Fyrirhuguð eru skemmdarverk á Suðurlandsbraut í þágu borgarlínu

Herferð höfuðborgarinnar gegn einkabílnum heldur áfram og veldur æ meiri áhyggjum margra. Í Morgunblaðinu í gær mátti lesa um áhyggjur þeirra sem reka fyrirtæki við Suðurlandsbraut og næstu götur vegna fyrirhugaðra breytinga á aðalskipulagi Reykjavíkur sem miða að því að koma borgarlínunni fyrir á Suðurlandsbrautinni miðri.

Fjöldi fyrirtækja starfar á þessu svæði og hafa sum flutt sig úr miðborginni eftir að borgin þrengdi svo að einkabílnum að fólki var orðið nánast ómögulegt að sækja í verslanir þar.

Nú er fyrirhugað að setja borgarlínuna á miðja Suðurlandsbrautina og þar á hún að hafa tvær akreinar fyrir sig, sem öllum má ljóst vera að verða afar illa nýttar, yfirleitt tómar nema þegar stöku risastrætisvagn á þar leið um. Afleiðingin verður sú að þeir sem ferðast um á einkabíl, sem eru allur þorri almennings, ekki síst þegar hann sækir þjónustu verslana, þurfa að láta sér nægja eina akrein í hvora átt í stað tveggja nú. Þar með minnkar afkastageta götunnar verulega fyrir almenna umferð, með þeim afleiðingum að færri aka þessa leið, sem er auðvitað ætlunin, en er um leið stórskaðlegt fyrir fyrirtæki á svæðinu og auðvitað fyrir almenning.

Þetta er þó ekki allt. Þeir sem aka nú í vesturátt á Suðurlandsbraut eiga þess víða kost að beygja til vinstri og inn á bílastæði fyrir framan verslanir og þjónustufyrirtæki. Þessar beygjur verða fjarlægðar vegna borgarlínunnar, sem mun valda fjölda verslana tjóni. Við bætist að bílastæðum fyrir framan fyrirtækin við Suðurlandsbraut verður fækkað verulega, því að þar á að koma breiður hjólastígur þó að annar sé hinum megin götunnar, við Laugardalinn. Með þessu tekst að þrengja enn frekar að einkabílnum og má segja að þannig sé markmiðinu náð.

Allt á þetta að gerast með gríðarlegum tilkostnaði eins og annað tengt hinum stórkarlalegu og úreltu hugmyndum um borgarlínu sem mótað hafa alla vinnu við samgöngumál höfuðborgarinnar árum saman. Yfir þrjú hundruð milljarðar eiga að fara í borgarlínuframkvæmdirnar fyrst og fremst. Þetta er þó aðeins nýjasta áætlunin og mun án efa halda áfram að vaxa, en skammt er síðan áætlunin tvöfaldaðist án þess að nokkur þeirra sem ábyrgð bera á fjármunum almennings teldi ástæðu til að endurmeta endaleysuna.

Fram kom í samtali við Vilhjálm Árnason alþingismann hér í blaðinu í gær að uppfærður samgöngusáttmáli er ekki hluti af gildandi samgönguáætlun Alþingis til 15 ára og fjárveitingar til hans hafa ekki verið samþykktar. Fyrsta lotan sem svo er kölluð og á að koma borgarlínuvögnunum stóru frá Hamraborg að Hlemmi er ekki nefnd í samgönguáætlun þingsins þó að skóflustungur hafi verið teknar af embættis- og stjórnmálamönnum.

Þessi lota segir Vilhjálmur að hafi átt að kosta 8,2 milljarða króna og bætir við: „Orðið Fossvogsbrú kemur þar hvergi fyrir og nú herma fregnir að brúin eigi að kosta jafn mikið og öll lotan sem liggja á frá Hamraborg að Hlemmi.“

Með öðrum orðum er engin fjárheimild til staðar fyrir Fossvogsbrú þó að framkvæmdir séu hafnar.

En þessar framkvæmdir eru að vísu stutt komnar og enn er hægt að hætta við ef ríkisstjórnin meinar eitthvað af því sem hún segir um hagræðingu í opinberum rekstri. Fossvogsbrúin á að kosta hátt í tíu milljarða króna og hefur lítinn annan tilgang en að auðvelda stöku borgarlínuvögnum að komast þessa leið. Einkabílum verður bannað að nota brúna og fótgangandi og hjólandi munu varla hætta sér út á hana nema í blíðskaparveðri.

Þær úreltu kenningar og kreddur sem stýrt hafa samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu um árabil hafa þegar valdið miklum skaða. Það finna ökumenn á hverjum degi og samanlagður kostnaður þjóðfélagsins vegna tafanna er geysihár. Borgarlínan mun ekkert létta á umferðinni, jafnvel þó að einhver lítils háttar fjölgun yrði í notkun almenningssamgangna við tilkomu hennar, sem þó er í besta falli óvíst. Ástæðan er meðal annars sú að með borgarlínunni er ætlunin að þrengja að almennri umferð, eins og dæmið um fyrirhuguð skemmdarverk á Suðurlandsbraut sýnir.

Ef haldið verður áfram með óbreytt áform eru því allar líkur á að niðurstaðan verði enn verri skulda- og rekstrarstaða hins opinbera, enda verður ekki aðeins upphafskostnaðurinn heldur líka rekstur borgarlínunnar sligandi. Allur þorri almennings verður hins vegar jafn fastur í umferðinni og áður.