Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
„Það eru allir sammála um það að þetta sé tómt klúður og nú er komið að því að finna á þessu lausn,“ segir Páll Gunnlaugsson, arkitekt og fyrrverandi stjórnarformaður Búseta, um byggingu vöruhússins við Álfabakka 2.
Hvaða lausn sérðu fyrir þér?
„Ég er ekki með lausnina enda þekki ég ekki málið til hlítar. Það verður að fara fram samtal á milli borgarinnar, byggingaraðila og nágrennisins.“
Finnst þér koma til greina að rífa húsið?
„Það er ekki mitt að meta það, en það hlýtur að koma til skoðunar að einhverju leyti að minnsta kosti.“
Á frekar heima á atvinnusvæði
„Í raun og veru á kannski hluti af þessari starfsemi miklu frekar heima á atvinnusvæði heldur en miðsvæði samkvæmt aðalskipulagi. Ef við skoðum Garðheimahúsið; þó stórt sé þá er starfrækt þar verslun sem án vafa á heima á miðsvæði og er hluti af þjónustu við hverfið.“
Páll segist ekki hafa neinu að bæta við það sem fram hefur komið í umfjöllun um húsið og hann sé sammála því að þetta sé slæmt.
Að þetta hafi sloppið í gegn
„Bara það að þetta skyldi hafa sloppið í gegn, án þess að betur sé gerð grein fyrir húsinu, er eitthvað sem maður þekkir ekki hjá borginni, hvorki hjá skipulagsráði né byggingarfulltrúa.“
Hann segir það sína reynslu að það þurfi að gera miklu betur grein fyrir fyrirhuguðu umfangi byggingarinnar í deiliskipulagsvinnu en gert var við Álfabakkann.
„Þarna hafa menn misst sjónar á aðalatriðunum og líka dregið verulega úr kröfum um framsetningu á teikningum. Afstöðumyndin sýnir ekki það sem hún á að gera, deiliskipulagið er bara grunnmynd og sýnir enga þrívídd sem gerir grein fyrir umfangi mannvirkisins og umhverfi,“ segir Páll.