Dagur Sigurðsson er kominn með lið Króatíu í úrslitaleikinn á heimsmeistaramóti karla í handknattleik eftir magnaða frammistöðu liðsins og sigur gegn öflugu liði Frakklands í undanúrslitaleik þjóðanna í Zagreb í gærkvöld, 31:28.
Króatar leika þar með til úrslita gegn Dönum eða Portúgölum í Bærum í Noregi á sunnudaginn en þau lið mætast í seinni undanúrslitaleiknum annað kvöld. Frakkar leika um bronsverðlaunin sama dag gegn tapliðinu úr leiknum í kvöld.
Með þessu er ljóst að Dagur verður fyrsti íslenski þjálfarinn til að vinna verðlaun á þremur stærstu mótum karla í handbolta. Hann hefur þegar stýrt Þýskalandi til gullverðlauna á Evrópumóti og bronsverðlauna á Ólympíuleikum og núna fær hann annaðhvort gullið eða silfrið á heimsmeistaramótinu á sunnudaginn.
Mögnuð stemning
Stemningin í Arena Zagreb sló Frakkana greinilega út af laginu í fyrri hálfleiknum, rétt eins og þegar Króatar völtuðu yfir íslenska liðið í fyrri hálfleik á dögunum.
Þeir léku ekki síður gegn Frökkunum og náðu mest níu marka forskoti í fyrri hálfleik. Komust í 11:6, 15:7 og svo 18:9, áður en Frakkar skoruðu tvö síðustu mörkin og staðan var 18:11 í hálfleik.
Frakkar minnkuðu muninn fljótlega í fjögur mörk í seinni hálfleik, 19:15, en Króatar héldu þeim fjórum til sex mörkum frá sér þar til Frakkar löguðu stöðuna í 27:24. Dika Mem minnkaði muninn aftur í þrjú mörk, 29:26, þegar fjórar mínútur voru eftir en Filip Glavas svaraði fyrir Króata úr vítakasti mínútu síðar, 30:26. Melvyn Richardson skoraði úr víti fyrir Frakka, 30:27, en Marin Sipic svaraði fyrir Króata, 31:27, þegar rúm mínúta var eftir og þar með var ljóst að þeir væru á leið í úrslitaleikinn.
Zvonimir Srna og Marin Jelinic skoruðu sjö mörk hvor fyrir Króata og Ivan Martinovic sex. Dika Mem skoraði átta mörk fyrir Frakka og Ludovic Fabregas fjögur.