[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rússneska utanríkisráðuneytið sendi í gær frá sér yfirlýsingu um að Rússland styddi áfram við fullveldi og landsvæði Sýrlands, en Rússar sendu á þriðjudaginn sendinefnd til landsins til að ræða við hina nýju stjórnarherra þar

Baksvið

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Rússneska utanríkisráðuneytið sendi í gær frá sér yfirlýsingu um að Rússland styddi áfram við fullveldi og landsvæði Sýrlands, en Rússar sendu á þriðjudaginn sendinefnd til landsins til að ræða við hina nýju stjórnarherra þar.

Samskipti ríkjanna tveggja hafa nú tekið nokkrum breytingum, en Rússar voru einn helsti bakhjarl Assad-stjórnarinnar, sem steypt var af stóli í desember síðastliðnum, og gerðu fjölda loftárása á uppreisnarmenn í sýrlenska borgarastríðinu til stuðnings einræðisherranum Bashar al-Assad. Assad flúði svo til Moskvu þegar ljóst var að uppreisnarmenn myndu bera sigur úr býtum.

Hinir nýju valdhafar eru því skiljanlega varkárir gagnvart Rússum, sem hafa enn nokkurra hagsmuna að gæta í landinu, þar sem þeir reka tvær herstöðvar þar, annars vegar Khmeimim-herflugvöllinn í nágrenni Latakíu og hins vegar flotastöðina í Tartus, en borgirnar liggja báðar við Miðjarðarhafið. Eru þetta jafnframt einu herstöðvar Rússa sem liggja utan þess landsvæðis sem áður tilheyrði Sovétríkjunum, en þær hafa nýst Rússum mjög við að halda úti áhrifum sínum og ítökum í Mið-Austurlöndum og í Norður- og Mið-Afríku.

Dregið verulega úr umsvifum

Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns Rússlandsforseta, sagði í gær að ferð sendinefndarinnar væri mjög mikilvæg á þessum tímapunkti í samskiptum ríkjanna. Það segir sína sögu um mikilvægi Sýrlands fyrir Rússa að aðstoðarutanríkisráðherrann Mikhaíl Bogdanov fer fyrir sendinefndinni, en hann er sérstakur erindreki Pútíns Rússlandsforseta í Mið-Austurlöndum, og fundaði hann með Ahmed al-Sharaa, hinum nýja leiðtoga Sýrlands, í gær.

Þó að ekki sé búið að loka herstöðvum Rússa í Sýrlandi formlega hafa þeir dregið mjög úr umsvifum sínum þar og bendir flest til þess að dagar herstöðvanna tveggja séu taldir, nema Rússar nái að semja við Sýrlandsstjórn um framhaldið.

Í síðustu viku var til dæmis greint frá því að Sýrlandsstjórn hefði rift samkomulagi við Rússa um rekstur hafnarinnar í Tartus, en rússneska verktakafyrirtækið Stroytransgaz gerði samkomulag við Assad-stjórnina árið 2019 til 49 ára um reksturinn. Hugðust Rússar verja andvirði um 500 milljóna bandaríkjadala, eða um 70 milljörðum íslenskra króna, í að endurnýja hafnaraðstöðuna í Tartus.

Þá mátti sjá á gervihnattamyndum á mánudaginn að rússnesku flutningaskipin Sparta og Sparta II voru komin til hafnar í Tartus, og virtist sem hlutverk þeirra væri að sækja mikið magn af herflutningabílum og hergögnum sem Rússar höfðu komið fyrir við höfnina.

Ýmsar aðrar vísbendingar eru um að Rússar séu á förum frá Sýrlandi, en í byrjun þessa mánaðar var greint frá því að síðasti dísilkafbáturinn sem Rússar höfðu í Miðjarðarhafi væri farinn þaðan á brott. Sagði flotasérfræðingurinn H.I. Sutton því líklegt að Rússar hefðu engan kafbát í Miðjarðarhafi lengur, sem væri mjög óvenjulegt, þar sem ólíklegt væri að þeir væru með kjarnorkuknúinn bát á þessu svæði. Sagði Sutton það benda til þess að Rússar hefðu enga trygga hafnaraðstöðu fyrir kafbáta sína lengur í Miðjarðarhafi.

Ótryggir valkostir Rússa

Ljóst er að Rússar eiga ekki margra kosta völ um aðra hafnaraðstöðu fyrir Miðjarðarhafsflota sinn. Þar koma helst til greina flotastöðvar í Líbíu og Alsír, þar sem flest önnur ríki við Miðjarðarhaf hafa bundið sitt trúss við Bandaríkin í varnar- og öryggismálum.

Sjóliðsforinginn Edward Black og dr. Sidharth Kaushal, sérfræðingar bresku varnarmálahugveitunnar RUSI í flotamálum, segja í greiningu sem þeir birtu á heimasíðu hugveitunnar fyrir tveimur vikum, að Alsír gæti mögulega boðið upp á viðgerðaraðstöðu fyrir rússnesk skip, en landið býr yfir 13 hafnarborgum sem gætu sinnt því hlutverki.

Annað mál væri hins vegar að koma upp varanlegri flotastöð í Alsír, þar sem slíkt gæti haft neikvæð áhrif á viðskiptatengsl Alsíringa við önnur ríki. Alsír gæti því einungis komið að hluta til í staðinn fyrir flotastöðina í Tartus.

Black og Kaushal nefna austurhluta Líbíu sem annan kost, en þar hafa Rússar stutt við bakið á stríðsherranum Khalifa Haftar. Hafnarborgirnar Benghazi og Tóbrúk koma þar báðar til greina, en ýmislegt bendir til þess að Rússar hafi þegar flutt nokkuð af hergögnum sínum frá Sýrlandi til Líbíu.

Tóbrúk hefur hins vegar ekki góða viðgerðaraðstöðu og engan slipp. Það gæti því reynst bæði dýrt og tímafrekt fyrir Rússa að byggja upp höfn þar sem gæti sinnt Miðjarðarhafsflota þeirra. Höfnin í Benghazi þykir því hentugri á marga vegu, ekki síst þar sem Haftar hefur nú þegar nýtt höfnina fyrir flota sinn.

Haftar er hins vegar 81 árs gamall og ríkir mikil óvissa um hvað taki við að honum gengnum. Þá hefur hann einnig reynt að eiga góð samskipti við sum vestræn ríki, á borð við Frakkland, og mögulega myndi hann ekki vilja fórna þeim fyrir hagsmuni Rússa. Pólitískir sviptivindar gætu þannig, líkt og í Sýrlandi, komið í veg fyrir eða takmarkað mjög þau nyt sem Rússar gætu haft af flotastöð í Líbíu.

Það gæti því reynst þrautin þyngri fyrir Rússa að bæta sér upp missinn, komi til þess að sýrlensk stjórnvöld úthýsi þeim frá Tartus og Latakíu.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson