Sigrún Magnúsdóttir fæddist í Reykjavík 9. mars 1955. Hún lést á krabbameinsdeild Landspítalans 5. janúar 2025.

Foreldrar hennar voru Zanný Clausen og Magnús Steingrímsson, þau eru bæði látin. Sigrún var yngst fimm systkina. Eftirlifandi systkini Sigrúnar eru Kristjana, Alda, Vöggur og Svanfríður.

Hinn 4. október 1980 giftist Sigrún eftirlifandi eiginmanni sínum, Kristni I. Sigurjónssyni. Börn þeirra eru: 1) Jónína Kristrún, börn hennar eru Alexander Ingi Kristjánsson, Magnús Ingi Halldórsson og Sigrún Ísabel Halldórsdóttir. Fósturbörn eru Aníka Rut Halldórsdóttir og Hrefna Dís Halldórsdóttir. Maki Jónínu er Halldór Óskar Magnússon. Þau eiga saman átta barnabörn. 2) Kristinn Sigurjón, dætur hans eru Efemía Rós og Indíra Sól.

Sigrún og Kristinn bjuggu alla tíð saman í Reykjavík, nánar tiltekið í Vesturbænum, nú síðast á Grandavegi 45.

Sigrún byrjaði í Öldugötuskóla, fór síðan í Melaskóla og þaðan í Hagaskóla. Hún útskrifaðist úr Ritaraskólanum og útskrifaðist sem læknaritari frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Sigrún útskrifaðist einnig sem jógakennari. Sigrún kom víða við í störfum sínum, m.a. sem danskennari, vann á tannlæknastofu, sem læknaritaritari og önnur skrifstofustörf. Hún var lengst af með sinn eigin rekstur.

Útför Sigrúnar Magnúsdóttur fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 30. janúar 2025, klukkan 13.00.

Ein af mínum fyrstu minningum um Sigrúnu er frá því ég var 11 ára. Ég stóð á gangstéttinni fyrir utan blokkina heima. Frændi minn og jafnaldri spurði hvort ég vissi hver Sigrún Magg væri. Nei ég veit ekki hver hún er. Ég þekki hana, sagði hann. Hún er alveg rosalega sæt og ofboðslega skemmtileg.

Nokkrum vikum seinna sá ég hana í fyrsta skipti á lóðinni við Melaskólann. Frændi hafði sannarlega hitt naglann á höfuðið. Hún var fallegasta stúlka sem ég hafði nokkru sinni séð. Hugsanlega var ég þarna orðinn ástfanginn. Og tveimur árum seinna, þá bæði komin í Hagaskóla, vorum við orðin kærustupar.

Sannast sagna skildi ég aldrei til fulls hvað hún sá við mig. En við vorum óumdeilanleg ástfangin. Um vorið fór hún til Noregs til að vinna á hóteli. Þegar hún kom til baka um haustið hafði hún samband og við mæltum okkur mót við strætóskýlið hjá KR-vellinum. Þegar hún birtist sá ég strax hvað var að frétta. „Ég er ófrísk og þú ert pabbinn.“

Áttundi febrúar 1973 er minnisstæður dagur. Þá er ég í 4. bekk í Hagaskóla og Björn Jónsson skólastjóri kemur inn í stofuna og ávarpar mig með þeim formála að Sigrún sé komin upp á fæðingardeild. Hann fór með mig út í leigubíl sem beið fyrir utan skólann. Um nóttina fæddist okkar yndislega dóttir Ninna. Tólf árum síðar nánast upp á dag fæddist Kristinn Sigurjón, okkar ástkæri sonur.

Þegar ég lít til baka er mér ljóst að við bæði vorum eiginlega börn. Þá sérstaklega ég. Sigrún var mun þroskaðri, hafði sterka ábyrgðartilfinningu og betri skilning á foreldrahlutverkinu. Ég var óþroskaður strákur sem vildi bara æfa fótbolta, spila í hljómsveit og djamma. En auðvitað fengum við aðstoð til að byrja með, að mestu frá Zanný móður Sigrúnar sem gerði það af einstakri ást og umhyggju.

Þrátt fyrir skort á skilningi á foreldrahlutverkinu framan af festist sambandið í sessi og við trúlofuðum okkur á aðfangadag 1975. Í október 1980 gengum við síðan í hjónaband. Og fram til dagsins í dag búið í Vesturbænum.

Það er yndislegt núna að hugsa til okkar lögnu samveru, ástar og vináttu sem spannar nánast 55 ár. Ekki síst þegar litið er yfir okkar stóra og glæsilega hóp afkomenda. Það gerir mér auðveldara að rúma í sama augnablikinu sorg og gleði.

Ég sé hana Sigrúnu enn með sömu augum og þegar ég sá hana á Melaskólalóðinni. Falleg ljóshærð stúlka með græn augu. Skemmtileg og heillandi stúlka sem átti auðvelt með að kynnast fólki. Kona sem bjó yfir heilindum og hafði sterka réttlætiskennd. Umfram allt kona sem elskaði börnin sín, barnabörnin, langömmubörnin, og allt sitt fólk. Og þótt hún gæti verið beinskeytt þegar hún þurfti að láta skoðanir sínar í ljós var hún ávallt samkvæm sjálfri sér.

Að kynnast Sigrúnu, elska hana, eiga hana sem besta vin, njóta þess að hún væri móðir barnanna minna og amma afkomenda eru þau verðmætin í mínu lífi sem standa upp úr. Á milli okkar var órjúfanlegur strengur sem aldrei slitnaði þrátt fyrir erfiðleika og mótlæti á lífsleiðinni.

Minningin um yndislega konu lifir.

Þinn

Kristinn (Diddi).

Elsku mamma.

Mamma er konan sem heldur í höndina á manni fyrstu árin en hjartað alla ævi.

Hjarta mitt er brotið og sorgin er mikil, hvað það er erfitt að geta ekki hringt í þig og spjallað við þig, er ekki að ná utan um það að þú sért bara farin. Þetta gerðist allt of fljótt, við áttum eftir að gera svo mikið saman. Ég hélt að ég hefði aðeins meiri tíma með þér. Svona getur lífið komið manni stöðugt á óvart og það minnir mann á hversu hverfult allt í þessu lífi er en það minnir mann á að njóta hverrar einustu stundar. Ég er bara ekki tilbúin að kveðja þig, elsku mamma.

Mamma var stolt af börnunum sínum og barnabörnum, fannst yndislegt að eiga samverustundir með sínum nánustu. Henni fannst æðislegt að fara með barnabörnin eða barnabarnabörnin í sumarbústað og eiga gæðastund með þeim þar, eins og Sigrún Ísabel og Magnús Ingi sögðu við mig, þau elskuðu að fara í bústað með ömmu og afa, spila og spjalla, leika á róló og fara í pottinn. Stórfjölskylda mömmu hittist alltaf á hverju ári en henni fannst mjög mikilvægt að við mættum öll þangað, síðustu ár var það í Heiðmörk þar sem við grilluðum pylsur og fórum í leiki. Mömmu fannst við hittast alltof sjaldan og það var alveg rétt, við systkinin ætlum að heiðra minningu mömmu og bæta úr því.

Ég er svo glöð yfir að við náðum að fara saman til Tenerife í mars og halda saman upp á afmæli mömmu, ég, mamma og tengdadóttir mín. Það var yndisleg ferð, rosalega gaman hjá okkur. Það var hlegið, dansað, spjallað, verslað og slakað á. Mamma var orðin veik þá en hún sýndi það sannarlega ekki, hún var hörkutól og kvartaði aldrei alveg fram á síðasta dag.

Mamma var mikill fagurkeri og vildi hafa fallegt í kringum sig. Ég man sérstaklega eftir því að vinir mínir höfðu orð á því hversu fallegt heimilið okkar var. Mamma elskaði að dansa og hlusta á tónlist. Ég man vel frá því þegar ég var yngri að það var alltaf tónlist, hvort sem það var verið að hlusta á plötur eða útvarp í gangi í eldhúsinu. Mátti yfirleitt hækka í botn og syngja með Duran Duran, Madonnu eða Grease, henni fannst það bara gaman.

Mamma varð ung móðir eins og ég og hún hjálpaði mér mikið með Alexander okkar eins og hún orðaði það, hvort sem það var að passa til þess að ég kæmist í skóla eða vinnu eða bara að bjóða honum með hvert sem þau voru að fara eða bara að gista. Ég byrjaði ung að búa og mamma kenndi mér að elda og þrífa (almennilega, eins og hún sagði). Mamma var alltaf tilbúin að aðstoða mig alveg sama hvað það var, alltaf var hægt að treysta á hana. Takk fyrir það, elsku mamma.

Mamma var ákveðin, beinskeytt, með sterkar skoðanir og mikla réttlætiskennd en einnig með risastórt hjarta og mikil tilfinningavera.

Elsku mamma, þú kenndir mér svo margt og áttum við dýrmætan tíma saman og fyrir það er ég þakklát. En ég er líka sorgmædd, því að ég vildi fá meiri tíma með þér, en ég veit að það verður vel tekið á móti þér, elsku mamma mín. Megi minning þín lifa að eilífu sem skært ljós í lífi okkar.

Ég elska þig af öllu hjarta, elsku mamma.

Þín dóttir,

Jónína (Ninna).

Elsku vinkona, það var erfitt símtal sem ég fékk frá Ninnu þinni er ég var stödd erlendis þann 5. janúar síðastliðinn á leið heim í flug, þegar hún sagði mér að þú værir orðin svo mikið lasin að það væri spurning hvort ég næði heim að kveðja þig. Því miður náði ég ekki, því þú kvaddir í þann mund er vélin var að lenda í Keflavík.

Áður en ég fór í þessa ferð hafði ég hugsað mikið til þín og var að spá í að hringja og rukka jólakortið mitt í ár, því þetta var eina jólakortið sem ég fékk síðastliðin ár og þótti mér svo vænt um það. Ég var búin að kíkja nokkrum sinnum í póstkassann minn til að athuga hvort kortið frá ykkur Didda væri ekki örugglega komið en svo var ekki og veit ég núna hvers vegna.

Við Sigrún kynntumst fyrst þegar hún kom í Melaskóla og var vinskapur okkar ávallt sterkur og einlægur. Farið var á hinar ýmsu útihátíðir eins og t.d. Saltvík. Oft var glatt á hjalla heima hjá Sigrúnu á Ránargötu 46. Mikið sungið, þar sem uppáhaldslögin okkar voru á þessum tíma Zanny og Garún, Garún.

Mér þykir vænt um og er stolt af að geta eignað mér sambandið og þann heiður að Sigrún og Diddi skyldu byrja saman eftir símtal mitt til Didda 1969.

Ég flutti til Vestmannaeyja 1972 og var það fastur liður þegar komið var í bæinn að heimsækja ykkur Didda. Við hefðum mátt hittast meira seinustu árin, en það var alltaf glatt á hjalla þegar við hittumst og rifjuðum upp gömlu góðu dagana og allt það sem við brölluðum saman hér um árin, en mörgu af því höldum við fyrir okkur elsku vinkona og er alls ekki prenthæft.

Þau verða þung sporin í dag, er við kveðjum þig elsku vinkona og ég geymi þig ávallt í mínu hjarta. Sendi Didda, Ninnu, Kristni og fjölskyldum mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Þín vinkona,

Sigríður Lovísa (Sirrý).

Ég finn til þakklætis fyrir þann vinskap sem við Sigrún áttum. Ég hugsa með þakklæti til þeirra mörgu góðu stunda sem við áttum saman.

Við Sigrún þekktumst í tugi ára, en það var fyrir um það bil rúmum áratug sem kunningsskapur okkar þróaðist í djúpt, einlægt vinasamband.

Löng og góð samtöl sem við áttum voru oft mikil sáluhjálp. Sigrún var laus við alla meðvirkni, sagði hlutina eins og þeir voru, það er svo gott að eiga þannig fólk að. Það var gaman að tala við hana og alltaf stutt í hláturinn.

Að fá þær fréttir að endalokin nálgist og takast á við það með því mikla æðruleysi sem Sigrún gerði var aðdáunarvert og sýndi hvað í henni bjó. Elsku Sigrún, mikið á ég eftir að sakna þín.

Elsku Diddi, Ninna, Kristinn, barnabörn og fjölskylda, mínar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar. Ykkar missir er mikill.

Þó að kali heitur hver,

hylji dali jökull ber,

steinar tali og allt hvað er,

aldrei skal ég gleyma þér.

(Vatnsenda-Rósa)

Þóra Kristinsdóttir.