Örn Sigurðsson
Samtök um betri byggð hafa gert Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra grein fyrir því sem samtökin sakna í annars lofsverðum stjórnarsáttmála ríkisstjórnar hennar: skýrari áherslu á mikilvægi þess að hlúa að grundvallarmannréttindum einstaklinga með fullri ógildingu misvægis atkvæða og með afnámi þröskulda og lýðræðishindrana framboða í kosningalögum.
Misvægi atkvæða í kosningum til Alþingis er 100% frá sl. aldamótum, en var um 300% á síðari helmingi 20. aldar. Evrópuráðið, Feneyjanefndin og ÖSE benda hérlendum ráðamönnum ítrekað á að svo lengi sem slíkum kerfisgalla er viðhaldið verði Ísland seint talið þróað lýðræðisríki.
Neikvæðar afleiðingar misvægis atkvæða eru vel þekktar og auðskiljanlegar þótt aldrei sé rætt um þær opinberlega. Um þær ríkja bannhelgi, þagnarmúrar og upplýsingaóreiða í boði handhafa aukins vægis atkvæða, þeirra sem stjórna umræðunni.
Misvægið rænir meirihluta íslenskra kjósenda réttmætri aðkomu að valdinu sem mótar heilbrigði, afkomu og örlög þegnanna.
Misvægið færir minnihluta kjósenda, handhöfum aukins vægis atkvæða, mikil og ómakleg völd, sem móta umræðuhefð, tillögugerð, ákvarðanir og opinberar fjárfestingar.
Misvægið magnar upp og viðheldur togstreitu á milli landsbyggðar og höfuðborgar.
Misvægið varpar skugga á íslenskt samfélag í huga erlendra lýðræðissinna, m.a. í Evrópu, lýðræðissinna sem alþingismenn og margir fleiri eiga í nánu samstarfi við.
Kerfisbundin misbeiting óverðskuldaðs valds misvægisins hefur viðhaldið hér víðtæku og kerfislægu ástandi þöggunar og þrælsótta lengur en elstu menn muna.
Allan lýðveldistímann og lengur hafa handhafar aukins vægis atkvæða misbeitt ómaklegum áhrifum í lykilnefndum Alþingis, fjárlaganefnd og samgöngunefnd. Þeir hafa með skefjalausu kjördæmapoti og handstýringu valdið ómarkvissum og óarðbærum innviðafjárfestingum.
Í íslensku lagasafni eru um 800 virk lög, sem öll voru samþykkt á Alþingi við aðstæður þar sem ríkti mikið misvægi atkvæða. Of mörg þessara laga eru verulega hlutdræg gegn hagsmunum samfélagshópa sem búa við skert vægi atkvæða.
Alvarleg afleiðing misvægis atkvæða og viðvarandi misbeitingar ómaklegs valds, þöggunar, þrælsótta, þagnarmúra og bannhelgi er niðurnjörvun 80 ára gamals herflugvallar í Vatnsmýri. Þegar herflugvöllur Breta var festur í sessi 1946 fór flest úrskeiðis í stjórnun og borgarþróun í Reykjavík. Tjón íslensks samfélags vegna flugstarfsemi í Vatnsmýri í 80 ár er gríðarlegt og vaxandi.
Þess vegna kemur ekki á óvart að um leið og herflugvöllurinn víkur fyrir þéttri og mannvænni miðborg vænkist hagur allra. Ný miðborg í stað herflugvallar leiðir til gríðarlegrar hagræðingar, aukinnar framleiðni og nýsköpunar, bæði til skemmri og lengri tíma.
Bílum fækkar, akstur minnkar, útblástur minnkar, lýðheilsa batnar, strætó batnar, samlegðaráhrif og nýsköpun aukast, lóðaframboð vex, byggingarkostnaður og leiguverð lækka, kostnaður allra minnkar, borgargæði aukast, tímasóun minnkar o.s.frv.
Samtök um betri byggð, BB, lögðu fram tillögu í samráðsgátt stjórnvalda þann 14. janúar 2025:
„80 ára gamall herflugvöllur Breta í Vatnsmýri verði lagður niður og í hans stað reist þar mannvæn, þétt og skilvirk ný miðborgarbyggð fyrir 60.000 íbúa og störf.“
Samfélagslegt verðmæti u.þ.b. 240 ha. ónýtanlegs og illnýtanlegs lands undir flugbrautunum í Vatnsmýri og umhverfis þær má lauslega áætla 300-500 milljarða króna. Reykjavíkurborg á um 65% af þessu landi, ríkið 35%.
Land innan flugvallargirðingar er 118 ha., 56% í borgareigu, 44% í ríkiseigu. Borgin ræður skipulagi og landnotkun á öllu landi innan borgarmarkanna líkt og öll önnur sveitarfélög á Íslandi, hvert innan sinna sveitarfélagamarka.
Mögulegt er að hefja strax sölu og nýtingu byggingarlóða í Vatnsmýri þótt flugstarfsemi haldi þar áfram með sjónflugi í einhver misseri eða ár (sbr. t.d. London City Airport). Innanlandsflugvöllur sambærilegur þeim sem nú er í Vatnsmýri kostar um 15 milljarða króna í Hvassahrauni. Leiðigarðar vegna hugsanlegs hraunflæðis þar kosta um 200 milljónir.
Tillaga Samtaka um betri byggð, BB, er umfangsmeiri en svo að sjái fyrir allan ábata sem af henni mun hljótast. Til glöggvunar er þó augljóst að ekkert skaðar samfélag meira en að setja flugvöll einmitt þar sem á að vera miðborg.
Í skugga misvægis segja borgaryfirvöld að ríkið ráði yfir herflugvellinum í Vatnsmýri. Flestir kjörnir fulltrúar viðurkenna að Samtök um betri byggð hafi faglega séð rétt fyrir sér, það sé hins vegar pólitískt ómögulegt að láta almannaheill ráða. Þá sé gengið gegn valdi og vilja ríkisins um áframhaldandi flugrekstur í Vatnsmýri.
En vald ríkisins er augljóslega ekkert. Reykvíkingar fara að sjálfsögðu með skipulagsvald yfir öllu landi innan marka Reykjavíkur líkt og önnur sveitarfélög innan sinna marka. Það vald er algert og óskorað.
Illa fengið áhrifavald af misbeitingu misvægisins nær aðeins til einkahagsmuna einstakra kjörinna fulltrúa Reykvíkinga og til framboðslista landsmálaflokka í kosningum til borgarstjórnar og Alþingis. Vilji Reykvíkinga sjálfra er allt sem til þarf.
Höfundur er arkitekt, í framkvæmdastjórn Samtaka um betri byggð (BB).