Skotland
Gunnar Egill Daníelsson
gunnaregill@mbl.is
Telma Ívarsdóttir, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, tók í síðustu viku stórt skref á ferli sínum þegar hún samdi við skoska félagið Rangers og hélt þannig í atvinnumennsku í fyrsta sinn. Markvörðurinn var samningslaus eftir að hafa orðið Íslandsmeistari með Breiðabliki á síðasta tímabili og fór því til skoska félagsins á frjálsri sölu.
„Tilfinningin er mjög góð. Þetta var búið að vera í gangi í smá tíma. Það var alltaf verið að bíða eftir atvinnuleyfinu og öllu sem fylgir því að flytja til Bretlands.
Tilfinningin að hafa skrifað undir er frábær. Ég er mjög ánægð með að vera komin hingað og líður mjög vel hérna. Ég held að þetta eigi eftir að vera geggjað,“ sagði Telma í samtali við Morgunblaðið.
Nær ekki að vera í fyrsta sæti
Telma sagði það töluverð viðbrigði að vera komin í atvinnumennsku samanborið við það sem hún átti að venjast á Íslandi.
„Það er mikil breyting miðað við hvernig maður er á Íslandi. Það er skólinn, svo ferðu í vinnuna og svo ferðu á fótboltaæfingu. Það er svolítið mikil breyting að fara í atvinnumannaumhverfi.
Þú gerir þetta á daginn og kemur kannski heim klukkan þrjú, búinn að vera að vinna frá níu til þrjú. Það er öðruvísi að koma sér í rútínu, allavega miðað við hvernig maður gerði þetta á Íslandi.
En mér líst mjög vel á það og þetta er umhverfið sem mig er lengi búið að langa að fara í, þetta atvinnumannaumhverfi. Að vera atvinnumaður og geta einbeitt sér að fótboltanum allan sólarhringinn í staðinn fyrir að vera annaðhvort í skólanum eða vinnunni.
Fótboltinn nær einhvern veginn ekki að vera í fyrsta sæti á Íslandi. Þú getur ekki bara verið í fótbolta á Íslandi og haldið að þú getir lifað á því.“
Fullkomið tækifæri til að fara
Líkt og hún nefnir hefur Telma, sem er 25 ára gömul, litið til þess að komast í atvinnumennsku undanfarin ár. Ýmis tilboð hafa borist henni í gegnum tíðina.
„Já, maður hefur alveg fengið tilboð í gegnum árin en náttúrulega misgóð. Alveg fullt af tilboðum sem maður pælir ekkert í. Ég var líka samningsbundin allan þennan tíma þannig að þetta var fullkomið tækifæri fyrir mig að fara út núna þar sem ég var samningslaus.
Það hefur auðvitað komið fullt af tilboðum en ekkert sem mér fannst þess virði að fara út fyrir og taka þátt í. Ég vil ekki fara út bara til þess að fara út.
Þú verður náttúrulega að velja þér stað þar sem þú heldur að þér líði vel, stað þar sem þú heldur að þú fáir að spila. Það er margt sem spilar inn í, það er ekki nóg að geta sagt að þú hafir farið út í atvinnumennsku,“ sagði Telma.
Fleiri félög áhugasöm
Ásamt því að verða Íslandsmeistari fékk Telma fæst mörk á sig í Bestu deildinni á síðasta tímabili og hlaut fyrir það gullhanskann. Vakti frammistaða hennar athygli út fyrir landsteinana enda voru fleiri erlend félög en Rangers áhugasöm um að klófesta Telmu í janúarglugganum.
„Já, þau voru nokkur. Ég held að það hafi verið þrjú til fjögur önnur lið sem sýndu áhuga og höfðu samband. En eins og ég segi voru tilboðin misgóð, liðin misgóð og misgóðar deildir.
Það er margt sem maður fær ekki einu sinni að vita, sem er því miður það lélegt að umboðsmaðurinn nennir ekki einu sinni að segja þér frá því. Það voru þrjú til fjögur önnur lið sem komu með fínustu tilboð,“ sagði hún.
Fengin sem aðalmarkvörður
Aðspurð sagði Telma forsvarsmenn félagsins hafa rætt við sig um að hún væri fengin til liðsins sem aðalmarkvörður.
„Já, það var rætt við mig um það. En ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að ég þarf að sanna mig og standa mig á æfingum. Þú labbar ekki bara inn í byrjunarliðið í atvinnumennsku.
Það er kannski líka erfitt fyrir mig að koma beint inn í mitt tímabil, þar sem tímabilinu á Íslandi lauk í október. Það mun líka taka einhverja daga að koma sér almennilega inn í þetta, sýna sig og sanna á æfingum þegar það er tímabil í gangi.
En ég hef engar áhyggjur af því að það taki langan tíma. Það verður að koma í ljós held ég. Ég ætla ekki að vera með neinar yfirlýsingar um það.“
Sterkari en íslenska deildin
Rangers er eitt af fimm liðum sem eiga í harðri toppbaráttu í skosku úrvalsdeildinni. En hversu sterk er deildin?
„Styrkleikinn er fínn. Ég er mjög ánægð með að þetta sé ekki of stórt stökk fyrir mig hvað mun á deildum varðar. En ég tel þessa deild vera sterkari en íslensku deildina og það er það sem ég er að leitast eftir, en líka að fara í nýtt umhverfi og út í atvinnumennsku.
Þetta snýst ekki bara um að velja stærsta og flottasta liðið og fá svo kannski ekkert að spila. Maður þarf að vanda valið þegar kemur að því að fara út í atvinnumennsku en deildin finnst mér vera mjög fín.
Það eru fimm lið þarna í algjörri toppbaráttu og það munar bara einhverjum einum til tveimur stigum á liðunum fyrir neðan fyrsta sætið. Þetta er alvöru barátta og hver leikur skiptir máli. Það verður spennandi að sjá hvernig þetta fer allt saman,“ sagði Telma að lokum.