María Friðþjófsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 18. september 1939. Hún lést á Landspítala við Hringbraut 15. janúar 2025.
Foreldrar hennar voru Jóhanna Vilhjálmsdóttir frá Sandfellshaga í Axarfirði, f. 1915, d. 1996, og Friðþjófur Ólafsson frá Súgandafirði, f. 1917, d. 1985.
Fósturfaðir hennar var Páll Júlíus Pálsson frá Eystra-Fróðholti á Rangárvöllum, f. 1916, d. 1959.
Bræður Maríu sammæðra: Vilhjálmur Þór Pálsson, f. 1944, d. 2020, og Sigurpáll Karl Pálsson, f. 1947, d. sama ár.
Bræður samfeðra: Árni, f. 1940, d. 1997, og Sigurgeir Hilmar, f. 1946.
Árið 1959 giftist María eftirlifandi eiginmanni sínum, Helga Helgasyni, f. 1937, frá Ey í V-Landeyjum.
Börn þeirra eru: 1) Jóhann Páll, f. 1958, maki Jóna Björk Jónsdóttir, f. 1964 Þeirra börn eru Kristrún Helga, Steinunn Elfa og Bjarki Snær en fyrir átti Jóhann Lindu Maríu og Pál og Jóna Björk þau Birgi Örn og Margréti Hólmfríði. Barnabörn þeirra eru 13 og barnabarnabörn tvö. 2) Helgi Grétar, f. 1962, maki Ása Ólafsdóttir, f. 1962, þeirra sonur er Helgi Fannar, hann lést 2005. Fyrir átti Ása Berglindi Sunnu og Ólaf. Barnabörn þeirra eru fimm. 3) Kári, f. 1965, maki Ragnhildur Harðardóttir, f. 1966, synir þeirra eru Hörður Örn, Brynjar Karl og Elfar Þór. Barnabörn þeirra eru fimm. 4) Katrín, f. 1966, maki Kjartan Jóhannesson, þeirra sonur er Tómas Orri. Fyrir átti Katrín þá Arnór og Kristin. Barnabörn þeirra eru fimm. 5) Kristín, f. 1969, maki Skúli Helgason, f. 1959, þeirra börn eru María, Birta og Skúli Darri. Fyrir átti Skúli Eddu Ásgerði og Andreu. Barnabörn þeirra eru 10.
Mæja eins og hún var alltaf kölluð ólst upp með móður sinni og fósturföður, fyrst á Kirkjulandi í Austur-Landeyjum og síðar í Eystra-Fróðholti. Mæja var 10 ára þegar fjölskyldan flutti á Selfoss og bjó hún þar alla tíð.
Mæja lauk barna- og grunnskóla frá Selfossi og sótti síðar námskeið í Hússtjórnarskólanum í Reykjavík. Hún fór ung að vinna og var tvö sumur norður á Grímsstöðum á Fjöllum hjá móðursystur og manni hennar sem ráku þar ferðaþjónustu með búskap.
Hún starfaði um tíma í Verslun KÁ á Selfossi og hófust þar kynni hennar og Helga.
Byrjuðu þau sinn búskap 1958 hjá foreldrum hennar í Lyngheiði 1 og bjuggu þar uns þau fluttu í eigið hús við Fossheiði. Vorið 2001 fluttu þau í nýtt hús við Fosstún og bjuggu þar til ársins 2019 að þau færðu sig um set að Austurvegi 51. Eftir því sem börnin stálpuðust og létta fór á heimilisstörfum fór Mæja að vinna úti.
Fyrst voru það tilfallandi störf en þar kom að hún réð sig til starfa í Sundhöll Selfoss þar sem hún starfaði í 20 ár.
Þá færði hún sig yfir í íþróttahús við Vallaskóla og lauk síðan ferlinum í íþróttahúsi Sunnulækjarskóla.
Þau hjón höfðu yndi af ferðalögum og ferðuðust allvíða bæði innanlands og utan í hópi góðra vina og félaga í Karlakór Selfoss. Mæja tók virkan þátt í starfi kvennaklúbbs kórsins en Helgi var þar félagi í 40 ár.
Margar ferðir voru einnig farnar í Veiðivötn.
Útför Maríu verður frá Selfosskirkju í dag, 30. janúar 2025, klukkan 13.
Elsku mamma, kona með silfur í hárinu og gull í hjartanu.
Okkur er efst í huga þakklæti fyrir að hafa fengið að vera dætur þínar og þú hafir verið amma barnanna okkar. Þú varst alltaf tilbúin að hjálpa öllum og aðstoða. Seinustu ár voru þér erfið og barátta þín við veikindin hefur verið eitt það erfiðasta sem við höfum þurft að horfa upp á. Sjá þig hverfa inn í aðra veröld. Við systur reyndum að aðstoða þig og pabba eftir okkar bestu getu.
Núna ertu komin á betri stað.
Elsku mamma okkar, við munum elska þig alltaf og varðveita minningu þína.
Þínar dætur,
Katrín og Kristín.
Elsku mamma, nú er komið að kveðjustund og á þeim tímamótum er mér efst í huga þakklæti til þín fyrir umhyggju og elsku á uppvaxtarárunum. Ég man lítið eftir fyrstu sex til sjö árunum, sem bendir til þess að þau hafi verið áhyggjulaus, en eftir það hversu yndisleg manneskja þú varst.
Við systkinin ólumst upp við mikla ást og umhyggju ásamt því að hafa mikið frelsi í uppvextinum til að vera við sjálf. Þú tamdir okkur að bera virðingu fyrir eldra fólki og umgangast börn sem jafninga. Eins sá dugnaður að ala upp fimm börn, vinna vaktavinnu og sjá um allar okkar þarfir því á þeim árum voru ekki sömu allsnægtir og fólk hefur í dag. Þú varst oft fram á nætur að sauma föt á okkur börnin þín. Alltaf voru allir velkomnir inn á þitt heimili, vinir okkar barnanna og síðar barnabörnin og vinir þeirra. Það var alltaf eitthvað til í skápunum til að borða og ég veit að margir vinir, bæði okkar og barnabarnanna þinna, muna eftir að hafa komið á heimilið þitt og vera boðnar veitingar hjá ömmu Mæju eins og þú varst gjarnan kölluð hvort sem það voru börn innan fjölskyldunnar eða utan hennar. Vinir okkar barna tala enn í dag um þig sem ömmu Mæju og það eitt segir allt. Eins veit ég að á árum þínum við vinnu í sundhöll Selfoss og í íþróttahúsi Vallaskóla og Sunnulækjarskóla varstu vel liðin af samstarfsfólki og kynntist fjölmörgu fólki sem minnist þín með hlýju. Þegar ég kynntist eiginkonu minni þá átti hún tvö börn frá fyrra sambandi en frá upphafi leist þú á hennar börn sem þín barnabörn og fengu þau sömu hlýju og alúð og hin börnin. Alltaf varst þú tilbúin að gefa af þér við alla sem kynntust þér. Eins var það þér mikill harmur að missa eitt barnabarnanna og það fylgdi þér út lífið.
Nú ertu leidd, mín ljúfa,
lystigarð Drottins í,
þar áttu hvíld að hafa
hörmunga og rauna frí,
við Guð þú mátt nú mæla,
miklu fegri en sól
unan og eilíf sæla
er þín hjá lambsins stól.
(Hallgrímur Pétursson)
Elsku mamma, takk fyrir alla alúðina, þolinmæðina og ástina sem þú gafst. Ég veit þú vakir yfir okkur.
Þar til síðar,
Helgi Grétar.
Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt,
þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því,
þú laus ert úr veikinda viðjum,
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti,
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfinn úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir)
Með trega og sorg í hjarta fylgi ég þér í hinsta sinn. Þú tókst mér og börnunum mínum, Berglindi Sunnu og Ólafi, með hlýju og opnum örmum þegar við Helgi Grétar rugluðum saman reytum okkar fyrir nokkrum tugum ára og alla jafna voru samskipti okkar mörkuð af gagnkvæmri hlýju og alúð. Ég leitaði til þín og fyrir kom að þú leitaðir ráða og álits hjá mér.
Eitt var það sem þú áttir alltaf nóg af og það var tími og rúm fyrir barnabörnin og þó þau ættu hug þinn og hjarta var alltaf nóg pláss fyrir aðra, hvort sem það voru menn eða dýr, því að dýrin löðuðust að þér jafnt og aðrir.
Elsku Mæja, megi allt gott þig geyma og gæta. Og eins og ég hvíslaði í eyra þér á spítalanum í síðasta sinn; þá hittumst við aftur löngu seinna, ég og þú.
Takk, takk fyrir allt og allt.
Ása Ólafsdóttir.
Þegar Mæja vinkona okkar hjóna um langa tíð er öll vil ég minnast hennar með nokkrum þakkarorðum. Við Gulla áttum um áratugi heima vestur við Fossheiði. Hús þeirra Mæju og Helga var í sömu röð skammt norðar en okkar. Við kynntumst fólki í mörgum húsum þarna, þar á meðal Mæju og Helga. Við áttum þarna sameiginlegra hagsmuna að gæta, gatan var malarborin og á þurrviðrisdögum var rykmökkurinn svo mikill af bílaumferð að sumarblómin nutu sín ekki í görðunum. Við íbúarnir sendum bæjarstjórn sameiginlegt bréf þar sem við báðum um að gatan yrði vökvuð miklu meira á þurrviðrisdögum.
Það var gaman að líta inn til Mæju og Helga og margt spjallað. Ég átti líka um langt árabil samskipti við Helga eftir að ég var kjörinn í sveitarstjórn, í 12 ár. Helgi var bæjarritari og var því með okkur á öllum fundum, traustur maður og öruggur.
Eftir að við hjónin fluttum í íbúð í fjölbýlishúsinu Austurvegi 51 voru þau hjón Mæja og Helgi svo að segja í næstu íbúð á 3. hæð. Þá endurnýjaðist kunningsskapurinn betur, eða kannski ætti ég frekar að segja vinskapur. Þeim féll vel að tala saman Mæju og Gullu minni. Nú eru þær báðar komnar í Sumarlandið, Gulla mín fyrir tveimur árum. Þegar Gulla fór gerði ég þessa vísu:
Áfram geng ég æviveginn.
Endalokin nálgast hér.
Ég er hálfur hérnamegin,
helmingurinn er hjá þér.
Ég er viss um að hann Helgi vinur minn getur nú tekið undir með mér. Nánustu ættingjum Mæju sendi ég innilegar samúðarkveðjur.
Sigurjón Erlingsson.
Þau eru orðin nokkuð mörg árin sem liðin eru síðan þau gengu til liðs við Karlakór Selfoss hjónin Helgi Helgason og María Friðþjófsdóttir, best að segja bara óteljandi svo hvergi verði farið með vitleysu. Þar fengum við góðan liðsauka. Hún Maja var vel virk í félagsskapnum okkar, kvennaklúbbi Karlakórs Selfoss. Hún taldi ekkert eftir sér, þrátt fyrir að hún þyrfti meðfram vinnu að sinna stóru heimili. Afkomendunum fjölgaði með árunum og allir voru alltaf velkomnir til Maju ömmu í Fossheiðinni.
Það var alltaf sjálfsagt að halda stjórnarfundi hjá Maju, ekkert mál að finna til þær veitingar sem þurfti … auðvitað voru alltaf veitingar. Hún naut sín vel á því sviði. Bakstur eða önnur vinna fyrir alls konar viðburði var aldrei vandamál. Það var gott að eiga hana að.
Hún vann í sundlauginni árum saman og þar var líka hún Lillian, sem reyndar var líka karlakórskona. Það var alltaf hægt að leita til þeirra ef börnin gleymdu eða týndu einhverju. Það var bara leitað og fundið … alla vega eitthvað svipað, eða nothæft. Þær voru báðar frábærar og eru enn ógleymanlegar frá sínu starfi þar. Það vissu allir hverjar voru Maja og Lillian í lauginni. Mér finnst alveg viðeigandi að minnast þeirra beggja.
Fyrir hönd kvennaklúbbs karlakórsins þakka ég allt gott í leik og starfi liðinna ára. Helga og öllum afkomendum vottum við innilega samúð. Hún Maja Friðþjófs var sko miklu betri en enginn.
Helga R. Einarsdóttir.