Framboðsfrestur til embættis rektors Háskóla Íslands rennur út á miðnætti í kvöld. Jón Atli Benediktsson hefur gegnt embætti rektors frá árinu 2015 en sækist ekki eftir því áfram og nýr rektor tekur við 1. júlí 2025.
Fimm hafa þegar lýst því yfir opinberlega að þeir sækist eftir embætti rektors. Það eru Björn Þorsteinsson, prófessor í heimspeki við sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, Ingibjörg Gunnarsdóttir, næringarfræðingur og aðstoðarrektor vísinda við Háskóla Íslands, Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Magnús Karl Magnússon, prófessor í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands, og Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í alþjóðasamskiptum við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.
Ábyrgð á allri starfsemi
Rektor Háskóla Íslands er forseti háskólaráðs, yfirmaður stjórnsýslu háskólans og æðsti fulltrúi hans og talsmaður gagnvart mönnum og stofnunum innan háskólans og utan hans. Hann stýrir starfsemi háskólans og hefur frumkvæði að því að háskólaráð marki sér heildarstefnu í málefnum háskólans. Hann ber ábyrgð á framkvæmd stefnu skólans og tengslum hans við innlenda og erlenda samstarfsaðila. Rektor ber ábyrgð á og hefur eftirlit með allri starfsemi háskólans, þ.m.t. ráðningar- og fjármálum einstakra fræðasviða og stofnana.
Fram kemur í auglýsingu frá Háskóla Íslands að embættisgengir séu þeir einir sem hafa prófessorshæfi, leiðtogahæfileika og skýra og metnaðarfulla framtíðarsýn fyrir háskólann, ríka samskiptahæfni og víðtæka reynslu af stjórnun og stefnumótun. Háskólaráð ákvarðar hvaða umsækjendur uppfylla skilyrði um embættisgengi.
Rafræn kosning
Samkvæmt reglum um skólann skipar háskólaráð kjörstjórn þegar umsóknarfrestur um embættið er liðinn. Kjörstjórn skal skipuð sex mönnum, tveimur úr hópi stúdenta og fjórum úr hópi starfsmanna háskólans. Verkefni kjörstjórnar er að hafa umsjón með gerð kjörskrár, ákveða kjördag, annast framkvæmd kosninga, úrskurða í kærumálum vegna kosninga og annað er að kosningunni lýtur.
Við rektorskjör eiga atkvæðisrétt allir sem eru ráðnir í starf við háskólann og stofnanir hans í samræmi við gildan ráðningarsamning. Þeir sem eru í starfshlutfalli 37-74% hafa hálft atkvæði en starfshlutfall sem er lægra en 37% veitir ekki atkvæðisrétt. Atkvæðisrétt hafa einnig akademískir starfsmenn á samstarfsstofnunum Háskóla Íslands, sem starfa á grundvelli sérlaga.
Þá eiga atkvæðisrétt allir stúdentar, sem skrásettir eru í Háskóla Íslands við upphaf kjörfundar. Atkvæði starfsmanna skulu samtals vega 70% í kjörinu og atkvæði stúdenta samtals 30%. Gera má ráð fyrir að á þriðja þúsund starfsmanna hafi samkvæmt þessu kosningarétt og rúmlega 14 þúsund stúdentar.
Rektorskjör skal fara fram eigi síðar en sjö vikum eftir að umsóknarfrestur rennur út. Kosning er rafræn og skal kjörfundur standa í rúman sólarhring frá kl. 9 árdegis fyrsta daginn til kl. 17 síðdegis annan daginn.
Hugsanlega kosið tvisvar
Sá umsækjandi telst hafa hlotið tilnefningu í embætti rektors sem hlýtur meirihluta gildra atkvæða. Ef enginn fær svo mörg atkvæði skal kjósa að nýju viku eftir að úrslit fyrri umferðar liggja fyrir um þá tvo sem flest atkvæði fengu. Í því kjöri ræður afl atkvæða. Séu atkvæði jöfn ræður hlutkesti.
Á fyrsta fundi háskólaráðs að loknum kosningum tilnefnir ráðið til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra þann umsækjanda sem fengið hefur meirihluta gildra atkvæða og ráðherra skipar síðan háskólarektor samkvæmt þeirri tilnefningu. gummi@mbl.is