Vopnaburður Lögreglan hefur stundum þurft að vígbúast vegna vopnaburðar fólks, bæði vegna barefla, hnífaburðar, höggvopna og skotvopna.
Vopnaburður Lögreglan hefur stundum þurft að vígbúast vegna vopnaburðar fólks, bæði vegna barefla, hnífaburðar, höggvopna og skotvopna. — Morgunblaðið/Eggert
„Ég fagna þessu mjög. Ég og fleiri lögreglumenn höfum verið að vekja athygli á þessu víða, því sektarfjárhæð fyrir vopnaburð hefur verið allt of lág og þetta er því mikið fagnaðarefni,“ segir Fjölnir Sæmundsson, formaður landssambands lögreglumanna

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Ég fagna þessu mjög. Ég og fleiri lögreglumenn höfum verið að vekja athygli á þessu víða, því sektarfjárhæð fyrir vopnaburð hefur verið allt of lág og þetta er því mikið fagnaðarefni,“ segir Fjölnir Sæmundsson, formaður landssambands lögreglumanna.

Leitað var viðbragða hans við þeim tíðindum að búið er að hækka lágmarkssekt fyrir vopnaburð á almannafæri úr 10 þúsund krónum í 150 þúsund sem hefur og þær afleiðingar að slíkt brot fer á sakaskrá viðkomandi. Fagnar Fjölnir því sérstaklega að brotið sé fært á sakaskrá, þannig að gjörðin fylgi fólki.

Segir Fjölnir að lögreglumenn hafi kallað eftir þessu því vopnaburður ógni öryggi lögreglumanna, ekki síst sú staðreynd hve mjög vopnaburður hefur færst í vöxt og hve margir eiga hlut að slíkum málum.

„Við sjáum það í málum á milli ungmenna hver hættan er þegar þau eru vopnuð þótt þau haldi að það sé til að vernda sig sjálf. Mér líst mjög vel á þessa ákvörðun,“ segir hann.

„Ég vona að þetta hafi forvarnargildi. Það gerist kannski ekki strax og því þarf að vekja athygli á þessu, en ég vona að þessi hækkun sektarfjárhæðarinnar sendi þau skilaboð að vopnaburður sé afbrot sem ekki er tekið létt á,“ segir Fjölnir.

Fjölnir nefnir að áður hafi vopnaburður einkum verið bundinn við fólk sem var í skipulögðum glæpum og með vopn í bílnum eða á sér, en nú virðist sem vopnaburður hafi verið að aukast hjá ungu fólki sem heldur að vernd sé í því.

„Maður sér í kerfum lögreglunnar hversu oft vopn eru að finnast á fólki þegar leitað er á því, jafnvel þegar það er að gera eitthvað annað af sér,“ segir hann og nefnir að yngri einstaklingum sem þannig háttar til um fari fjölgandi. Einkum segir hann að um hnífa sé að ræða, en einnig barefli af ýmsum toga og jafnvel höggvopn. Skotvopn séu reyndar annars eðlis, en alltaf sé eitthvað um að þau finnist í fórum fólks sem lögregla hafi afskipti af.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson