Pétur Blöndal
p.blondal@gmail.com
Ragnar Ingi Aðalsteinsson ritstjóri Stuðlabergs með meiru átti afmæli 15. janúar og vaknaði með vísu á vörunum.
Fátt er nú mér til meins
mun ekki sakna neins;
sæll og glaður,
sjálfmiðaður,
- áttatíu og eins.
Ekkert jafnast á við þorramatinn. Um það þráttar síst Jón Arnkelsson:
Ef þín lund er eitthvað þung
það efalaust bætir þitt geð
að setjast niður með súran pung
og sötra mjólkurglas með.
Ingólfur Ómar Ármannsson tekur undir það:
Nú er best að kýla kvið
kjamsa vel og lengi.
Hangikjöt og söltuð svið
súran pung og rengi.
Þá Hólmfríður Jónsdóttir:
Þorrann nú mannfólkið þreytir,
þó magálar vel séu feitir.
Lifrarpylsu, harðfisk
Læt ég nú á minn disk
og þeysist svo fram um sveitir.
Limra eftir Jón Jens Kristjánsson:
Þegar að Þórhildur Jóna
í þoku villtist með skóna
á Miðhúsastekk
í mógröf hún gekk
meðan hún var að prjóna.
Sólin náði að skína örlítið inn um stofugluggann hjá Pétri Stefánssyni – í fyrsta sinn á þessu ári:
Meðan frostið kyssir kinn
og klaki vefst um bólin,
gægist inn um gluggann minn
glaðleg vetrarsólin.
Að síðustu orti Haraldur Hjálmarsson á Kambi þegar hart var í ári:
Nú fer ég að lesa lög,
læra svik og hrekki,
því varla dugar höndin hög
og heiðarleikinn ekki.