Fossvogsbrú Mikið var um dýrðir þegar framkvæmdir hófust við landfyllingar fyrir Fossvogsbrú, þar sem ráðherra tók fyrstu skóflustunguna.
Fossvogsbrú Mikið var um dýrðir þegar framkvæmdir hófust við landfyllingar fyrir Fossvogsbrú, þar sem ráðherra tók fyrstu skóflustunguna. — Morgunblaðið/Karítas
Uppfærður samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins upp á 311 milljarða króna er ekki hluti af gildandi samgönguáætlun Alþingis til 15 ára, enda var aldrei lögð fram eða samþykkt samgönguáætlun á þingi þar sem gert er ráð fyrir fjárveitingum til hans

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Uppfærður samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins upp á 311 milljarða króna er ekki hluti af gildandi samgönguáætlun Alþingis til 15 ára, enda var aldrei lögð fram eða samþykkt samgönguáætlun á þingi þar sem gert er ráð fyrir fjárveitingum til hans. Þetta segir Vilhjálmur Árnason alþingismaður og varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar síðasta þings í samtali við Morgunblaðið.

Bendir hann á að inni í svokallaðri lotu 1 í sáttmálanum, frá Hamraborg að Hlemmi og kosta átti 8,2 milljarða, sé Fossvogsbrú, en ekki sé minnst á hana í samgönguáætluninni.

„Orðið Fossvogsbrú kemur þar hvergi fyrir og nú herma fregnir að brúin eigi að kosta jafn mikið og öll lotan sem liggja á frá Hamraborg að Hlemmi,“ segir Vilhjálmur.

„Ég bendi á að lota 1 sem og allar aðrar framkvæmdir uppfærðs samgöngusáttmála, hafa ekki farið í gegnum lögbundið ferli á Alþingi sem fer með löggjafar- og fjárveitingavaldið og ákveður forgangsröðun fjármuna sem ríkið setur í sáttmálann. Þannig er samgöngusáttmálinn í heild sinni því marki brenndur að hafa ekki farið í gegnum lögbundinn feril á Alþingi, þannig að ég lít svo á að ekki er hægt að fara í framkvæmdir sem eru umfram fjárheimildir samgönguáætlunar 2020 – 2024,“ segir Vilhjálmur.

Gert var ráð fyrir fjárveitingum til fyrsta áfanga samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins í samgönguáætlun sem tók til áranna 2020 – 2024. Sú umhverfis- og samgöngunefnd sem sat á síðasta Alþingi sá þó ástæðu til þess að leggja sérstaka áherslu á að uppfærð framkvæmdaáætlun samgöngusáttmálans yrði hluti af samgönguáætlun þaðan í frá, en þó þannig að Alþingi verði gert kleift að hafa heildaryfirsýn yfir samgönguframkvæmdir í landinu. Lagði meirihluti nefndarinnar áherslu á að allir aðilar stæðu við samkomulagið og ynnu að framgangi þess samkvæmt áætlun.

Undir þetta sjónarmið var síðan tekið í áliti fjárlaganefndar þingsins.

Vilhjálmur kveðst telja að þær framkvæmdir sem hafnar eru við landfyllingu vegna Fossvogsbrúar séu innan fjárheimilda, enda lota 1 með 8,2 milljarða eyrnamerkta í samgönguáætlun. Áformuð Fossvogsbrú sé þó klárlega utan heimildar.

„Ef ríkið og samgönguyfirvöld ætla að fara að lögum, þá þarf að leggja fram samgönguáætlun sem gerir ráð fyrir uppfærðum samgöngusáttmála, þannig að fjárheimild sé fyrir framkvæmdunum áður en farið er í verkefnin,“ segir Vilhjálmur og bendir á að nýleg ummæli samgönguráðherra sem segi nýja samgönguáætlun ekki væntanlega fyrr en á hausti komanda, skjóti hér skökku við.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson