Ragnheiður Birgisdóttir
ragnheidurb@mbl.is
Þrjár prinsessur bíða eftir prinsinum sínum og að ævintýri þeirra hefjist. Hvað gerist ef prinsinn kemur ekki? Um það fjallar Hver vill vera prinsessa?, nýr söngleikur í anda Disney-ævintýranna eftir Raddbandið, Söru Martí og Stefán Örn Gunnlaugsson sem verður frumsýndur í Tjarnarbíói á morgun, 1. febrúar, klukkan 13.
Raddbandið skipa söng- og leikkonurnar Auður Finnbogadóttir, Rakel Björk Björnsdóttir og Viktoría Sigurðardóttir. Þær hafa allar unnið saman áður í ólíkum leikhúsverkefnum en í covid-faraldrinum fóru þær að hittast til að syngja saman og úr varð prógramm um jólastress og móðurhlutverkið sem þær hafa flutt víða, meðal annars á tónleikum í Salnum í desember.
„Sara tók eftir okkur í Stundinni okkar og hafði samband við okkur. Hún viðraði við okkur að fara í einhvers konar samstarf og gera barnaprógramm. Við vissum ekki nákvæmlega hvað þetta yrði þegar við byrjuðum en svo fæddist saga sem okkur langaði að segja. Við vorum svo metnaðarfullar að við gerðum alveg glænýjan söngleik,“ segja þær og Sara, sem leikstýrir verkinu, tekur undir. „Þetta varð alvörusnjóbolti sem fór að rúlla,“ segir hún.
Kryfja prinsessuhugtakið
„Ég var með þessa hugmynd um prinsessusöngleik og þær komu strax með svo margar hugmyndir að þetta varð rosalega eðlilegt ferli. Áður en við vissum af voru þær komnar með mjög flott handrit sem við erum búin að vera að vinna síðan. Það hefur farið í alls konar áttir því það er hægt að segja svo margar prinsessusögur. Kannski er þetta bara fyrsta prinsessusagan af nokkrum,“ segir Sara.
Auður segir þær hafa krufið prinsessuhugtakið og hugmyndirnar í kringum það. „Við opnum það alveg upp á gátt.“ Þær hafi komist að því að til séu alls konar prinsessur, þær séu ólíkar þótt þær eigi margt sameiginlegt. Sara bætir við að þær vinni með femínisma og valdeflingu í verkinu.
Söngleikurinn fjallar, eins og áður sagði, um þrjár mjög ólíkar prinsessur sem eiga það sameiginlegt að vera að bíða eftir því að ævintýrið og í raun líf þeirra hefjist. „Þær eru allar að bíða eftir prinsinum. Samkvæmt ævintýrunum verður engin prinsessa hamingjusöm til æviloka nema hún finni sér prins,“ segja þær. En norn hefur lagt á þær álög og prinsarnir koma ekki. „Spurningin er hvort þær þurfi raunverulega á þessum prinsi að halda,“ segir Rakel.
„Við fórum að skoða mismunandi erkitýpur af prinsessum. Við erum að vinna með glæsilegu prinsessuna sem býr í höll, á allt og talar við dýr eins og Þyrnirós og Fríðu. Við erum líka með Öskubusku-týpuna, sem er einangruð og þarf að þjóna öðrum. Loks er það sterka töffaraprinsessan eins og Fíóna í Shrek og Merída í Brave. Þær eru allar mjög ólíkar en það sem sameinar þær er að þær eru að bíða eftir prinsinum og reiða sig á hann til að finna hamingjuna. Það sem er mikilvægast í þessu er að þær læra að treysta á sig sjálfar, ekki allar þessar hugmyndir samfélagsins um hvað prinsessur eru,“ segja þær.
Sara segir þær hafa ákveðið að í stað þess að pirra sig á aðdáun stelpna á prinsessum og vinna á móti þeim hugmyndum hafi þær reynt að taka eitthvað sem stelpur elska og vinna með það.
Ætla að gefa tónlistina út
„Við eigum allar lítil börn þannig að barnamenning er okkur hugleikin. Við vildum gera leikrit um eitthvað sem við vildum kenna börnunum okkar, eitthvað sem styrkir stelpurnar og strákana okkar,“ segir Rakel.
Teymið sótti innblástur í teiknimyndir Disney og notar leikmyndina meðal annars til þess að skapa ævintýraheim en teiknari frá Pakistan sá um að gera bakgrunnsmyndir sem varpað verður á tjöld. Persónusköpunin er líka, eins og fram hefur komið, undir miklum áhrifum frá Disney. Þá vísa þær til þessa heims með sviðshreyfingum og ekki síst tónlistinni en hún er frumsamin.
„Við vorum ekkert vissar framan af hvort við ætluðum að semja nýja tónlist eða nýta það sem til er en okkur fannst þetta það sterkt handrit og hugmynd að við ákváðum að fara alla leið. Tónlistin varð til í haust eftir að við vissum hvert við vorum að fara og hvaða sögu við ætluðum að segja,“ segir Rakel en þau Stefán Örn eiga heiðurinn af tónlistinni. „Stefán hefur verið frábær í að búa til Disney-heiminn. Við erum að fara inn í klisjurnar og gera pínu grín að þeim en um leið njóta þess að vinna með þær.“ Þau stefna að því að gefa tónlistina út og hefjast upptökur strax að lokinni frumsýningu.
Kröfuharðir áhorfendur
Verkið er ætlað börnum á aldrinum 4-12 ára en Viktoría bætir við að það sé auðvitað fyrir allan aldur, þetta sé fjölskyldusýning. „Gott verk höfðar til barna en líka til ímyndunaraflsins í fullorðnum,“ segir Sara. „Lögin eru heilalím og ég get eiginlega lofað því að fólk gangi út af sýningunni með bros á vör.“
Þær bæta við að það sé gaman að geta boðið upp á leikverk fyrir börn enda sé ekki nóg framboð á verkum fyrir þennan aldurshóp.
Spurðar hvort það sé öðruvísi að leika fyrir börn en fullorðna segja þær að börn séu miklu kröfuharðari. „Þau láta mann vita um leið og þeim leiðist. Þau eru hörðustu gagnrýnendurnir,“ segja þær. „Það verður að vera gaman en þau höndla samt raunveruleikann betur en maður heldur svo það er alveg sorg í sýningunni og við treystum þeim fyrir því.“
Þær segjast spenntar að fá áhorfendur á öllum aldri á sýninguna. „Þetta er stærra en við ætluðum okkur og mjög metnaðarfullt.“