Björn Jóhann Björnsson
bjb@mbl.is
Ef áætlarnir helstu framkvæmdaaðila ganga eftir verða verk fyrir um 264 milljarða króna boðin út í ár. Yrði þetta tvöföldun frá útboðum sömu aðila á síðasta ári, sem námu 134,5 milljörðum króna.
Þetta kom fram á Útboðsþingi í gær sem Samtök iðnaðarins, Samtök innviðaverktaka og Mannvirki, félag verktaka, stóðu að. Tíu verkkaupar kynntu sín áform fyrir þetta ár, þ.e. Landsvirkjun, Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir (FSRE), Reykjavíkurborg, Nýi Landspítalinn, Vegagerðin, Isavia, Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH), Veitur, Landsnet og Betri samgöngur, sem standa að borgarlínunni.
Dýrkeypt aðgerðaleysi
Þrír verkkaupar eru með langstærstan hlut af fyrirhuguðum útboðum, eða fyrir um 185 milljarða króna. Umfangsmest eru útboð Landsvirkjunar sem eru áætluð 92 milljarðar króna. Það er um 35% af öllum fyrirhuguðum útboðum opinberra aðila á Útboðsþinginu. Á síðasta ári námu raunútboð Landsvirkjunar 38 milljörðum króna. Í upphafi þess árs reiknaði Landsvirkjun með að bjóða út verk að upphæð 100 milljarðar króna en fram kom á Útboðsþinginu að vegna tafa á leyfisveitingum framkvæmda raungerðist ekki nema rúmur þriðjungur fyrirhugaðra útboða. Tekið var fram að aðgerðaleysi í raforkumálum undanfarin ár hefði verið samfélaginu dýrkeypt.
FSRE áætlar útboð fyrir rúma 50 milljarða og NLSH með 42,5 milljarða. Aðrir þátttakendur á þinginu fyrirhuga að bjóða út verk fyrir minna en 20 milljarða króna hver á árinu.
Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu boða útboð í ár fyrir um 30 milljarða króna, þar af er Reykjavíkurborg með áætlanir um 12 milljarða króna í útboð. Framkvæmdir fyrir um 18 milljarða eru fyrirhugaðar hjá Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfjarðarbæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarneskaupstað. Mest eru þetta húsbyggingar, íþróttamannvirki, gatna- og veituframkvæmdir.
Borgin með 14 milljarða í skóla og íþróttahús
Einar Þorsteinsson borgarstjóri kynnti fjárfestingaráætlun Reykjavíkurborgar. Samanlagðar fjárfestingar samstæðu borgarinnar nema um 75 milljörðum króna í ár. Þar af er borgin sjálf með 25 milljarða, Orkuveitan tæpa 40 milljarða, Félagsbústaðir með tæpa 7 milljarða og Faxaflóahafnir 2,3 milljarða. Stærstu einstöku fjárfestingar borgarinnar fara í byggingu leikskóla, grunnskóla og íþróttamannvirkja, eða fyrir nærri 14 milljarða.
Áætluð útboð tengd borgarlínu í ár eru fyrir 7,2 milljarða og um einn milljarður vegna hjólastíga.