Samið Jens Valdimarsson, Valdimar Gunnarsson og Gerður Sveinsdóttir.
Samið Jens Valdimarsson, Valdimar Gunnarsson og Gerður Sveinsdóttir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta eru svakalega flottar hugmyndir og mjög spennandi verkefni,“ segir Gerður Björk Sveinsdóttir bæjarstjóri í Vesturbyggð. Hún skrifaði í vikunni undir samning um úthlutun lóðar fyrir hótelbyggingu við höfnina á Bíldudal

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta eru svakalega flottar hugmyndir og mjög spennandi verkefni,“ segir Gerður Björk Sveinsdóttir bæjarstjóri í Vesturbyggð.

Hún skrifaði í vikunni undir samning um úthlutun lóðar fyrir hótelbyggingu við höfnina á Bíldudal. Þar er ráðgert að á næstu árum verði byggð upp hús í gömlum stíl og glæsileg hótel- og veitingaaðstaða muni líta dagsins ljós. Forsvarsmennn félagsins BA 64 ehf., þeir Jens Valdimarsson og Valdimar Gunnarsson, skrifuðu undir samninginn við bæjarfélagið.

Jens segir í samtali við Morgunblaðið að þessi samningur sé aðeins fyrsta skrefið af mörgum sem stíga þurfi áður en þessi áform verða að veruleika. Ráðgert sé að endurgera þrjú gömul hús og koma upp 50 herbergja hóteli.

„Hugmyndafræðin á bak við þetta er að varðveita sögu bæjarins. Þarna verða þrjú hús endurgerð. Það verða gerðar á þeim breytingar en haldið í stílinn.“

Fyrsta byggingin sem um ræðir er svokallað Bullshús sem að sögn Jens var flutt til landsins frá Noregi. Upphaflega var það notað í tengslum við hvalveiðar við Ísafjarðardjúp en athafnamaðurinn Pétur Thorsteinsson flutti það yfir á Bíldudal fyrir aldamótin 1900. Þar var húsið notað undir fiskverkun en síðar fyrir bíó og leikhússtarfsemi.

Jens segir í samtali við Morgunblaðið að þegar farið var að stækka kalkþörungaverksmiðjuna fyrir tæpum áratug hafir umrætt hús verið tekið niður. Þá hafi komið upp hugmynd í
samstarfi við Vesturbyggð um að endurbyggja þetta gamla hús og því hafi burðarstoðirnar verið geymdar. Þessi hugmynd hafi svo undið upp á sig.

Síðar hafi verið ákveðið að endurgera einnig verslunar- og íbúðarhús Péturs Thorsteinssonar frá 1884 og verslunarhús Maron hf., sem reist var af athafnamanninum og alþingismanninum Gísla Jónssyni árið 1948. Við þetta bætast framkvæmdir af hálfu bæjarins sem fela í sér að leggja landfyllingu og byggja trébryggju við höfnina auk vegagerðar.

Leita nú að fjármagni

„Hugmyndin er að þetta verði heil götumynd með þessum gömlu húsum. Við eigum eftir að fara í fjármögnun á verkefninu þótt það sé vissulega búið að tala við fullt af fólki. Það væri skemmtilegt ef þetta gengur eftir og myndi setja svakalega mikinn svip á þennan bæ.“

Nokkur aðdragandi er að því að félag þeirra Jens og Valdimars fékk úthlutaða lóð á Bíldudal. Umsókn þeirra var lögð fram í byrjun apríl í fyrra og tekin fyrir hjá bæjarráði.

„Vísað er sérstaklega til nýlegrar breytingar á reglum Vesturbyggðar um úthlutun lóða þar sem segir að bæjarstjórn sé heimilt í sérstökum tilvikum vegna ríkra hagsmuna sveitarfélagsins að úthluta lóðum án auglýsingar til lögaðila vegna stærri uppbyggingarverkefna, enda liggi fyrir samningur milli sveitarfélagsins og viðkomandi aðila,“ sagði þá í bókum bæjarins.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon