Áslaug Benediktsdóttir fæddist í Reykjavík 16. október 1942. Hún lést á sjúkrahúsi Akraness 15. janúar 2025.

Áslaug var dóttir hjónanna Benedikts Jónssonar, f. 7. september 1910, d. 16. júlí 1991, og Elínar Þorsteinsdóttur, f. 19. febrúar 1912, d. 22. maí 1984. Systkini Áslaugar eru: Björg, f. 1931, d. 2013, Jón f. 1937, d. 2016, Þór, f. 1945, Kristjana, f. 1946, Hafdís, f. 1949, og Elín, f. 1952.

Þann 23. nóvember 1964 gekk Áslaug í hjónaband með Sæmundi Bjarnasyni, f. í Hveragerði 13. september 1942. Foreldrar Sæmundar voru Bjarni Sæmundsson, f. 1902, d. 1973, og Sigurrós Guðlaugsdóttir, f. 1910, d. 1979.

Áslaug og Sæmundur eignuðust þrjú börn: 1) Bjarni, f. 7. apríl 1965, maki Charmaine Butler, f. 7. ágúst 1967. Dóttir þeirra er Tinna Alexandra Sóley Bjarnadóttir, f. 12. október 2009. Dóttir Charmaine er Shadeka Butler-Sturrup, f. 12. maí 1989. Börn hennar eru: Dre Rolle, f. 2009, Allen Butler, f. 2012, Selena Sturrup, f. 2018, og Elaine Sturrup, f. 2019. 2) Benedikt, f. 27. mars 1967, maki Angela Haydarly, f. 22. apríl 1972. Dóttir þeirra er Helena Benediktsdóttir Haydarly, f. 12. september 2012. Börn Angelu eru Anton Nikolaison Haydarly, f. 5. janúar 1993, og Díana Rós Kristjánsdóttir Haydarly, f. 12. desember 2002. 3) Hafdís Rósa, f. 5. maí 1975, maki Jóhann Guðmundsson, f. 6. september 1967.

Fyrstu átta árin bjó Áslaug hjá Jónasínu ömmu sinni á Egilsgötu í Reykjavík ásamt fjölskyldu sinni þar til þau fluttu á Stokkseyri. Hún lauk námi frá Héraðsskólanum á Laugarvatni og fór strax að heiman til að starfa á Kristneshæli í Eyjafjarðarsveit. Við tók svo starf á Vífilsstaðaspítala. Þegar Áslaug var ung veiktist móðir hennar mikið og hún flutti aftur í Brekkuholt á Stokkseyri til móður sinnar. Á þeim tíma kynntist hún eftirlifandi eiginmanni sínum.

Þau hófu búskap í Hveragerði, fluttust til Reykjavíkur og árið 1970 að Vegamótum á Snæfellsnesi. Fyrstu árin var Áslaug að mestu heimavinnandi en á Vegamótum tók hún þátt í rekstri veitingahúss og verslunar þar. Árið 1978 lá leiðin til Borgarness þar sem Áslaug vann verslunarstörf og opnaði tískuvöruverslunina Mist ásamt nöfnu sinni Þorvaldsdóttur. Næstu ár fluttu þau aftur til Reykjavíkur, þaðan í Hveragerði og svo í Kópavog. Á þessum tíma vann Áslaug ýmist sem leiðbeinandi í listsköpun eða við aðhlynningu, m.a. á Laugaskjóli þar sem henni líkaði mjög vel að starfa. Um tíma gerðist Áslaug dagmóðir með Kristjönu systur sinni. Árið 2015 fluttu þau til Akraness. Áslaug tók virkan þátt í félagslífi listafólks hvar sem hún bjó.

Jákvæðni og mikill sköpunarkraftur voru einkenni Áslaugar alla tíð. Hún hafði mikla þörf fyrir að tjá sig með listsköpun; vatnslitun, olíumálverkum, leirgerð og vinnu með gler og grjót, tágar, túss og tölvulist. Með blekpenna skapaði hún svo bæði teikningar og ljóð.

Útför Áslaugar fer fram frá Guðríðarkirkju í dag, 30. janúar 2025, og hefst athöfnin kl. 13.

Ef ég mætti bara nota eitt orð til að lýsa mömmu, þá segði ég að hún væri sjálfstæð. En svo myndi ég auðvitað óhlýðnast og bæta við að hún hafi verið listrænn, bjartsýnn, víðsýnn og fordæmalaus töffari – algjör kjarnakona sem allt gat – því hún gerði svo margt. Hún hafði mikla sköpunarþörf og gerði óteljandi listaverk: Draumkenndar vatnslitamyndir, litrík olíumálverk og dularfullar myndir með einþrykki. Fantasían og húmor fékk svo að njóta sín í kolsvörtum pennateikningum. Mamma gerði margt fleira listilega vel, eins og að skapa úr leir og gleri, hnýta körfur og veggskraut, yrkja skemmtilegar vísur og elda plokkfiskinn hans afa (leyndarmálið er mikið smjör og smá karrí).

Í listinni festi hún sig aldrei í neinni tækni eða viðfangi og engin leið er að gera verkum hennar góð skil. Hún málaði bæði oggulitlar myndir og risastórar og gat aldrei gert sömu myndina oft, eins og verður stundum hjá sumum. Fuglar og fiskar voru þó alltaf áberandi sem og fantasíumyndir af fólki, oftast konum. Fallegum, hugsandi og dreymandi. Gjarnan rauðhærðar en líka með hárið blátt.

Mamma sá heiminn aðeins örðuvísi en flestir, því hún heyrði liti þegar fólk talaði. Nöfn og orð höfðu hvert sinn lit. Nafnið hans pabba var gult eins og sólin og þau voru samferða í lífinu í nærri 65 ár og af þeim 60 ár í hjónabandi. Sextíu viðburðarík ár, jól, afmæli, ferðalög, sólrík sumur og kannski örfáir snjóþungir vetur.

Við systkinin erum svo lánsöm að eiga dýrmætar og góðar minningar frá uppvaxtarárum okkar. Mamma var hjartahlý og hvetjandi, gaf okkur áhuga og tíma og hlustaði alltaf á okkur, rétt eins og pabbi. Auðvitað var ekkert því til fyrirstöðu að bræður mínir gætu smíðað eldflaug og skotið út í geim – var eitthvað sem hún gæti hjálpað þeim með? Ég þarf ekki að leita lengi í huganum til að heyra: „Hafdís mín, þú getur þetta alveg!“ Flestallt sem okkur datt í hug að gera fékk góðar undirtektir og hún sagði okkur að vaða bara í málin, vera áræðin. Ekkert væri óyfirstíganlegt. Ef eitthvað gekk svo ekki sem skyldi, þá var alltaf skjól hjá mömmu, hún passaði upp á ungana sína.

Mamma fór oft með okkur í ævintýraferðir út í guðsgræna náttúruna, í leit að álfum og tröllum, furðufuglum og fjörulöllum. Sjá sólstafi, regnboga og fingrafimar kýr. Hitta fyrir ryðgað járn, lítil blóm og gallhart grjót. Hún átti það til að predika og sagði alltaf að hver og einn ætti að fá að vera eins og hann væri skapaður og henni var meinilla við fordóma og tilætlunarsemi. Ef ástæða var til, þá var mamma alltaf manna fyrst til að benda á að hver fugl ætti frelsi til að syngja með sínu nefi. Frá þessu var ekki hvikað, nema þó að sjálfsögðu í umræðu um pólitík, eins og gefur að skilja.

Mamma hefði líklega ekki kunnað almennilega við þessa lofræðu um sig og þess vegna er rétt að benda á að hún hafði einhverja galla líka, ég man bara ekkert hverjir þeir eru. Hún hefði sagt mér að allt í heimi hér væri í senn fullkomið og ófullkomið. Að málið sé ekki hvað þú getur, heldur hvað þú gerir – enga bugun og áfram gakk.

Hafdís Rósa
Sæmundsdóttir.

Við systkinin kveðjum í dag elskulega systur okkar hana Áslaugu. Á dögum sem þessum rifjast upp ótal fallegar minningar frá langri ævi sem ylja. Áslaug var einstök útivistarkona, skapandi og frjó í öllu sem hún tók sér fyrir hendur.

Þessir eiginleikar fylgdu henni frá barnæsku og veittu henni gleði, gæfu og ótal góðar stundir í lífinu. Hún naut þess að fara í fjallgöngur og ferðir með fjölskyldu og vinum. Hún gekk Kjalveg forna, Hornstrandir og Laugaveginn auk þess að þræða Suðurlandið og hálendið. Ósjaldan hafði hún liti og tól til þess að fanga umhverfið á striga meðferðis í þessum leiðöngrum.

Náðargáfur sínar sem listakona ræktaði hún og sinnti alla ævi, eftir hana liggja ótal verk í myndlist, leirlist, ritlist og svo mætti lengi telja. Hún hélt margar sýningar á verkum sínum og tók þátt í samsýningum með öðrum listamönnum.

Það má segja að listin hafi verið rauði þráðurinn í hennar lífi og prýða verkin hennar ótal veggi. Hún var þó líka alla tíð dugleg að taka að sér ólík verkefni og það er yndislegt að sjá á þessum degi hversu góða og viðburðaríka ævi hún átti og hversu mörg hjörtu hún snerti.

Áslaug var hetja okkar systkinanna. Styrkur hennar, staðfesta og ábyrgðartilfinning kom snemma í ljós og þá sérstaklega þegar hún kom aftur heim á Stokkseyri eftir að hafa, sem ung stúlka, verið farin að heiman og til vinnu í borginni. Þegar móðir okkar fékk heilablóðfall og glímdi í kjölfarið við mikið heilsuleysi og faðir okkar var fjarverandi vegna vinnu, þá var það Áslaug sem flutti aftur heim. Hún hélt vel utan um okkur systkinin á þessum krefjandi tíma þegar við vorum aðeins 8, 11, 14 og 15 ára gömul og hún rétt um 18 ára.

Þá sá hún til þess að við gætum haldið heimili saman og var hún ljós og birta á þeim erfiðu tímum. Þetta tímabil styrkti okkur systkinin og á milli okkar allra spannst sterkur þráður sem gerði okkur að samheldnum og góðum systkinahópi.

Þegar við síðan uxum úr grasi hittumst við oft með fjölskyldurnar saman, það var farið í ferðir hingað og þangað um landið þar sem allur frændsystkinaskarinn hittist og náði að tengjast yfir útileikjum og góðri samveru á sumarkvöldum. Þetta eru ógleymanlegar stundir svo ekki sé minnst á utanlandsferðir og önnur ævintýri.

Þetta er ljúfsár hinsta kveðja elsku systir.

Þín systkini,

Þór, Kristjana, Hafdís, Elín og fjölskyldur.