Kolbrún verður sjötug á árinu og starfar í hlutastarfi sem sjúkraliði á blóð- og krabbameinsdeild Landspítalans. „Ég hef gaman af að vakna og fara í vinnuna,“ segir hún glöð í bragði og bætir við að tilhugsunin um að hætta að vinna sé svolítið erfið.
Það er þó ekki starf Kolbrúnar sem er forsenda viðtalsins heldur óbilandi unun hennar af alls kyns hreyfingu og hugrekkið sem hún hefur til að taka t.d. þátt í maraþonum um heim allan, komin yfir miðjan aldur.
Spurð segist Kolbrún alltaf hafa haft þörf fyrir að hreyfa sig, einfaldlega sér til skemmtunar. „Ég var samt aldrei í neinum keppnisíþróttum. Sem unglingur fór ég í sund og synti bara af því að það var gaman og það sama átti við þegar ég fór út að hjóla.“
Hún segir að á þessum tíma hafi verið talað öðruvísi um hreyfingu og að hennar viti hafi flestir bara hreyft sig af ánægju og vegna þess að það var partur af áhugamáli.
Skokkhópur Grafarvogs
Þegar Kolbrún var 38 ára gömul fluttist hún með fjölskylduna frá Grundarfirði til Reykjavíkur, eftir tuttugu ára búsetu fyrir vestan. Hún er gift Kristjáni Guðmundssyni skipstjóra og saman eiga þau þrjár uppkomnar dætur og barnabörn.
Fljótlega eftir að hafa sest að í Grafarvogi var Kolbrún stödd í götugrilli í botnlanganum. Þar fékk hún upplýsingar um nýstofnaðan skokkhóp Grafarvogs, sem Erla Gunnarsdóttir stýrði, og voru þónokkrir Grafarvogsbúar þegar hluti af hópnum. Henni þótti það spennandi og ákvað að prófa.
„Þarna hafði ég aldrei stundað hlaup en það sem fékk mig helst til að prófa var félagsskapurinn,“ segir hún og bætir við að þetta hafi nú ekki verið mjög krefjandi í fyrstu þar sem hlaupið var að næsta ljósastaur og gengið þess á milli. Að auki hentaði þessi hreyfing með þrjár ungar dætur þar sem stutt var á æfingu og hver æfing var ekki nema klukkutími, svo hún þurfti ekki að vera lengi í burtu í hvert skipti.
Öll þessi ár hefur Kolbrún verið í skokkhópi Grafarvogs, sem er í dag skokkhópur Fjölnis, með nokkrum góðum hléum. Lengstu pásuna þurfti hún að taka vegna brjóskloss og var henni ráðið frá því að fara aftur að hlaupa. Hún lét það ekki aftra sér enda segir hún að sjúkraþjálfarar myndu ráðleggja eitthvað allt annað í dag.
Maraþonhlaupin
Kolbrún hljóp sitt fyrsta maraþon í Berlín árið 2012, þá 57 ára gömul. „Ég hafði aldrei tíma til að æfa fyrir maraþon þegar vinkonur mínar voru að fara því ég var með mann á sjónum og börn heima.“ Þess vegna fór hún ekki þessi fyrstu skipti sem aðrir í hópnum voru að fara. Henni fannst hún a.m.k. samt þurfa að prófa þegar dæturnar urðu eldri og tíminn varð meiri.
„Það var mjög gaman í Berlín, allt var voða slétt og þægilegt. Engar brekkur.“ Eiginmaðurinn hefur fylgt með í maraþonferðirnar, sem klappstýra, því eins og Kolbrún segir hafa hlaupin ekki beint verið hans tebolli.
Í heildina hefur hún hlaupið fjögur maraþon og einu sinni hlaupið Laugaveginn, árið 2016.
„Þótt ég hafi hlaupið maraþon þá finnst mér miklu skemmtilegra að hlaupa styttri vegalengdir, upp að hálfu maraþoni,“ segir hún, en æfingatímabilið fyrir maraþon varir um 3-4 mánuði og tekur mikið af tíma hlauparans. Henni þykir félagsskapurinn í kringum æfingarnar skemmtilegur og viðburðurinn, þ.e. maraþonið sjálft, mikil upplifun en það er tilhlökkunin eftir maraþoninu sem verður hvati á æfingum.
Fyrst hún er byrjuð á Kolbrún sér draum um að klára sex maraþon á heimsvísu og fá svokallaðan Abbot World Marathon-pening. Þau maraþon fara fram í Berlín, Boston, London, New York, Chicago og Tókýó, en það eru þessar tvær síðastnefndu borgir sem hún á eftir. Þess vegna hefur hún sett sér markmið um að klára Chicago-maraþonið í október á þessu ári, þegar hún verður sjötug, og Tókýó á því næsta, að því gefnu að heilsan leyfi, líkt og hún segir sjálf.
Þau hjónin hafa iðulega farið saman til útlanda þegar Kolbrún er að hlaupa og eins og áður segir á hún sterkan stuðningsmann á hliðarlínunni á meðan hún afrekar maraþonið. Þeim þykir gaman að gera meira úr ferðunum og gera gott frí úr borgarferðinni í leiðinni.
Vissulega eiga þau sameiginleg áhugamál og nokkuð víst er að ekki sé alltaf hægt að hafa eiginmanninn á hliðarlínunni. Þau geri því ýmislegt annað þar sem þau bæði taka þátt.
Skíðaiðkunin
„Ég byrjaði á skíðum þegar ég var tvítug. Þá var í boði að fara á námskeið í Kerlingarfjöllum og tvö sumur, viku í senn, fór ég á svoleiðis námskeið undir stjórn Valdimars Örnólfssonar. Eftir það varð ég alveg dolfallin og var nánast um hverja helgi í Bláfjöllum,“ segir Kolbrún þegar hún byrjar að ræða eitt af sameiginlegum áhugamálum þeirra hjóna.
„Þetta var stuttu áður en ég kynntist Stjána.“ Kolbrún segir að svo hafi þau tekið saman og eignast fyrstu dótturina. „Þá var hann heima með stelpuna þegar ég skrapp í Bláfjöll.“ Hann hafi þó fljótt séð hve skemmtilegt þetta var hjá henni og viljað prófa líka. Það tók ekki langan tíma fyrir hann að kolfalla fyrir sportinu og hjónaband þeirra hefur einkennst af mikilli skíðaiðkun og útiveru.
„Brúðkaupsferðin okkar var skíðaferð til Austurríkis. Og við vorum aðskilin í okkar eigin brúðkaupsferð,“ segir hún kímin en Kristján var settur í annan hóp sem byrjandi. Þessu er þó ólíkt farið í dag, að sögn Kolbrúnar. „Hann er orðinn miklu betri en ég. Með árunum þegar ég er farin að fara varlegar þá dregur hann ekkert úr hraðanum.“
Þegar viðtalið er tekið eru þau einmitt á leiðinni í skíðaferð erlendis innan örfárra daga. Eina af ótal mörgum, bæði tvö saman og með dætrum og barnabörnum. „Við höfum reynt að fara á hverju ári, sérstaklega síðustu ár.“
Fjallgöngurnar
Kolbrún leggur áherslu á að hafa hreyfinguna eins fjölbreytta og mögulegt er. Þegar sund, hlaup og skíðaiðkun hefur verið nefnt, berst talið að fjallgöngum sem einnig er áhugamál þeirra hjóna og eitthvað sem þau gera saman.
„Við elskum þetta og höfum verið dugleg að fara á fjöllin og fellin í kringum höfuðborgarsvæðið.“ Þau hafa einnig skráð sig í gönguhóp hjá Fjallafélaginu og fara í göngur með hópnum tvisvar í mánuði undir leiðsögn Haraldar Arnar Ólafssonar, sem á langan og farsælan feril að baki í fjallamennsku og heimskautaferðum.
„Okkur finnst þetta skemmtilegt. Það er svo gott að hafa þetta bara tvisvar í mánuði því þá er maður heldur ekki að binda sig of mikið.“
Í sumar gengu þau hjónin í kringum Mont Blanc í Frakklandi og hafa einnig gengið á íslenska tinda, s.s. hæsta tind Íslands, Hvannadalshnjúk, upp á Kverkfjöll og á fjalladrottninguna Herðubreið.
Hreyfing best í hófi
Það er nokkuð ljóst að virkni einkenni fjölskyldulífið og hafi alltaf gert, enda segir Kolbrún þau hjónin helst fara í hreyfiferðir. „Við höfum stefnt á að fara í hreyfiferðir á meðan við getum það en eigum klárlega eftir að prófa annars konar ferðir.“
Kolbrún hefur mikla trú á hreyfingu og segir hana undirstöðu jafnvægis í lífinu. Hreyfingin geti gert fólki svo gott andlega. Hins vegar þurfi þetta allt að vera í hófi og hún leggur áherslu að hreyfing megi ekki vera svo mikil kvöð að hún hætti að verða skemmtileg.
Hún nefnir sem dæmi að áður fyrr hafi róló-, hjóla- og fjöruferðir með dæturnar og útivera á borð við berjatínslu verið nóg hreyfing enda hafi börnin gengið fyrir og eigi alltaf að gera. Henni finnst hreyfing ekki mega taka of mikinn tíma af fólki svo bitni á fjölskyldunni.
„Þetta er spurning um hinn gullna meðalveg sem við reynum öll að finna.“