Jane Austen-safnið í Bath Kristín hjá styttu af Jane Austen ásamt leiðsögumanninum George, sem gekk með íslenska hópnum í fótspor Jane í Bath.
Jane Austen-safnið í Bath Kristín hjá styttu af Jane Austen ásamt leiðsögumanninum George, sem gekk með íslenska hópnum í fótspor Jane í Bath.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í nútímasamfélagi þar sem margt er þungt, streituvaldandi og erfitt, hvort sem við lítum okkur nær eða fjær í heiminum, þá er dásamlegt að eiga sem áhugamál einhvern heim sem hægt er að hverfa inn í og sækja sér þar raunveruleikahvíld

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Í nútímasamfélagi þar sem margt er þungt, streituvaldandi og erfitt, hvort sem við lítum okkur nær eða fjær í heiminum, þá er dásamlegt að eiga sem áhugamál einhvern heim sem hægt er að hverfa inn í og sækja sér þar raunveruleikahvíld. Heim þar sem við leyfum huganum að hvíla öruggum við eitthvað annað en eigin áhyggjur, það er svo gott fyrir taugakerfið og dregur úr streitu og depurð,“ segir Kristín Linda Jónsdóttir sálfræðingur og einlægur aðdáandi Jane Austen, en hún blés í liðinni viku til stofnfundar Aðdáendaklúbbs Jane Austen.

„Tilgangurinn er að krydda tilveruna með því að skapa samveru- og samræðuvettvang fyrir áhugafólk um Jane Austen og verk hennar. Okkur kom sannarlega á óvart að þrátt fyrir hríð og slabb þennan dag, þá streymdi fólk inn til okkar á Bókasafni Kópavogs sem vildi gerast meðlimir, hlusta á fræðsluerindi og lestur upp úr bókum Jane Austen. Mæting fór fram úr öllum væntingum, samkvæmt teljara mættu 198 manns, það var staðið og setið alls staðar og mikil gleði ríkti þótt þröng væri á þingi. Við í stjórninni klæddumst kjólum í stíl Jane Austen og settum upp hatta, en þessi menningarkimi, Jane Austen-heimurinn, virðist höfða mest til kvenna. Þar sem Austen hefði orðið 250 ára hinn 16. desember næstkomandi fannst okkur tilvalið að stofna klúbbinn á þessu ári og við ætlum að bjóða upp á fjölbreytta viðburði tengda bókunum, lífsspeki og áhugamálum Austen,“ segir Kristín Linda og bætir við að aðdáendaklúbbar um Jane Austen finnist um víða veröld og tími hafi verið kominn til að stofna einn slíkan á Íslandi.

Konur með tárin í augunum

Kristín Linda segir hugmyndina að stofnun aðdáendaklúbbsins eiga upphaf sitt í því að undanfarin sex ár hafi hún farið til útlanda sem fararstjóri með kvennahópa á vegum ferðaskrifstofunnar Skotgöngu í Skotlandi, sem Inga Geirdóttir og fjölskylda eiga og reka.

„Fyrir rúmu ári fórum við Inga að velta fyrir okkur að bjóða konum upp á að koma með okkur í ferð í fótspor Jane Austen um England, heimsækja staði þar sem hún bjó og ýmislegt fleira. Þá fór ég að kynna mér allt um Jane og áttaði mig á hversu stórkostlegur heimurinn er sem tengist henni. Ferðin varð að veruleika í maí á síðasta ári með 40 konum, upplifunin að fara í fótspor hennar var mjög sterk. Við fórum meðal annars að gröf hennar, sem er undir kirkjugólfinu í dómkirkjunni í Winchester, og þar hittum við konur úr bókaklúbbi frá Ástralíu með tárin í augunum. Þær voru komnar um langan veg að legstað þessa rithöfundar sem þær dáðu. Við fórum líka í litlu kirkjuna þar sem faðir Jane Austen var prestur, á þeim slóðum sem hún ólst upp á, í Steventon í Hampshire á Suður-Englandi. Þar er heilt kvenfélag sem viðheldur kirkjunni með sókninni og tekur á móti fólki sem kemur þangað í Jane Austen-pílagrímsferðir. Einnig eru víða Jane Austen-söfn, til dæmis í Bath. Ég sá um fræðsluþáttinn um Jane Austen en Inga sá um alla fararstjórn og fræðslu um England. Við það að sökkva mér í heimildir um Jane Austen fékk ég þennan mikla áhuga á henni og ákvað að stofna aðdáendaklúbb með góðri hjálp fjögurra kvenna sem eru með mér í stjórn. Við leggjum áherslu á að vera í góðri sátt og samvinnu við þær konur sem hafa þýtt verk Jane Austen á íslensku, Silju Aðalsteinsdóttur og Sölku Guðmundsdóttur, og við gerðum Silju að fyrsta heiðursfélaga klúbbsins á stofnfundinum.“

Hreyfir við kvenhjartanu

Kristín Linda segir að aðeins sé búið að þýða þrjár af sex bókum Austen yfir á íslensku.

„Silja þýddi Hroka og hleypidóma 1988 og ég las hana á mínum yngri árum. Næst kom bókin Emma út 2012, sem Salka þýddi, en ég missti alveg af þeirri bók á þeim tíma, en nú er ég búin að drekka hana í mig. Aðgát og örlyndi kom svo út 2022 í þýðingu Silju, og þá rauk ég af stað og keypti hana, enda var ég þá búin að sjá bæði kvikmyndir og þætti sem byggðir eru á bókinni. Ég held að menningarheimurinn sem kenndur er við Jane Austen hafi sprungið út í seinni tíð vegna kvikmynda og þátta, eins og til dæmis Bridget Jones Diary, sem gerist í nútímanum og er gerð eftir bók Helen Fielding, en fyrirmyndir persóna og söguþráðar eru fengnar úr Hroka og hleypidómum. Þáttaröðin Sanditon, sem kom út 2019-2023, er byggð á samnefndri sögu Jane Austen, síðustu sögunni hennar, sem hún náði ekki að klára, enda lést hún ung,“ segir Kristín Linda og bætir við að gaman sé að hitta aðra sem deila áhuga á Jane Austen og tala um söguhetjur sem bækur hennar geyma.

„Til dæmis finnst konum gaman að spegla sig í Elísabetu Bennett, og endalaust er hægt að spjalla um Darcy í hvítu skyrtunni, sem margar konur elska,“ segir Kristín Linda og hlær, en hann er uppáhaldskarlpersóna hennar úr bókum Jane Austen.

„Hann virkar fyrst hrokafullur, er fámáll og aðeins til baka, hann er ekki með nein fleðulæti, en reynist hlýr og góður inn við beinið. Allt hreyfir þetta við kvenhjartanu í mér. Mér sem sálfræðingi finnst áhugaverð hin magnaða persónusköpun sem er í bókum Jane Austen, hvernig hún teiknar upp sínar persónur með kostum og göllum. Aðalsöguhetjurnar þurfa að ganga í gegnum það að bæta sig og þroskast til að fá ástina sína. Til dæmis í Hroka og hleypidómum, þar er karlinn aðeins of hrokafullur og konan með of mikla hleypidóma, þau þurfa bæði að láta af þessum göllum sínum og þroskast til að geta náð saman. Ég hef líka gaman af því hvernig Jane Austen, þessi kona sem var uppi fyrir 250 árum, fjallar um samskipti, tengsl hugsana og tilfinninga, persónuleika fólks, líðan og sálarástand. Hún sýnir okkur að eðli mannfólksins er alltaf eins.“

Höfundarnafn kom ekki fram

Á þeim tíma sem Jane Austen var uppi var sjaldgæft að konur væru rithöfundar og fyrir vikið var hún ekki skráð höfundur þeirra bóka sem komu út á meðan hún lifði.

„Árið 1811 kom fyrsta bókin hennar út, Aðgát og örlyndi, og ekkert höfundarnafn var á þeirri bók, heldur stóð aðeins: By a Lady, eða Eftir konu. Þegar Hroki og hleypidómar kom út 1813 þá var höfundurinn sagður sá sami og höfundur Aðgátar og örlyndis, en ekkert nafn kom fram. Þessar mögnuðu bækur sprungu síðan út löngu seinna, í nútímanum, þegar BBC gerði sjónvarpsþætti 1995 eftir Hroka og hleypidómum. Það var barátta fyrir hana að gefa út fyrstu bækurnar sínar, en þær seldust ágætlega og þegar hún lést aðeins 41 árs, þá voru tilbúin handrit að tveimur bókum eftir hana, Persuasion og Northanger Abbey, sem bróðir hennar gaf út undir hennar nafni að henni látinni í einu riti og með var æviágrip um hana. Nafn hennar sem höfundar bókanna sem hún skrifaði kom því ekki fram fyrr en eftir dauða hennar, en hún er virtur og afar vel þekktur höfundur um víða veröld í dag; ef maður slær inn nafn hennar á netinu þá koma upp rúmlega 40 milljón síður. Ýmislegt rúmast inni í Jane Austen-heiminum annað en bækur hennar, í ferðinni okkar rákumst við meðal annars á Jane Austen-púsluspil, -teiknimyndabækur, -útsaumsstykki, -prjónabækur, -matreiðslubækur og bækur um hvernig hægt er að halda Jane Austen-boð, og allt mögulegt fleira sem tengist Jane Austen. Það er meira að segja hægt að kaupa Darcy sem dúkkulísu,“ segir Kristín Linda og bætir við að þær Inga hjá Skotgöngu séu búnar að plana aðra Jane Austen-ferð í maí til Englands og aðeins örfá sæti séu laus.

„Allir geta fylgst með á Aðdáendasíðu Jane Austen á íslensku sem ég stofnaði á Facebook, sem er samskiptasvæði fyrir aðdáendur hennar á Íslandi. Þar er hægt að deila öllu mögulegu sem tengist henni og bókunum hennar. Ég hvet fólk til að mæta á væntanlega viðburði klúbbsins; þann 27. mars verður bókamessa Jane Austen og annar viðburður í september, en svo höldum við upp á 250 ára afmæli hennar 16. desember með mikilli hátið. Allt í samvinnu við Bókasafn Kópavogs.“

Hún var ekki lánsöm í ástamálum

Jane Austen

Jane Austen fæddist 16. desember 1775 í Steventon í Hampshire á Suður-Englandi og bjó þar í sveitinni fyrstu 25 ár ævinnar. Pabbi hennar var prestur og mamma hennar húsfreyja. Þau voru átta systkini, sex bræður og tvær systur. Jane giftist aldrei og bjó alla ævi með Cassöndru systur sinni og mömmu, sem líka hét Cassandra. „Jane Austen, sem skrifaði svo mikið um ástina sem raun ber vitni, var ekki lánsöm í ástamálum. Hún var mjög ástfangin af manni frá Írlandi, en á þessum tíma þurftu karlar að hafa visst miklar árstekjur til að geta framfleytt heimili, og maður þessi hafði ekki nægar tekjur til að geta beðið um hönd hennar. Cassandra systir hennar var ekki heldur lánsöm í ástamálum; hún var trúlofuð í mörg ár manni sem gekk í herinn á tímum Napóleonsstríðanna til að vinna sér inn pening svo hann gæti beðið um hönd hennar. Hann átti ekki afturkvæmt, lést í hernum. Jane flutti til Bath þegar hún var 25 ára og bjó þar í nokkur ár, en síðan flutti fjölskyldan til Chawtown í Hampshire. Hún lést í Winchester í Hampshire 1817, að talið er úr nýrnasjúkdómi. Jane Austen fullkláraði sex bækur, Sense and Sensibility, Pride and Prejudice, Mansfield Park, Emma, Northanger Abbey og Persuasion,“ segir Kristín Linda.

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir