þá lagabreytingu til þess að hægt sé að veita Kornax og Aurora starfsleyfi?

„Ef þingið tæki ákvörðun um að breyta löggjöfinni til að heimilt sé að veita leyfi fyrir þessari starfsemi þá væri það andstætt Evrópulöggjöfinni.“

En yrði áhættan með tilliti til fæðuöryggis ekki enn sú sama?

„Það er ekki gott fyrir matvælaöryggi að framleiða matvæli á stóriðjusvæði. Það mætti gjarnan skýra löggjöfina hvað þetta varðar,“ segir Þorsteinn Narfason.

Einhver misskilningur

„Ég held að þetta sé einhver misskilningur. Við erum klárlega utan þynningarsvæðis og við erum ekki í opinni matvælaframleiðslu,“ segir Helgi Sigurðsson, annar tveggja forsvarsmanna Aurora fiskeldis, spurður hvort starfsleyfi hafi verið tryggt fyrir áformað landeldi á Grundartanga. Hann lagði fram kort máli sínu til stuðnings.

„Við höfum farið í gegnum matsskyldufyrirspurn þar sem þetta var sent til umsagnar Heilbrigðiseftirlits Vesturlands. Þeir gerðu ekki þessa athugasemd í þeirri umsögn, heldur gerðu þeir athugasemdir við frárennslismálin, sem við munum bregðast við.

Það er verið að skoða hvernig hægt er að nýta glatvarmann frá ELKEM og einnig er verið að skoða samstarf við Qair um nýtingu á varma og súrefni, þannig að við erum að reyna að gera þetta eins grænt og kostur er,“ segir Helgi Sigurðsson.

Höf.: Óskar Bergsson