Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Áttatíu manns stofnuðu Newcastle klúbbinn á Íslandi 18. febrúar 2003. Starfsemin lá í dvala í um átta ár en var endurvakin í desember 2023 og hittast félagsmenn gjarnan í Ölveri til að horfa saman á leiki. Hafsteinn Þórðarson var einn stofnfélaga klúbbsins og hefur verið gjaldkeri hans frá upphafi. „Ég hef farið 40 sinnum á leiki með Newcastle á heimavelli, í „musteri guðanna“, frá 1979 og auk þess séð fjölmarga leiki liðsins á útvelli,“ segir hann. „Það eru ekki margir vellir liða í efstu deild á Englandi sem ég hef ekki heimsótt.“
Hafsteinn hefur búið í Hafnarfirði í 50 ár en fyrirtækið Glerborg var lengi að stærstum hluta í eigu þeirra Antons Bjarnasonar. Hann ólst upp á Bræðraborgarstígnum í Vesturbæ Reykjavíkur, spilaði fótbolta en varð að hætta í 3. flokki í KR vegna meiðsla. „Þegar ég stækkaði fór nárinn að gera mér lífið leitt og þar sem ég fékk enga meðhöndlun hætti ég í boltanum. Ég hef samt alltaf verið KR-ingur og fylgt liðinu. Þegar ekkert gekk í um 30 ár sótti ég alla leiki sem ég komst á og hef haldið því áfram.“
Búningurinn og Bítlarnir
Búningur Newcastle dró Hafstein að enska félaginu. „Ég er fæddur og uppalinn Vesturbæingur og held með Newcastle af því að liðið spilar í KR-búningum,“ útskýrir hann. Á uppvaxtarárunum hafi félagarnir gjarnan haldið með Manchester United eða Liverpool. „Ég reyndi að halda með „rauðum“ liðum á sínum tíma en tókst það ekki og þar sem ég þurfti ekki að vera eins og allir hinir byrjaði ég að halda með Newcastle.“ Að því sögðu segist hann bera virðingu fyrir félögunum í Liverpool. „Bítlarnir voru í uppáhaldi hjá mér og stemningin hjá Púllurunum fyrir leik á Anfield er frábær.“
Ferðaskrifstofan Alís í Hafnarfirði bauð upp á ferðir í beinu flugi til Newcastle í tæpan áratug undir lok síðustu aldar. „Ég fór með þeim öll árin og í flestum tilfellum í tvær til þrjár ferðir á hverju hausti.“ Auk þess hafi hann flogið til annarra breskra borga, meðal annars yfir 70 sinnum til Lundúna, og séð þar útileiki eða farið áfram til Newcastle vegna heimaleikja. „Fótbolti og söngleikir eru helstu áhugamálin,“ segir hann og bætir við að ættingjar hafi gjarnan farið með sér á leiki.
Hafsteinn hefur verið heiðraður í bak og fyrir vegna starfa að félagsmálum. Hann var meðal annars forseti Junior Chamber í Hafnarfirði og landsforseti hreyfingarinnar 1987-1988. Hann var í stjórn Fimleikafélagsins Bjarkar í Hafnarfirði um árabil og formaður í þrjú ár, í stjórn Íþróttabandalags Hafnarfjarðar í 16 ár og gjaldkeri Fimleikasambands Íslands í sex ár. „Ég hef alltaf verið fenginn til þess að passa upp á peningana og koma skipulagi á fjármálin,“ vekur hann athygli á.
Newcastle er í toppbaráttunni í ensku úrvalsdeildinni. „Það er alltaf gaman þegar vel gengur en bestu stuðningsmennirnir eru þeir sem halda tryggð við liðin þegar illa gengur,“ leggur Hafsteinn áherslu á.