Egill Egilsson fæddist í Reykjavík 10. nóvember 1969. Hann lést 16. desember 2024.
Foreldrar hans eru Unnsteinn Egill Kristinsson, f. 22. maí 1947 og Guðný Helga Jóhannsdóttir, f. 18. september 1947.
Systkini hans eru Jóhanna Berglind, f. 1966, Þórir, f. 1981 og Anna, fædd 1982.
Egill kvæntist fyrrverandi eiginkonu sinni, Gunnrúnu Theodórsdóttur, 8. nóvember 1998, þau skildu árið 2016, eftir 27 ára samleið. Börn þeirra eru: 1) Ívar, f. 26. janúar 1994. 2) Jóna Halla, f. 29. nóvember 1999, hún er í sambandi með Arnari Smára Þorsteinssyni. 3) Ómar Magni, f. 26. nóvember 2006.
Egill vann ýmis störf frá unglingsárum, í stálsmíði ásamt föður sínum, í fiskvinnslu, hann dvaldi um tíma á Flateyri ungur að árum hjá föðurafa sínum og vann við fiskvinnslu þar. Hann vann hjá fyrrverandi tengdaforeldrum sínum í Fiskþurrkun ehf. í um áratug áður en hann menntaði sig sem flugvirki í Tulsa í Oklahoma. Hann byrjaði að vinna sem flugvirki hjá Air Atlanta 2004 og vann hjá þeim í nokkur ár. Egill vann sem flugvirki víða um heiminn næstu árin. Egill var virkur félagi í Litla leikfélaginu í Garði og var formaður í félaginu um tíma.
Útför Egils fór fram frá Útskálakirkju 10. janúar 2025 síðastliðinn í kyrrþey.
Elsku engillinn minn.
Ég veit ekki hvernig ég á að halda áfram án þín, þú varst besti vinur minn, elskhugi og unnusti. Við gátum talað um allt, við gerðum allt saman, við höfðum hvorugt kynnst því að vera ástfangin þar til við kynntumst hvort öðru. Þú hafðir oft orð á því þegar við hittum annað fólk að þú hefðir unnið í lottóinu þegar þú kynntist mér. Þú varst svo góður við mig og ég mun aldrei gleyma þér; þú varst mitt jin og ég var þitt jang.
Við áttum svo innilegt ár og þú varst búinn að standa þig eins og hetja með þinn sjúkdóm, við vorum farin að sjá fram á bjarta tíma í nýja húsinu okkar. Ég á erfitt með að trúa því að það sé verið að stía okkur í sundur, þú munt alltaf eiga stóran hluta af mínu hjarta. Fólk hafði gjarnan orð á því hvað ást okkar væri falleg og tær, þess vegna er þetta svo ósanngjarnt, elsku ástin mín.
Hversvegna er leiknum lokið?
Ég leita en finn ekki svar.
Ég finn hjá mér þörf til að þakka
Þetta sem eitt sinn var.
(Starri í Garði)
Þín að eilífu,
Kaja Ósk.
Föstudaginn 10. janúar gekk ég þung spor, er ég fylgdi bróður mínum síðustu metrana á þessari jörð. Egill var mér mikils virði, hann var bróðir minn, hann var vinur minn og þótt hann hafi látist núna í desember þá hef ég saknað hans í nokkur ár, hans sjálfs, þessa kokhrausta, skemmtilega, fróða og glettna manns. Ég hef saknað þess að hafa ekki getað leitað til hans, rætt við hann um vandamálin mín, framtíðina, börnin okkar, en svona er Bakkus harður húsbóndi, hann tekur og tekur og gefur ekkert.
Egill fæddist lítill og grannur, fyrir tímann, hann fékk gulu og var í súrefniskassa. Ég man þegar ég fékk að sjá hann, hann var svo lítill og gegnsær, en það rættist nú úr honum og hann varð myndarlegur og flottur einstaklingur.
Allar mínar æskuminningar tengjast Agli á einn eða annan hátt, jólagjafirnar sem hann gaf mér en voru í raun ætlaðar honum, hann var úrræðagóður, uppfinningasamur og ótrúlega lunkinn við að haga hlutunum sér í hag. Egill hafði gaman af því að taka í sundur hluti og reyna að koma þeim saman aftur, sem oftar en ekki mistókst illilega. Það lá vel við að Egill færi í flugvirkjanámið og stóð hann sig vel í því, ljómaði þegar hann talaði um áhugamál sitt enda afar viðkunnanlegur.
Egill hefur alltaf verið hluti af mínu lífi, við höfum alltaf átt góð tengsl og verið miklir vinir. Þótt við hefðum fjarlægst síðustu ár vegna óreglu hans, þá var ég til staðar. Ég svaraði honum alltaf, ég reyndi alltaf að aðstoða hann, ég var alltaf í hans liði ef hann þurfti á mér að halda, en í sömu andrá hélt ég ákveðnu bili á milli okkar, passaði samt að hann vissi af því að ég væri alltaf til í að hjálpa honum.
Aldrei nokkurn tímann dró Egill þá línu á milli okkar að við ættum ekki sama föður, aldrei talaði hann um okkur sem hálfsystkini, aldrei efaðist ég um að honum þætti vænt um mig og aldrei efaðist ég um að við værum vinir þótt við værum ekki lengur samferða í gegnum lífið.
Ég hef verið reið við þig eftir að þú kvaddir, ég hef verið sár, ég hef fyllst söknuði og þrá eftir að heyra í þér og tala við þig. Það var mjög erfitt í kringum andlát Lalla frænda, þú varst ekki á góðum stað þá, en svo heyrði ég í þér á afmælisdaginn þinn, þú varst fínn, við áttum gott samtal, stutt en innilegt, ég sagði þér að ég elskaði þig og saknaði þín.
Þú munt ekki hringja í mig næst þegar ég á afmæli eins og þú hefur alltaf gert, það hefur aldrei klikkað, ég og þú vorum bundin böndum sem systkini eiga að þekkja, það er mjög erfitt að kveðja þig, Egill, það er mjög erfitt að fyrirgefa þér, en það kemur, við áttum öll von um að þú kæmist út úr þessu og byggðir líf þitt upp aftur.
Ég kveð þig núna, kæri bróðir, ég sakna þín, ég elska þig og veit að þar sem þú ert núna þá líður þér vel. Það er fullt af ættingjum hjá þér, og ég veit að Lena mín tók á móti þér, svo passið hvort annað þangað til við hittumst öll. Við erum öll í sárum, foreldrar þínir, systkini, börnin þín og aðrir fjölskyldumeðlimir og vinir, okkur þótti öllum svo ótrúlega vænt um þig, Egill minn.
Þín stóra systir,
Jóhanna Berglind.