Ólöf María Jóakimsdóttir fæddist á Siglufirði 24. desember 1927. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Eyri 18. janúar 2025.
Foreldrar hennar voru Jóakim Meyvantsson, f. 18. júlí 1886, d. 17. september 1945, og Friðrikka Ólína Ólafsdóttir, f. 16. apríl 1886, d. 2. apríl 1966.
Systkini Maríu voru Hildigunnur, f. 21. janúar 1912, d. 10. nóvember 1982, Ottó, f. 15. apríl 1913, d. 13. júní 1915, Ottó Jón, f. 15. maí 1915, d. 28. september 1973, Ægir, f. 4. nóvember 1917, d. 1. september 1996, Bergþóra Bryndís, f. 30. júní 1920, d. 28. október 1973, Ólafur Meyvant, f. 11. maí 1924, d. 1. júní 1998, Sigurður Óskar, f. 14. júlí 1926, d. 3. júlí 1928.
María giftist þann 9. ágúst 1952 Skúla Þ. Skúlasyni húsasmíðameistara, f. 28. maí 1931. Foreldrar hans voru Skúli Þórðarson, f. 2. október 1902, d. 8. febrúar 1996, og Sigrún Laufey Finnbjörnsdóttir, f. 6. apríl 1904, d. 8. mars 1989.
Börn Maríu og Skúla eru: 1) Sigrún Ósk, f. 5. desember 1953, gift Friðbert Traustasyni, f. 4. október 1954. Þeirra börn eru a) Sunna Ósk, gift Kjartani Erni Óskarssyni og eiga þau börnin Ragnheiði Ósk og Elmar Hrafn. b) Trausti, giftur Sunnu Hlynsdóttur og þeirra dætur eru Arabella Sigrún og Karlotta Malín. 2) Þórður Jóakim, f. 10. október 1956, giftur Bryndísi Bjarnason, f. 30. mars 1957. Þeirra börn eru a) Ottó, giftur Sigurbjörgu Benediktsdóttur og eiga þau börnin i) Hildi Maríu gift Frey Guðmundssyni. Þeirra börn eru Hlynur Atli, Íris Anna og Diljá. ii) Ívar Þór í sambúð með Hugrúnu Björnsdóttur. Þeirra börn eru Logi og Ottó. iii) Rakel Ýr í sambúð með Björgvini Margeiri Haukssyni. Þeirra barn er Snædís Tinna. b) Skúli, hans börn eru Þórður Jóakim og Nína Steinunn. 3) Sólveig Brynja, f. 5. september 1958, gift Jóni Ísak Harðarsyni f. 19. janúar 1958. Þeirra börn eru a) Stefán Örn, giftur Sigrúnu Waltersdóttur og þau eiga börnin Aðalstein, Sólveigu Birnu og Valborgu. b) Ólöf María, hennar synir eru Ísak Ingi, d. 11. júní 2013, Baldur Þór og Mikael Máni Meyvant.
Árið 1947 fór María í Húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði og hitti þar fyrir systur sína Hildigunni, sem búsett var og gift á Ísafirði. Hún fór heim aftur að loknu námi, en var ráðin næsta vetur til að vefa áklæði og fleira fyrir nýja Húsmæðraskólann, sem byggður var við Austurveg. Þaðan lá leiðin til vinnu við Sjúkrahúsið á Ísafirði og árið 1950 kynntist hún Skúla, eftirlifandi eiginmanni sínum, og saman áttu þau yndisleg 75 ár, þar af gift í rúm 72 ár. María bjó eiginmanni sínum og börnum hlýlegt heimili við Engjaveg 13, þar sem þau Skúli voru búsett í rúm 50 ár, en síðustu árin voru þau í eigin íbúð á Hlíf 2, Ísafirði. Síðastliðið haust fluttu þau á Hjúkrunarheimilið Eyri. Meðfram húsmóðurstarfinu starfaði María lengi hjá Kaupfélagi Ísfirðinga þar til hún hætti vegna aldurs. Í Kaupfélaginu eignaðist hún frábærar vinkonur, sem hún var með í „kaupfélagsklúbbi“ allt til æviloka.
Hún verður jarðsungin frá Ísafjarðarkirkju í dag, 31. janúar 2025, klukkan 14.
Elsku hjartans tengdamóðir mín, hún Mæja amma, er komin í Draumalandið eftir 97 viðburðarík ár. Eftir situr mikill söknuður hjá okkur ættingjum hennar og vinum og á sama tíma óendanlegt þakklæti fyrir allan þennan góða tíma sem við áttum með Mæju og Skúla. Þakklæti fyrir samfylgdina og umhyggjuna fyrir velferð okkar allra, traustan vinskap og óskilyrtan kærleika er mér efst í huga.
Ég hitti Mæju fyrst í byrjun árs 1971, þá mætti hún mér með bros á vör, glaðværð og hjartahlýju sem fylgdi henni alla tíð. Ég var frekar óöruggur þegar ég stóð á tröppunum á Engjavegi 13, en móttökur Mæju og Skúla voru svo innilegar að feimnin hvarf fljótt. Þau treystu því að eldri dóttir þeirra Sigrún Ósk hefði valið rétt, og síðustu 54 árin eigum við saman. Það var eins og Mæja amma skynjaði undursamleikann í hverju litlu barni, að hvert andartak, hvert fótspor væri kraftaverk sem bæri að hlúa að og veita gleði. Og börnin sáu ást og hlýju í augum ömmu.
Í huga mínum eru fallegar minningar síðustu 54 árin, samtöl um lífsins gang og trú á Guð, ferðalög innan lands og erlendis og samverustundir okkar hér í Hverafold, á Engjaveginum, Hlíf og í sumarhöllinni þeirra hjóna í Hagakoti. Kotið var líf og yndi Mæju og Skúla, þar dvöldu þau öll sumur síðustu 30 árin eftir að starfsævi á vinnumarkaði lauk. Það sést vel til bæjar þegar ekið er yfir brúna á Laugardalsá. Og þegar Mæja og Skúli voru í Kotinu þá var flaggað á bæjarhólnum til að allir vissu að þau væru velkomin í bæinn. Mæja elskaði meira en allt annað að hafa allt fullt af fólki í kringum sig og bera fram dýrðlegar veitingar, alltaf var nóg til. Það munu margir ættingjar og vinir sakna þess að fá ekki pönnukökur, vöfflur, vínarbrauð, snúða, hnallþórur (græna kakan var í uppáhaldi), nú eða kjötsúpu. Allan daginn stóð Mæja í eldhúsinu og bar veitingar í gestina, alltaf með bros á vör. Ég man varla eftir því að hún settist niður í öllu atinu.
Mæja skrifaði dagbók dag hvern í áratugi og hún kunni afmælisdaga ættingja og vina sem hún hringdi í á afmælisdögum til að spyrja frétta. Hún var hin sanna ættmóðir fjölskyldunnar frá Siglufirði og Dokkupúkanna. Allir þekktu Mæju og dýrkuðu hana, enda var hún einstök með gnótt af ást. Mæja og Skúli voru alla tíð afar ástfangin og samrýmd, fóru og gerðu allt saman hönd í hönd. Ég bið Guð að passa Skúla og halda í höndina á honum á erfiðum stundum nú þegar 75 ára samfylgd þeirra Mæju er á enda komin.
Ég þakka Mæju innilega fyrir vináttuna í gegnum lífið og allan stuðninginn við okkur Sigrúnu Ósk og börnin okkar Sunnu Ósk og Trausta, tengdabörnin okkar Kjartan Örn og Sunnu og barnabörnin okkar Ragnheiði Ósk, Elmar Hrafn, Arabellu Sigrúnu og Karlottu Malín. Ég þakka einnig Þórði, Biddý, Sólveigu og Jóni fyrir frábæra umönnun Mæju og Skúla.
Og börnin þín smáu sem misstu þó mest
þau muna hvað amma var góð
og geta ekki hugann við gullin sín fest
en ganga um stofuna hljóð.
(Káinn)
Fallega brosið, hlýjan og væntumþykja ömmu Mæju lifir alla tíð.
Takk fyrir allt sem þú hefur gefið okkur elsku Mæja.
Friðbert Traustason.
Elsku besta amma mín.
Bernskuminningar mínar einkennast af heimsóknum til ömmu og afa á Engjaveginn um jólin og í sumarfríum í Hagakot. Amma og afi voru dugleg að sækja mig, og síðar einnig Trausta, til Reykjavíkur á sumrin svo ég gæti farið með þeim í sveitina. Við tókum því rólega á ferðalögum okkar, hvort sem það var þegar frjálslega var farið með bílbeltin aftur í, svo ég gæti lagt mig þegar ég var bílveik, eða stopp á leiðinni í Kotið sem innihélt sundferð í Sælingsdal sem gerði ljósa síða hárið mitt grænt. Ævintýri okkar voru ótal mörg.
Best í heimi var að koma í Kotið með þér. Það fyrsta sem þú gerðir alltaf var að taka af þér úrið, leggja það í kommóðuna þína og minna okkur á að í Kotinu væri engin klukka. Við gerðum það sem okkur langaði sama hvenær sólarhringsins það var. Mér er minnisstætt eitt sumarkvöldið í Kotinu þegar mér og Trausta datt í hug hvort við gætum ekki farið í fjöruna seint eitt kvöldið. Þú hélst það nú og við löbbuðum af stað niður í fjöru. Ekki vissum við fyrr en nokkrum klukkustundum síðar að mamma og pabbi, sem voru heima í Reykjavík, höfðu næstum því ræst út björgunarsveitina því enginn svaraði í símann í Kotinu seint um kvöld. Við skildum að sjálfsögðu ekkert í þessum æsingi í fólkinu í Reykjavík enda engin klukka í Kotinu.
Þú sagðir svo oft, já, þetta er nú ekkert friðarheimili, elsku Sunna mín. Enda komu gestir til þín á hverjum degi, hvort sem það var á Engjaveginum eða í Kotinu. Þú elskaðir að hafa margt fólk í kringum þig og fá að gefa okkur öllum að borða enda var bakað og eldað alla daga í eldhúsinu hjá þér.
Þú tókst að sjálfsögðu mjög vel á móti Kjarra mínum þegar hann kom í fjölskylduna fyrir tæpum 20 árum, enda þar á ferð maður sem elskar að borða og þú elskaðir að gefa að borða. Ég tala nú ekki um þegar Ragnheiður Ósk, stjarnan ykkar afa, mætti á svæðið og svo síðar elsku Elmar Hrafn þinn. Við fjögurra manna fjölskyldan höfum átt ógleymanlegar stundir með þér og afa í Kotinu síðastliðin ár. Ég er til dæmis ekki viss um að Ragnheiður hafi verið búin að læra að labba almennilega þegar þú byrjaðir að kenna henni að baka pönnukökur. Þá eru ekki nema örfá sumur síðan við fjölskyldan vorum með ykkur afa í Kotinu þar sem þú skelltir þér niður á hnén og tókst þátt í sandkastalabyggingu í fjörunni. Eldhress þrátt fyrir háan aldur alveg eins og þú vildir hafa það.
Allar okkar óteljandi stundir í Kotinu, á Engjaveginum og síðar á Hlíf gáfu mér tækifæri til að kynnast þér svo vel og þú gafst þér ávallt tíma fyrir fjölskylduna þína, enda eins og þú sagðir, fjölskyldan skiptir mestu máli í þessu lífi.
Við verðum ævinlega þakklát fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur og allar þær fjölmörgu stundir sem við fengum með þér.
Takk fyrir allt, elsku amma, við munum sakna þín alla daga. Guð geymi þig.
Þín
Sunna Ósk, Kjartan, Ragnheiður Ósk og
Elmar Hrafn.
Elsku Mæja amma.
Ég var ekki gömul þegar þú komst í líf mitt. Frá fyrsta degi tókstu mér eins og þinni og fyrir það verð ég þér ævinlega þakklát. Þú varst einstök kona og ég get varla lýst því með orðum hvernig persóna þú varst, það var engin eins og þú.
Ég á svo margar minningar með þér. Eins og öll skiptin sem við örkuðum af stað til þín í afmæliskaffi á aðfangadag. Oftast var snjóstormur, en þetta var stór partur af aðfangadegi og stytti líka biðina eftir jólunum. Sunnudagslæri hjá þér og Skúla afa, ís í eftirrétt í boltaformunum og græni kassinn í þvottahúsinu, en þar geymdir þú nammið. Tíminn sem við bjuggum hjá ykkur skildi eftir sig margar minningar en uppáhaldsminningin mín er að sitja við eldhúsborðið á kvöldin og spjalla langt fram á kvöld. Allar Hagakotsferðirnar, þar var margt brallað og þú alltaf eitthvað að brasa og auðvitað bakaðir þú vöfflur, pönnukökur og varst með græna kassann með þér. Öll símtölin sem þú hringdir í mig áður en ég fór í ferðalag, hvort ég þyrfti ekki að koma og kveðja ykkur. Þá laumaðir þú alltaf pening í vasann, til þess að kaupa eitthvað á leiðinni, og það gerðirðu löngu eftir að ég varð fullorðin.
Eftir að ég flutti suður fannst mér erfiðast að geta ekki komið í heimsókn til þín. En við hringdum hvor í aðra mjög reglulega. Ef það leið of langur tími þá sagðirðu alltaf: Ertu nokkuð búin að gleyma mér? Í öllum símtölum tók ég eftir frösunum þínum sem ég mun rifja upp lengi.
Árið sem ég og Freyr bjuggum á Ísafirði komum við mjög oft til þín á kvöldin. Bara til þess að kíkja í heimsókn og spjalla. Þú tókst alltaf eitthvað fram á borð, en þú passaðir þig alltaf að eiga rækjusalat, ritzkex og djús fyrir mig og rice krispies-kökuna fyrir Frey, en það var uppáhaldið okkar.
Eftir að ég eignaðist börn fannst mér sjást svo vel hversu einstök þú varst, því börnin mín náðu einhverri einstakri tengingu við þig. Þau voru svo stolt af því að eiga þig, Mæja amma var sko meira en 90 ára en gat allt ennþá og bakaði bestu pönnukökur í heimi. Hlynur, Íris og Diljá munu minnast þín alla ævi og segja sögur af þér, Diljá talar um þig þó hún hitti þig bara nokkrum sinnum og var bara lítil. Hún tekur alltaf heimasímann hjá ömmu Sibbu og afa Ottó og segist vera að hringja í þig.
Ég man svo vel eftir því þegar ég hugsaði hvort ég gæti ekki sagt fólki að ég væri skírð í höfuðið á þér, þú hést Ólöf María og ég Hildur María. Fólk vissi kannski ekkert að við værum ekki blóðskyldar. Þú varst mér svo ótrúlega mikil fyrirmynd og innst inni óskaði ég mér að ég hefði verið skírð í höfuðið á þér. Ég hugsaði stundum að ég gæti jafnvel logið því að einhverjum, þorði nú samt aldrei að prófa það.
Elsku Mæja amma, síðustu vikur hafa verið einstaklega erfiðar. Mér finnst erfitt að trúa því að nú sértu alveg farin, að ég hitti þig ekki aftur á Ísafirði og fái ekki fleiri símtöl frá þér. Ég mun hlýja mér við allar minningarnar. Þú varst mín helsta fyrirmynd og ég ætla að verða eins og þú.
Stjarnan ykkar afa, þín
Hildur María Helgadóttir.
Látin er á Ísafirði 97 ára gömul Ólöf María Jóakimsdóttir, Maja, kona Skúla móðurbróður míns.
Sem barn var undirritaður iðulega á sumrum á Ísafirði hjá afa sínum og ömmu, Skúla Þórðarsyni og Sigrúnu Finnbjörnsdóttur, tengdaforeldrum Maju. Þá kynntist hann þessari glaðlegu og brosmildu konu Skúla, sem komið hafði frá Siglufirði í Húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði og orðið eftir og giftzt Skúla, en þau bjuggu alla sína tíð á Ísafirði. Í huganum voru þau eitt og ávallt nefnd samtímis.
Á fullorðinsárum undirritaðs bæði á námsárunum við störf hjá Bæjarfógetanum og Sýslumanni og síðar á 18 ára tímabili við embættisstörf á Ísafirði er margs að minnast, en þau Maja og Skúli veittu húsaskjól og ógleymanlegt var að koma í kaffi eða mat til þeirra, því Maja var snilldarmatreiðslumeistari. Helzta einkenni þeirra hjóna var góðsemi og velvild og aldrei heyrðist Maja varpa fram styggðaryrði um nokkurn mann. Ógleymanlegir eru morgunfundirnir á miðvikudögum á Engjavegi 13, sem voru kærkomið uppbrot hins daglega amsturs.
Hún lét sér annt um alla í fjölskyldunni og hringdi reglulega í föður minn þegar hann var orðinn ekkill, en fyrst og fremst sinnti hún sínum nánustu af alúð og fljótlega varð sá sem þetta ritar í þeim hópi. Hún tókst á við alvarleg veikindi fyrir alllöngu og varð sterkari á eftir.
Maja reyndist allri minni fjölskyldu vel og eru börn okkar Þórdísar þar með talin. Hún sinnti afa mínum og ömmu og honum þegar hann var orðinn ekkill.
Maja var alþýðuhetja sem ekki leitaði eftir viðurkenningu umhverfisins, enda manngæzka hennar meginprýði og öllum vel kunn sem hana þekktu. Margs er að minnast eftir langa ævi og engin leið að gera grein fyrir öllu í stuttu máli, en minningarnar eru margar og eiga eftir að lifa lengi með öllum sem hana þekktu.
Þegar undirritaður var að rita meistararitgerð í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands fyrir nærri tveimur áratugum stóð ekki á því að taka drenginn inn á heimilið. Hún átti það til að spyrja hvers vegna fullorðinn embættismaður stæði í slíku námi en var alltaf reiðubúin að hlusta og spyrja, sem var vel þegið, að finna áhuga og umhyggju.
Fátækleg orð og söknuður mega sín lítils, en hugurinn er hjá Skúla móðurbróður mínum, börnum þeirra, tengdabörnum, barnabörnum og barnabörnum. Þeirra missir er mikill, einkum Skúla, og þeim og öðrum aðstandendum færum við Þórdís og börnin okkar samúðarkveðjur og þakkir fyrir að hafa átt Maju að.
Því miður eru aðstæður undirritaðs með þeim hætti að eiga ekki kost á því að fylgja henni síðustu gönguna.
Lítil kveðja Maja frá mér.
Megi hún berast þér.
Örfá orð segja ekki mikið,
en að litlu skal vikið.
Ólafur Helgi Kjartansson
Elskuleg móðursystir okkar er nú farin frá okkur, 97 ára gömul. Hún var stór hluti af æsku okkar systkina og við minnumst hennar með hlýju og þakklæti. Ekki bara hennar heldur líka Skúla, sem sér nú á eftir henni Mæju sinni eftir rúmlega 70 ára hjónaband.
Þær systur, Mæja og Hildigunnur, móðir okkar, áttu kærleiksríkt systrasamband. Sú elsta og yngsta af þeim siglfirsku systkinum, sem öll eru nú fallin frá. Þær systur hjálpuðust að í gegnum súrt og sætt, t.d. við sláturgerð, bakstur, sauma- og prjónaskap og mörg fleiri verk sem þær þurftu að sinna.
Þegar eitthvað skemmtilegt bar fyrir augu eða varð á vegi þeirra hlógu þær svo innilega að þær máttu vart vatni halda! Hins vegar gátu eiginmenn þeirra ekki setið nálægt þeim þegar þessi gállinn var á þeim systrum. Börn Mæju kölluðu móður okkar oftast „töntu“.
Mæja og Skúli áttu sinn sælureit inni í Djúpi, í Hagakoti í Laugardal, þar sem þau dvöldu löngum stundum og undu sér vel. Þegar leið okkar lá um Djúpið var iðulega litið við í Hagakoti þar sem boðið var upp á kaffi og nýbakað. Og ekki var síðra að líta inn hjá þeim Mæju og Skúla á Engjaveginum.
Þegar við minnumst Mæju frænku ríkir ekkert nema gleði og hlátur í huga okkar.
Með söknuð í hjarta þökkum við Hrannargötusystkinin liðna tíð og sendum Skúla og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur.
Jón, Auður, Ólína og Sigrún Hildigunnar- og Halldórsbörn.
Flestir sem við eigum samleið með í lífinu hafa áhrif á okkur á einhvern hátt.
Stundum er samleiðin örstutt en stundum ævilöng og auðvitað allt þar á milli.
Undanfarna daga hefur mér orðið hugsað til samleiðar minnar með elskulegri föðursystur minni, sem spannað hefur alla mína ævi til þess dags að hún hvarf frá okkur ástvinum sínum á annað tilverustig. Hún hafði mikil og góð áhrif á mitt líf. Ég leit upp til hennar alla tíð og fyrirmynd var hún sérlega góð. Væntumþykjan djúp á báða bóga.
Ótal minningar hafa farið um hugann síðustu daga.
Þær elstu eru frá barnæsku minni á Siglufirði, eins og þegar kassinn með jólapökkunum kom frá frænkunum á Ísafirði, það var mikil eftirvænting því þaðan kom alltaf eitthvað fallegt. Og svo öll sumrin á Siglufirði, þangað kom Mæja frænka mörg sumur með börnin sín ásamt Hildigunni systur sinni og hennar dætrum til að salta síld og heimsækja móður sína. Allur hópurinn bjó hjá Ægi frænda í litla húsinu við Lindargötu sem amma og afi höfðu byggt og búið í áður. Þessi sumur eru ógleymanleg, við systkinabörnin á svipuðu reki og oft var mikið fjör, leikið og hamast úti og inni og stundum þurfti frænka að skakka leikinn. Hún átti líka yngri börn og oft voru hávaðinn og ærslin svo mikil langt fram á bjart sumarkvöldið að ekki var við unað.
Löngu seinni komu svo ættarmótin sem þau föðursystkin mín, Óli, Ægir og Mæja, komu á fót. Það fyrsta haldið 1986 á Siglufirði í tilefni aldarafmælis ömmu og afa, Ólínu og Jóakims. Ógleymanlegir dagar á hásumri, þegar sólin aldrei sest. Þetta tókst svo afburðavel að ættarmótin höfum við haldið áfram á þriggja ára fresti öll þessi næstum fjörutíu ár. Oftast á æskuslóðum okkar Mæju frænku á Siglufirði, því þar eru fjöllin fegurst eins og frænka sagði alltaf. Einnig hafa þau verið haldin á öðrum stöðum á vestanverðu landinu og alltaf verið jafn gaman, mikið fjör og dásamleg samvera. Síðastliðið sumar var ættarmótið haldið í Ólafsfirði og var það fyrsta sem Mæja frænka, ættardrottningin, og Skúli hennar komust ekki á vegna lasleika, bæði komin vel á tíræðisaldur. Mikið var þeirra saknað. Þarna urðu ákveðin kaflaskil í ættarmótinu okkar og nú hafa orðið mikil tímamót hjá okkur öllum í stórfjölskyldunni þegar þessi sterka, góða og skemmtilega frænka, sem við höfum öll virt og lítið upp til, er horfin af sjónarsviðinu, síðust þeirra Jóakims-systkinanna frá Siglufirði og yngst þeirra allra. Mikið sem við eigum eftir að sakna hennar.
En mestur er söknuður Skúla hennar, þau voru afar samrýnd og samstiga um alla hluti, hjónaband þeirra hamingjuríkt í meira en sjötíu og tvö ár og voru varla nokkurn tíma aðskilin. Góð fyrirmynd fyrir okkur öll. Hugur minn er hjá elsku Skúla og mínum kæru systkinabörnum, Sigrúnu, Þórði og Sólveigu, og fjölskyldum þeirra. Við Gunnar minn og fjölskylda okkar erum þakklát fyrir samleið okkar með elsku Mæju frænku og sendum innilegar samúðarkveðjur til afkomenda hennar og annarra ættingja og vina.
Minning hennar er vafin hlýju og mun lifa alla tíð.
Helga Ottósdóttir (Didda).