Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Mikið var um dýrðir á nýársfagnaði á vegum kínverska sendiráðsins í Háskólabíói síðastliðið föstudagskvöld. Skemmtunin var skipulögð í samvinnu við yfirvöld menningarmála í Shanxi-héraði og tóku um tuttugu listamenn þátt í sýningunni.
Áður en sýningin hófst ávörpuðu þau He Rulong, sendiherra Kína á Íslandi, og Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, gesti.
He sagði samstarf ríkjanna dýpka með hverju árinu. Þá væri verslun ríkjanna að aukast og Kína orðið helsta viðskiptaríki Íslands í Asíu.
Inga sagði sömuleiðis að samstarf ríkjanna væri með ágætum þótt höf og álfur skildu þau að.
Kínverjar héldu upp á kínverska nýárið í gær er ár snáksins gekk í garð. Til að halda upp á þessi tímamót á Íslandi bauð kínverska sendiráðið hingað til lands listamönnum frá Shanxi-héraði.
Trommur og töfrabrögð
Þau Cao Yan, Li Naizhong, Zhang Aixian, Guo Zhu, Li Jie, Wu Bei, Chi Zhuo, Duan Xu, Zhu Dongge, Zhang Siyuan, Li Fenglai og Duan Jialing settu sýninguna með trommuleik. Því næst lék Chai Shuai einleik á hljóðfæri sem svipar til fiðlu. Töframaðurinn Qin Jian steig svo á svið og brá á leik með tveimur litlum tunnum. Spruttu úr þeim gjafir sem hann færði nærstöddum.
Síðan sungu Ma Xiao og Duan Jialing dúett um turninn í Ying-sýslu sem hefur staðið í þúsund ár og er táknmynd varðveislu kínverskrar menningar. Enn á ný stigu trommuleikarar á svið en svo lék Guo Zhu á blásturshljóðfæri, lék eftir fuglum.
Sýndu þjóðdansa
Ma og Duan sungu aftur dúett og svo buðu trommuleikarar og töframaðurinn Qin upp á fleiri atriði. Því næst sýndu Wu Bei, Chi Zhuo, Duan Xu, Zhu Dongge og Zhang Siyuan þjóðdansa frá Shanxi-héraði. Ma og Duan sungu svo annan dúett, nú um systkini sem fagna nýárinu. Svo náði sýningin vissum hápunkti er Li Jie söng kínverskt lag og loks lagið Ferðalok. Með því fetaði hún í fótspor kínversku forsetafrúarinnar, Peng Liyuan, sem söng á íslensku er hún heimsótti Ísland árið 1980. Hún söng þá m.a. lag Jóns Þórarinssonar, Fuglinn í fjörunni.