Brynjar Elís Ákason fæddist á Sjúkrahúsinu á Akureyri 4. apríl 1992. Hann lést 13. janúar 2025.

Hann var sonur hjónanna Bryndísar Karlsdóttur, f. 23.2. 1962, og Áka Elíssonar, f. 15.2. 1958, d. 12.3. 1994.

Systur Brynjars eru: 1) Fjóla, f. 28.7. 1980, eiginmaður hennar er Gísli Arnar Guðmundsson, f. 25.11. 1972. Börn þeirra eru Birta, Kári og Tinna. 2) Sóley, f. 20.6. 1986, eiginmaður hennar er Hannes Bjarni Hannesson, f. 16.12. 1986. Börn þeirra eru Bjarki Freyr og Karen. 3) Lilja, f. 1.9. 1988, eiginmaður hennar er Jón Pétur Indriðason, f. 15.6. 1987. Dætur þeirra eru Árný Ýr, Aníta Ósk og Arna Björk.

Eftirlifandi eiginkona Brynjars er Helga Þórsdóttir læknir, f. 29.6. 1995. Foreldrar hennar eru Þór Jónsson, f. 11.11. 1961, og Ásta Björg Pálmadóttir, f. 4.7. 1964.

Systkini Helgu eru Svala Aðalsteinsdóttir, f. 23.3. 1986, og Pálmi Þórsson, f. 11.2. 1998. Unnusta hans er Kristín Hermannsdóttir, f. 17.2. 1998.

Brynjar Elís bjó sín bernskuár í Borgarsíðu í Þorpinu á Akureyri og gekk í Síðuskóla. Hann sýndi snemma fram á leikni og samviskusemi í námi, og þá sérstaklega stærðfræði sem lá vel fyrir honum. Eftir grunnskóla lá leið hans í Menntaskólann á Akureyri þar sem hann stundaði nám á eðlisfræðibraut og útskrifaðist þaðan 17. júní 2012 með fyrstu einkunn. Á lokaári sínu í MA kynntist hann Helgu sem var á sínu fyrsta ári og voru þau óaðskiljanleg alla tíð síðan. Brynjar útskrifaðist með BSc-gráðu í iðnaðarverkfræði frá HÍ og fór svo í meistaranám í rekstrarverkfræði með fjármálaverkfræði sem aukagrein í Háskólanum í Reykjavík. Hann útskrifaðist þaðan sumarið 2019 og hlaut verðlaun fyrir námsárangur ásamt því að vera heiðraður af Verkfræðingafélagi Íslands fyrir meistararitgerð sína um lífeyrissjóðakerfið á Íslandi.

Samhliða námi starfaði Brynjar m.a. hjá Íbúðalánasjóði á Sauðárkróki og Lífeyrissjóði verslunarmanna. Eftir að námi lauk hóf hann störf við áhættustýringu hjá Arion banka. Þar starfaði hann allt þar til í mars 2024 þegar hann hóf störf hjá Kaupfélagi Skagfirðinga samhliða því að þau Helga fluttu norður á Sauðárkrók.

Brynjar Elís og Helga gengu í hjónaband 27. júlí síðastliðinn og höfðu þá verið í sambúð í rúmlega 10 ár.

Útför Brynjars verður frá Glerárkirkju í dag, 31. janúar 2025, klukkan 13.

Elsku hjartans Brynjar Elís minn.

Það er óraunverulegt að sitja hérna og skrifa minningarorð um þig. Þetta er eitthvað sem ég hélt ég myndi gera seint á ævinni eða jafnvel aldrei. Hvar á ég eiginlega að byrja?

Fyrst og fremst langar mig að þakka þér; þakka þér fyrir að elska mig, hafa trú á mér og vera minn helsti og mesti stuðningsmaður, endalausa þolinmæði, greiðviknina, allan góða matinn og auðvitað samvinnuna og samveruna.

Ég er svo stolt af því að hafa fengið að vera konan þín. Ég var alltaf svo montin af þér, og verð það alltaf. Þú varst einstakt ljúfmenni, hugulsamur, klár og svona get ég haldið endalaust áfram. Þú lést mér alltaf líða eins og ég væri eina manneskjan í heiminum sem skipti máli. Hér er ljóð sem ég fann sem mér finnst eiga svo vel við um þig:

Umhyggju og ástúð þína

okkur veittir hverja stund.

Ætíð gastu öðrum gefið

yl frá þinni hlýju lund.

Gáfur prýddu fagurt hjarta,

gleðin bjó í hreinni sál.

Í orði og verki að vera sannur

var þitt dýpsta hjartans mál.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Þú sagðir reglulega við mig að uppáhaldsstundirnar þínar væru um helgar, þegar við fengjum okkur kaffi og ég væri með hárið allt út í loftið, og við ræddum heima og geima. Þú sagðir líka reglulega við mig: „Það verður einhver að hugsa um lækninn svo hann geti hugsað um alla hina!“

Það var svo margt fram undan hjá okkur, og nú hefur heimurinn snúist á hvolf á augabragði. Ég syrgi þig og sakna þín, og á sama tíma syrgi ég allt það sem aldrei verður. Ég hef góðan stuðning frá öllu fólkinu okkar elsku Brynjar minn. Þú skilur eftir þig djúpt skarð í heiminum sem við þurfum öll að hjálpast að við að læra að lifa með. Minning þín mun aldrei gleymast og það er her af fólki sem hjálpast að við að halda henni á lofti.

Við höfum gengið í gegnum svo margt saman, mörg þroskastig, og þú og okkar ást hefur haft djúpstæð mótunaráhrif á mig. Því enda ég þetta á versi úr lagi frá Sálinni sem var spilað í brúðkaupinu okkar síðasta sumar og á vel við:

Ég er undir þínum áhrifum í dag

og verð áfram, enginn vafi er um það.

Ég elska þig Brynjar Elís, alltaf, að eilífu.

Sjáumst seinna.

Þín

Helga.

Heyr drottinn hjartans mál

hrópandi vora sál

í leit hvar þitt leiftur skín

ver þú í veikum rann

vektu þar ljósgeislann

lýsandi leið til þín.

Hugga þú særða sál

svo að vort þrautabál

breytist í birtu og frið.

Að lofheima hörpustreng

heim leið þú ljúfan dreng

leitandi þér við hlið.

(Sigurður Hansen)

Fyrir tæpum þrettán árum kom Brynjar inn í líf okkar eins og bjartur fagur sólargeisli. Hann og Helga dóttir okkar kynntust í Menntaskólanum á Akureyri og hófu fallegt samhent samband. Fyrstu árin í búskap þeirra einkenndust af því að vera í námi og naut Helga mikils stuðnings frá elsku Brynjari sem nú hefur kvatt okkur.

Dagarnir sem hafa liðið frá andláti Brynjars hafa verið þungbúnir og erfiðir en minningarnar eru bjartar og fallegar.

Minning um góðan, fallegan dreng með góða nærveru, sem veitti okkur hlýju og elsku.

Minning um dreng sem var duglegur, hjálpsamur og gæddur ríkri ábyrgðartilfinningu.

Minning um hljóðlátan, prúðan dreng með svo geislandi fallegt bros að það hlýjaði um hjartarætur.

Þessar góðu minningar og svo ótal margar fleiri geymum við nú þegar sorgin nístir hjörtu okkar.

Við hliðina á sorginni sitja þakklætið og gleðin yfir því að Brynjar var hluti af lífi okkar.

Farðu í friði, elsku hjartans vinur, og hafðu þökk fyrir allt og allt.

Guð geymi þig og varðveiti og styrki alla ástvini þína.

Ásta og Þór.

Elsku Brynjar minn, eða Excel-maðurinn okkar eins og við vorum vön að gantast með. Ég sé þig svo ljóslifandi fyrir mér daginn fyrir brúðkaupsdaginn ykkar Helgu síðasta sumar þegar við lögðum á borð og skreyttum salinn með Excel-skjalið þitt uppi á skjávarpanum sem sá til þess að allt væri samkvæmt áætlun og ekkert gleymdist, enda hugsaðir þú alltaf fyrir öllu.

Þú varst alltaf svo glaður og hjálpsamur og hafðir mikla unun af eldamennsku, sem við fjölskyldan nutum aldeilis góðs af með dýrindis máltíðum. Ég veit hversu mikið þú elskaðir Helgu systur enda barstu hana á höndum þér. Þín verður sárt saknað enda kvaddirðu okkur allt of snemma en minning þín lifir í hjörtum okkur áfram.

Hinsta kveðja og hjartans þökk.

Svala Aðalsteinsdóttir.

Kæri Brynjar.

Ég mun aldrei gleyma því þegar þú rúllaðir á Fordinum þinum frá Akureyri og upp í Háuhlíð í fyrsta skipti, aðeins til að sjá hvernig hún systir mín hefði það. En það einmitt lýsir því hvernig maður þú varst. Alltaf að hugsa um aðra og þá sérstaklega hana systur mína.

Ég sakna þess að heyra í þér og fá ráð. Ég sakna þess þegar þú heyrðir í mér fyrir aðstoð og varst alltaf svo þakklátur fyrir. Minning um frábæran mann svo sannarlega lifir. Ég hugsa til þín á hverjum degi og mun ætíð sakna þín.

Þinn mágur og félagi,

Pálmi.

Nokkur orð að lokum.

Skyndilegt fráfall Brynjars vinar okkar Eyrúnar var reiðarslag fyrir alla þá sem hann þekktu. Örfáum dögum fyrr hafði hann setið í einu af fjölmörgum matarboðum hér á Skeljagranda. Fyrirkomulag þeirra var nokkuð þægilegt. Við buðum Helgu og Brynjari í mat og Brynjar eldaði. Brynjar var raunvísindamaður. Fæddur með stærðfræðina í blóðinu og hugsaði í tölum. Hann sagðist einu sinni hafa fengið skammir í menntaskóla þegar hann átti að greina ljóð. Þær jöfnur urðu ógreinilegar. En matseldin var á mörkum listar og raunvísinda. Hann var góður kokkur. „Ég er með mælinn með mér,“ skrifaði hann mér rétt áður en hann mætti í síðasta matarboðið. Eðlilega hafði hann keyrt með kjöthitamælinn landshorna á milli. Ég hafði grínast í honum að matseldin væri ekki ástríða hjá honum heldur fyrst og fremst gagnaöflun, þar sem kjöthitamælirinn hafði veigameira hlutverk en salt og pipar.

Aðeins nokkur orð að lokum. Fáeinum dögum eftir andlát Brynjars leit Eyrún í litla myndavél sem Eyleifur sonur okkar á og lá á náttborði hans. Nýjasta myndin var af Brynjari að setja steikina í ofninn. Eyleifur hafði ákveðið að ljósmynda vin sinn. Tær barnshugur Eyleifs fann hlýju Brynjars frá fyrsta degi og honum þótti vænna um fáa. Hann fagnaði hverri heimsókn Brynjars og Helgu. Í lok síðasta árs hafði Helga óskað eftir því við Eyleif að hann málaði mynd sem hún gæti sett upp í vinnunni. Þegar við lögðum auðan strigann fyrir framan Eyleif sögðum við honum að hann mætti mála hvað sem væri. Án umhugsunar hóf hann að mála sig og Brynjar að veiða á bryggjunni á Sauðárkróki. Þeir höfðu rætt væntanlega veiðiferð sín á milli og því hafði Eyleifur ekki gleymt.

Örfá orð að lokum. Því menn eins og Brynjar eru vandfundnir. Við komum hvor úr sinni áttinni með flest. En Brynjar var forvitinn, afburðagreindur og hjartahlýr sem varð til þess að hægt var að takast á um allt af virðingu. Oftar en ekki með leiftrandi gleði og húmor.

Þær voru ófáar stundirnar sem við gleymdum stund og stað í sófanum á Skeljagranda í rökræðum eða vangaveltum og þér varð litið til Helgu og augnlokin voru farin að þyngjast á henni. „Jæja,“ sagðir þú, „jæja, Helga mín.“ Það var kominn tími til að fara. Því það var sama hvort umræðan var í miðju kafi í bankakerfinu eða á stjörnubjörtum himninum. Hún var aldrei merkilegri en ástin í lífi þínu, Helga.

Brynjar, mig langaði bara að rita nokkur orð að lokum. Þau eru í raun fá. Þau ná ekki utan um þig. Þau ná ekki utan um umhyggjuna. Þau ná ekki utan um vináttuna. Þau ná ekki utan um virðinguna. Ég vil bara þakka fyrir mig, kæri Brynjar. Minning þín mun lifa.

Björn Þór Björnsson.

Það er með miklum söknuði og trega sem við kveðjum í dag vinnufélaga og góðan dreng, hann Brynjar Elís Ákason. Fyrir það fyrsta var hann ekki bara frábær samstarfsfélagi heldur var hann líka skemmtilegur og drengur góður.

Við fengum því miður ekki langan tíma með Brynjari, hann hafði einungis starfað með okkur í tæpt ár. Brynjar hafði einstaklega góða nærveru, það var alltaf gaman að tala við hann um hvað sem var, því hann var fróðleiksfús og hafði áhuga á mörgu. Það reyndist okkur ávallt vel að leita til Brynjars því hann hafði gott lag á að greina aðalatriðin frá því sem minna skiptir máli, var mjög úrræðagóður og hjálpfús. Hann gaf sér góðan tíma til að taka umræðu eða leiðbeina, hvort sem það var við skrifborðið eða á kaffistofunni, en ávallt var Brynjar sérlega hógvær og kurteis.

Það var öllum ljóst að Brynjar hafði hæfileika til að takast á við margs konar krefjandi verkefni. Ótímabært fráfall hans er okkur öllum mikið áfall.

Við samstarfsfélagar Brynjars erum þakklát fyrir allt of stutt en frábær kynni.

Við færum Helgu, ættingjum og öðrum aðstandendum okkar dýpstu samúðarkveðjur. Megi góður guð styrkja þau á þessum erfiðu tímum.

Samstarfsfélagar hjá Kaupfélagi Skagfirðinga.

Við Brynjar Elís kynntumst í þriðja bekk í Menntaskólanum á Akureyri, hann á eðlisfræðibraut og ég á félagsfræðibraut. Það var alltaf gott að vera í kringum Brynjar og hann var vinmargur í menntaskólanum. Við tvö gátum rætt um alla heima og geima, og tengdumst saman í tónlistaráhuga, en við vorum líka bæði sérstaklega forvitin um fólk og flestar okkar samræður snerust um fólk og mannlegt eðli.

Brynjar var næmur á tilfinningar og var til staðar fyrir mig, bæði þegar við vorum nemar í MA en líka eftir útskrift. Brynjar Elís var sannur félagi, hlýr og fyndinn og ég gat alltaf leitað til hans. Spjallstundirnar okkar urðu æ færri með tímanum en ég hugsa til hans með hlýju og þakklæti fyrir vináttuna og stundirnar sem við áttum saman í MA. Ég votta eiginkonu Brynjars, fjölskyldu hans, vinum og bekkjarfélögum úr 4.X mína innilegustu samúð.

Bergrún Andradóttir.

Elsku Brynjar.

Seinustu vikur hafa verið erfiðar. Ég bíð eftir að fá símtal þess efnis að þetta sé allt einn stór misskilningur. Í ófá skipti hef ég opnað samtal okkar í messenger til að athuga hvort græni hringurinn sé ekki kominn aftur. En það er aldrei grænn hringur. Í staðinn les ég seinustu skilaboðin sem ég sendi þér aftur og aftur: „Ef þú vissir það ekki þá finnst mér þú MJÖG fyndinn.“

En þú varst ekki bara fyndinn. Þú varst líka með fallegasta hjartalagið. Þú hvattir mig alltaf áfram og minntir mig á hvers virði ég væri. Þú varst alltaf boðinn og búinn til að aðstoða hvort sem það var í vinnunni, við að brjóta upp flísar eða hjálpa mér að velja rauðvín. Svo varstu með svo ótrúlega góða nærveru.

Það er enginn annar sem mér hefur fundist betra að vinna með, hvort heldur sem var í námi eða starfi. Ég var alltaf viss um að leiðir okkar myndu liggja aftur saman í þeim efnum.

Ég er þakklát fyrir allar okkar minningar, en ég er líka sorgmædd yfir öllum þeim minningum sem ég taldi okkur hafa tíma til að búa til saman. Þið Helga voruð búin að búa ykkur til svo fallegt líf saman og okkur Þorbirni þótti alltaf jafn gaman að eyða tíma með ykkur, hvort sem það var í matarboði eða að dansa saman á árshátíð.

Takk fyrir dýrmætan vinskap síðustu 10 ár. Þú munt alltaf eiga stað í hjarta mínu. Þangað til við hittumst næst.

Þín vinkona,

Auður.

Elsku vinur, það er erfitt að ná utan um kaldan raunveruleikann. Orð fá ekki lýst hve sárt mér þykir að þurfa að kveðja þig en ég vil fá að þakka þér fyrir allt nú þegar við fylgjum þér síðasta spölinn.

Ég verð ævinlega þakklát fyrir að hafa fengið að vera samferða þér og Helgu þinni í öll þessi ár. Það dýrmætasta sem menntaskólaárin gáfu mér var vinskapur. Fyrsta árið okkar Helgu í Menntaskólanum á Akureyri lagði grunninn að þessu öllu, okkar vinskap og ykkar hjónabandi. Fallegra samband en ykkar er vandfundið. Þú varst stoð hennar og stytta og hún þín. Ég lofa þér að nú munum við, kæru vinir þínir, leggja okkur fram við að umvefja Helgu í sorginni og áfram veginn.

Ég get ekki kvatt þig án þess að þakka þér fyrir það hvað þið Björn Þór minn voruð góðir vinir. Ólíkir en samt líkir. Það sem skein í gegnum samskipti ykkar var kærleikur og virðing. Þrátt fyrir að þið væruð ólíkir þá áttuð þið það sameiginlegt að vera góðir menn.

Ég vil þakka þér fyrir þau ótalmörgu augnablik, hversdagsleg sem og sérstök, sem við áttum saman. Þegar þú kenndir mér stærðfræði eftir að ég hafði fallið á prófi í fyrsta sinn. Þegar þú komst að hitta nýfæddan son okkar Björns Þórs og varðst um leið jafnmikill vinur hans og okkar. Þegar þú, Helga og Dagbjört keyrðuð yfir landið til að vera með okkur á skírnardegi Eyleifs Odda. Þegar ég fylgdi ykkur Helgu í brúðarmyndatökuna ykkar síðasta sumar og svo skemmtum við okkur fram eftir nóttu með öllu ykkar fólki – sannkallaður draumadagur frá upphafi til enda. Uppáhaldsstundirnar mínar voru þær sem við vinirnir áttum öll saman í rólegheitum. Rétt eins og núna síðast. Næst þegar við hittumst og um ókomna tíð munum við tala um þig, hlæja og eflaust gráta. Við munum leggja okkur fram við að elda góðan mat þó að hann verði aldrei jafn góður og þegar þú varst við stjórnvölinn í eldhúsinu. Við munum „jæja“ þér til heiðurs og sitja svo aðeins lengur.

Þegar við Eyleifur Oddi, vinur þinn, fórum í gegnum myndir af þér um daginn minnti hann mig á að maður saknar af því maður elskar.

Takk fyrir samfylgdina, elsku Brynjar Elís. Þín verður sárt saknað um ókomna tíð.

Eyrún Björg
Guðmundsdóttir.

Við kynntumst Brynjari á fyrstu námsárum okkar og Helgu í læknisfræði. Okkur kom strax vel saman og varð Brynjar fljótt góður vinur okkar, ekki síður en Helga.

Brynjar var enginn venjulegur maður og hafði að geyma fleiri mannkosti en flestir aðrir. Hann var hæglátur en gamansamur, eldklár en aldrei yfirlætislegur, óhemju skipulagður og ótrúlega úrræðagóður. Brynjar nam og starfaði í fjármálum og hafði brennandi áhuga á öllu þeim tengdu. Það var alveg sama um hvað þurfti ráðgjöf; varðandi íbúðalán, fasteignabrask eða yfirvofandi vaxtaákvörðunum Seðlabankans, Brynjar gat alltaf gefið góð ráð. Fyrir öllum okkar spurningum og pælingum hafði hann endalausa þolinmæði og var alltaf boðinn og búinn að ræða málin, helst yfir rjúkandi kaffibolla.

Brynjar hafði þó áhuga á svo mörgu fleiru og var fljótur að tileinka sér nýja færni og þekkingu, alveg sama í hverju það fólst. Hann sýndi t.a.m. námi okkar Helgu mikinn áhuga og það var ótrúlegt að sjá hve mikið hann vissi um hina ýmsu sjúkdóma og kvilla, eftir að hafa hlustað á Helgu og hlýtt henni yfir. Til marks um það hlógum við oft að því þegar samstarfsfélagar hans leituðu til hans um skoðanir á hinum ýmsu heilbrigðistengdu málefnum; hversu lengi þyrfti að hósta áður en að sýklalyfja yrði þörf, hvaða COVID-bóluefni væri best og þar fram eftir götum.

Af öllum kostum Brynjars stóð þó einna hæst hve góður hann var við þá sem honum þótti vænt um. Hann lagði sig fram um að koma vel fram við vini sína og fjölskyldu og passaði að fólkinu sínu liði vel. Þetta kristallaðist í sambandi hans við Helgu sína, sem var einstakt. Þau hjónin voru afskaplega samstiga og báru svo mikla virðingu hvort fyrir öðru. Það var augljóst öllum sem til hans þekktu hversu innilega vænt honum þótti um hana.

Elsku Brynjar, það er svo sárt að hugsa til þess að þú sért farinn frá okkur. Það var svo margt sem við áttum eftir að ræða, sjá og gera. Matarboðin sem við áttum inni, sumarbústaðarferðirnar, heimsóknirnar á Sauðárkrók og allt hitt. Við munum sakna þín sárlega.

Þínir vinir,

Aðalbjörg og Teitur.

Elsku Brynjar.

Fréttirnar af fráfalli þínu voru okkur mjög þungbærar. Við eyddum flestum dögum saman síðustu tvö árin í MA. Þessi ár voru mótandi og flókin, námsefnið var líka þyngra en nokkru sinni áður. Fyrir vikið varð samstaðan í þessum litla bekk svo sterk, við bárum virðingu hvert fyrir öðru, hjálpuðumst að og gerðum samt líka stanslaust grín hvert að öðru. Það var svo auðvelt að grínast í Brynjari, hann svaraði alltaf fyrir sig með hnyttnum tilsvörum og hélt gríninu áfram.

Brynjar öðlaðist snemma orðspor fyrir gáfur sínar og metnað. Hvort sem það var í stóru upplestrarkeppninni, á samræmdu prófunum, í MA eða í háskóla, þá gaf hann sig allan í verkefnin og uppskar vel fyrir vikið. Brynjar hafði líka sérlega gott lag á kennslu, hjálpaði svo mörgum vinum sínum sem og ókunnugum að læra og skilja stærðfræði.

Við litum öll upp til Brynjars. Hann var dásamlegur maður og drengur og algjör höfðingi og greifi, svo agaður og fyrirmynd okkar allra. Brynjar var kjarni bekkjarins sem gaf okkur jafnvægi, þar sem hann bæði hélt okkur við námsefnið og gerði okkur kleift að taka frí fyrir sprell. Brynjar hafði einstaklega góða nærveru og í bekknum okkar var hann ekki hluti af einum vinahópi heldur var hann hluti af öllum hópum og náinn vinur okkar allra.

Gaman hefur verið að rifja upp sögur af nákvæmni Brynjars, þær eru svo lýsandi fyrir hans sterka karakter. Hljóðstyrkurinn í útvarpinu í bílnum hans þurfti alltaf að vera á sléttri tölu og blái 0,5 mm blýpenninn fylgdi honum fram að deginum fyrir síðasta prófið þegar hann týndist, fannst hann nokkurn tímann? Brynjar var alltaf fínn í tauinu og alltaf fyrstur inn í kennslustofuna á morgnana þar sem hann stillti sér upp aftast, og þá sérstaklega aftast í M8, og gerði svo góðlátlegt grín að okkur sem tíndumst inn á eftir honum.

Mikið var gott að sjá vin okkar finna ástina snemma hjá Helgu sinni. Þau áttu í einstöku sambandi, hlógu mikið og lærðu mikla stærðfræði saman. Á fyrsta ári í háskólanum var hann iðulega horfinn norður á fimmtudegi og lét ekki sjá sig aftur fyrr en seint á sunnudegi til þess að hitta Helgu sem bjó þá ennþá fyrir norðan.

Elsku Brynjar, þín er sárt saknað og við munum minnast þín um ókomna tíð. Til Helgu og fjölskyldu Brynjars sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Bekkjarfélagar úr X-inu,

Alexander, Árni,
Auður, Daníel, Gunnar, Hallfríður, Hilma, Ívan, Símon, Tandri, Tanja, Unnar og Þorsteinn.

Að byrja í grunnskóla er stór áfangi í lífi hvers barns. Freysteinn, eldri sonur okkar, byrjaði í grunnskóla haustið 1998 og nánast frá fyrsta degi hófst vinátta hans við strákinn í næsta húsi, Brynjar Elís. Þrátt fyrir að við hefðum búið hlið við hlið frá fæðingu þeirra höfðu þeir ekki leikið sér saman fyrr, voru ekki á sama leikskóla og höfðu ekki tengst í útileikjum. Skemmst er frá að segja að þessi vinátta varð til þess að Brynjar varð nánast daglegur gestur á okkar heimili og næstum eins og einn af fjölskyldunni. Þrátt fyrir að Brynjar hafi verið slæmur í fótum sem barn var hann í fótbolta með Freysteini alla daga og þeir brölluðu margt saman. Vinátta þeirra var einstaklega falleg og ég man aldrei eftir að þeim hafi orðið sundurorða. Þeir voru alltaf tveir saman þar til leiðir skildi þegar þeir fóru hvor í sinn framhaldsskólann. Eftir það hafa samskipti okkar fjölskyldunnar við Brynjar Elís ekki verið mikil en við höfum fylgst með honum úr fjarlægð.

Brynjar var einstakur drengur, kurteis og vel upp alinn, bráðgreindur og skemmtilegur. Missir fjölskyldu hans er mikill og við erum eins og aðrir harmi slegin. Minning um góðan dreng lifir áfram og við sendum fjölskyldu hans, Bryndísi, Fjólu, Sóleyju, Lilju, Helgu og öðrum ættingjum, innilegar samúðarkveðjur.

Þuríður, Þórhallur,
Snædís Anna, Freysteinn og Hallgrímur.